Aðild BHM að ITUC formlega samþykkt

6.12.2018

  • ituc_congress

Aðild BHM að Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (International Trade Union Confederation – ITUC ) var formlega samþykkt á heimsþingi samtakanna sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn. Meira en 1.200 fulltrúar launafólks frá 132 löndum sitja þingið en hlutverk ITUC er að standa vörð um réttindi og hagsmuni launafólks á heimsvísu, stuðla að samstarfi stéttarfélaga og vera í fyrirsvari fyrir launafólk gagnvart alþjóðastofnunum. Þunginn í starfi ITUC beinist að baráttunni fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á réttindum launafólks til að stofna og starfa í verkalýðsfélögum og rétt þeirra til að gera kjarasamninga. Auk BHM eiga tvenn önnur heildarsamtök íslensks launafólks aðild að ITUC: ASÍ og BSRB.

Með aðild að ITUC öðlast BHM hlutfallslegan atkvæðisrétt á heimsþingi samtakanna og rétt til þátttöku í starfsemi þeirra. Aðildin að ITUC tengist aðild BHM að Norræna verkalýðssambandinu (NFS) sem samþykkt var í apríl sl. Til að geta tekið fullan þátt í starfi NFS þarf BHM að gerast aðili að ITUC sem og Evrópska verkalýðssambandinu (ETUC) og Ráðgjafarnefnd stéttarfélaga hjá OECD (TUAC). NFS sér um að samhæfa þátttöku aðildarsamtaka sinna í ITUC, ETUC og TUAC. 

 

 

 


Fréttir