Áskorun 17 aðildarfélaga BHM til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur

1.12.2017

  • fundur2
    Frá sameiginlegum fundi BHM og félaganna 17 á Grand Hótel Reykjavík í morgun þar sem farið var yfir stöðu kjaraviðræðna.

 Sautján aðildarfélög BHM, sem nú eiga í kjaraviðræðum við ríkið, hafa sent svohljóðandi áskorun til ríkisstjórnar Íslands:

„Skorað er á nýja ríkisstjórn að ganga tafarlaust til kjarasamninga við aðildarfélög BHM. Í þrjá mánuði hefur hvorki gengið né rekið í kjaraviðræðum sautján aðildarfélaga BHM við ríkið. Samtal í raun hófst í ársbyrjun 2014. Við þessa stöðu verður ekki unað lengur.

Fjölmörg brýn hagsmunamál háskólamenntaðra sérfræðinga hjá ríkinu bíða úrlausnar. Fara þarf í nauðsynlegar leiðréttingar á launasetningu háskólamanna, en í því sambandi má nefna: hækkun grunnlauna ásamt endurskoðun launa ákveðinna hópa; styttingu vinnuvikunnar; bætt vinnuumhverfi og aðstæður á vinnustað; auk sérkrafna aðildarfélaganna. Ljóst er að fyrirsjáanlegur skortur á háskólamenntuðum starfsstéttum hjá ríkinu, t.d. í heilbrigðiskerfinu, krefst sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Í aðdraganda alþingiskosninga og ríkisstjórnarmyndunar hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi friðar á vinnumarkaði og stöðugleika í efnahagslífinu. Nú reynir á metnað og fyrirheit stjórnvalda í þessu efni. Ríkið er stærsti vinnuveitandi á Íslandi og hefur skyldur sem slíkur gagnvart þúsundum starfsmanna sinna sem eru félagar í aðildarfélögum BHM.

Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar í störfum sínum.

Dýralæknafélag Íslands
Félag geislafræðinga
Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins
Félag íslenskra félagsvísindamanna
Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands)
Félag íslenskra leikara
Félag íslenskra náttúrufræðinga
Félag lífeindafræðinga
Félag sjúkraþjálfara
Félagsráðgjafafélag Íslands
Fræðagarður
Iðjuþjálfafélag Íslands
Ljósmæðrafélag Íslands
Sálfræðingafélag Íslands
Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga
Stéttarfélag lögfræðinga
Þroskaþjálfafélag Íslands"