BHM fái að taka þátt í opinberri stefnumótun um menntun og vinnumarkað framtíðarinnar

25.6.2018

  • frontglaera
    Haustið 2017 efndi BHM til ráðstefnu um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á vinnumarkað háskólamenntaðs fólks.

Formaður BHM, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur ritað forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, bréf þar sem hún lýsir yfir áhuga bandalagsins á að taka þátt í opinberri stefnumótun um menntun og vinnumarkað framtíðarinnar. Bréfið er ritað í tilefni af því að forsætisráðherra hefur skipað vinnuhóp sem skila á samantekt um álitamál sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni. Jafnframt hefur forsætisráðherra skipað svokallaða framtíðarnefnd sem fjalla á um helstu tækifæri og ógnanir Íslands í framtíðinni og huga að nauðsynlegum breytingum á löggjöf. Þá hefur mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, boðað mótun menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030.

Í bréfi formanns BHM er bent á að til að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni þurfi aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og háskólasamfélagið að stilla saman strengi sína. Þessir aðilar eigi að efna til formlegs samtals og skilgreina framtíðarþarfir vinnumarkaðarins. Mikilvægt sé að hefja þessa vinnu án tafar því þróunin sé hröð. Verði ekki brugðist við í tíma með opinberri stefnumótun og aðgerðum sé hættan sú að Ísland heltist úr lestinni. Þá sé mikilvægt að kennsla á öllum skólastigum þróist í takt við breyttar þarfir á vinnumarkaði: „BHM væntir þess að fá tækifæri til að taka virkan þátt í mótun opinberrar stefnu um þau álitamál sem fjallað verður um í framtíðarnefnd forsætisráðherra og á öðrum sameiginlegum vettvangi með stjórnvöldum," segir í niðurlagi bréfsins.

Bréf formanns BHM til forsætisráðherra