Skip to content

Veikindaréttur hjá ríki og sveitar­félögum

Veikindaréttur er mismunandi eftir því  hvort starfsmaður er opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði. Hér er lýst sérreglum á opinberum markaði, þ.e. starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum.

Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist.

Starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum í kjarasamningi í a.m.k. 2 mánuði skal halda launum svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir:

  • 0-3 mánuðir í starfi – 14 dagar
  • Næstu 3 mánuðir – 35 dagar
  • Eftir 6 mánuði – 119 dagar
  • Eftir 1 ár – 133 dagar
  • Eftir 7 ár – 175 dagar
  • Eftir 12 ár – 273 dagar
  • Eftir 18 ár – 360 dagar

Við útreikning á veikindarétti er horft til fjölda veikindadaga síðustu 12 mánuði og sá fjöldi dreginn frá rétti starfsmanns. Til starfstíma (starfsaldurs) telst samanlagður starfstími hjá stofnunum ríkis, sveitarfélaga og hjá sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Fjarvera vegna veikinda barna

Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnustundir) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri.

Launagreiðslur í veikindum

Sé starfsmaður á föstum launum (fastlaunasamningi) fær hann sín föstu laun greidd hvort sem veikindin vara í eina viku eða lengur.

Launagreiðslur í veikindum miðast við það starfshlutfall sem viðkomandi er í þegar hann veikist:

  • Hafi starfsmaður verið í 100% starfi í einhver ár og verið kominn í 50% starf þegar hann veikist, miðast launagreiðslur í veikindum við 50% starfshlutfall.
  • Hafi starfsmaður verið í 50% starfi í einhver ár og verið nýlega kominn í 100% starf þegar hann veikist, miðast launagreiðslur í veikindum við 100% starfshlutfall.

Starfshæfnisvottorð

Starfsmaður sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð eða lengur, má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi.

Lausnarlaun

Þegar opinber starfsmaður verður fyrir langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa getur komið til umræðu að veita honum lausn frá störfum, með vísan til greinar í kjarasamningi þar um.

Þegar starfsmanni er veitt lausn á grundvelli ákvæðisins heldur hann föstum launum sínum í þrjá mánuði eftir að hann honum er veitt lausn frá störfum eða embætti.

Ítarefni: Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum og lögum