Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn

BHM leggur eftirfarandi spurningar fyrir þá flokka og þau framboð sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 30. nóvember 2024.

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Sjálfstæðisflokkurinn vill að fólk njóti ávinnings af sínu erfiði og uppskeri eins og það sáir. Samhliða þarf að tryggja afkomu og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu. Enginn komist á vonarvöl hvort sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar.
  • Sjálfsagt og eðlilegt er að menntun sé metin til launa varði menntunin viðkomandi starf eða efli sannarlega einstaklinginn í sínu starfi, geri hann að verðmætari starfskraft en ella.
  • Kjarasamningar undanfarin ár hafa einkennst af krónutöluhækkunum, þær hafa það óhjákvæmilega í för með sér að launastigar þjappast, munur á milli þeirra hæst launuðu og þeirra lægst launuðu minnkar. Sagan segir okkur þó að slík þjöppun varir oftast ekki lengi, nema breið sátt hafi myndast um launahlutföll í samfélaginu. Ella er ekki óeðlilegt að þau sem fjárfest hafa í menntun og reynslu sækist eftir viðeigandi umbun fyrir það, sem aftur þrýstur launastiganum í sundur. Minni miðstýring í kjarasamningum og meira frjálsræði í launasetningu, undir skýrum ramma hefur gengið vel á Norðurlöndum. Þaðan getum við lært margt.
  • Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að auka verðmætasköpun og bæta starfsumhverfi háskólamenntaðra stétta með markvissum aðgerðum. Flokkurinn styður fjölgun starfa í sérfræði- og þekkingargreinum, sem hefur verið helmingur af aukningu starfa á áratugnum 2013–2023. Áhersla hefur verið lögð á aukna framleiðni og nýsköpun með því að skapa verðmæti í nýjum atvinnugreinum, sem byggja á hugverkum, rannsóknum og þróun. Þetta er gert til að tryggja háskólamenntuðu fólki aukinn fjárhagslegan ávinning af menntun sinni.
  • Sjálfstæðisflokkurinn telur að frekari umbætur á skattkerfi og lækkun opinberra gjalda séu leiðir til að efla kaupmátt háskólamenntaðra. Með því að einfalda regluverk og hvetja til nýsköpunar má auka alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands, sem skilar sér í betri launakjörum og auknum tækifærum fyrir menntað fólk.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á jafnan rétt allra á vinnumarkaði, óháð kyni, og telur nauðsynlegt að tryggja jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Hvort og hvenær hallar á kyn við setningu launa er þó vandmetið. Sjálfstæðisflokkurinn telur ríkið ekki best til þess fallið að meta slíka þætti og telur mikilvægt að vinnan sé unnin í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Kafa þarf ofan í hin ýmsu störf, karlæg og kvenlæg.
  • Það er sjálfsagt að skoða þætti sem sannarlega eru mismunandi milli kynjaðra starfa (iðnaðarmenn fá t.d. margir hverjir álag vegna mikils hávaða við störf, en t.d. ekkileikskólakennarar). Þá þætti þarf að leiðrétta í kjarasamningum. Aðrir þættir eru oft illmælanlegir, persónubundnir ofl.
  • Ekki er í öllum tilvikum rétt að tala um að leiðrétta laun kvennastétta. Heldur að tryggja þurfi samræmi milli starfa sem á hvíla svipaðar skyldur, svipuð ábyrgð og svipað álag (hávaði, útivera, ...) óháð kyni.
  • Til þess að breytingar sem þessar geti gengið eftir þarf að ríkja breið sátt um þær á vinnumarkaði. Tryggja þarf að aðrar stéttir komi ekki í humátt á eftir og óski eftir svipaðri leiðréttingu, og það sem eftir stendur er óbreytt staða en hærri launakostnaður. Sagan er lituð af slíkum dæmum (sbr. kjarasamningar lækna 2014).
  • Jafnlaunavottun hefur sýnt okkur hversu auðvelt það er að lögbinda ákveðnar kvaðir sem ekki skila árangri og valda miklum tilkostnaði. Flokkurinn telur best að lausn sé fundinn í kjarasamningum þar sem ráðist er í heildstæða skoðun á hverju starfi fyrir sig, í breiðri sátt.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram fjölþættar lausnir til að mæta skorti á fagmenntuðu fólki í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu.
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill bæta menntun í heilbrigðisgreinum og fjölga nemendum. Við leggjum til að þróa einfaldara sjúkraliða- og hjúkrunarfræðinám til að bregðast við starfsmannaskorti.
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill bjóða heilbrigðismenntuðu fólki, sem snýr aftur heim úr námi erlendis frá skattaívilnanir. Þannig má leitast við að tryggja að fólk sjái hag af því að flytja aftur heim að námi loknu. Skattalegar ívilnanir munu koma til með að skila sér til baka til samfélagsins.
  • Lögð verði áhersla á að bæta starfsumhverfi til að draga úr álagi á viðkvæmar starfsstéttir og laða að nýtt fólk. Ekki er því síður mikilvægt að klára byggingu nýja Landspítalans. Með aukinni nýsköpun og fjölbreyttum rekstrarformum, bæði í mennta og heilbrigðiskerfi, hyggst flokkurinn skapa betra umhverfi fyrir fagfólk.
  • Við trúum á að markvissar aðgerðir í menntun og starfsskilyrðum leiði til betra jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði, sérstaklega í greinum sem nú glíma við mikinn skort.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Ekkert svar barst við þessari spurningu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt