Atvinnuleysi meðal háskólafólks eykst milli ára

Fjöldi háskólamenntaðra á atvinnleysisskrá ekki meiri frá 2015

13.2.2019

Í janúar á þessu ári voru samtals 1.447 háskólamenntaðir einstaklingar skráðir án atvinnu, 828 konur og 619 karlar, samkvæmt nýjum tölum frá Vinnumálastofnun. Á sama tíma í fyrra voru samtals 1.095 háskólamenntaðir skráðir án atvinnu og hefur þeim því fjölgað um 352 milli ára eða um tæplega þriðjung. Fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hefur ekki verið meiri frá því í mars 2015.

Samtals voru tæplega 6.000 manns skráðir án atvinnu í janúar. Þar af voru hlutfallslega flestir eingöngu með grunnskólanám að baki eða 43%. Háskólamenntaðir voru tæplega fjórðungur atvinnulausra (24%) og er það svipað hlutfall og fyrir ári síðan. Atvinnuleysi mælist nú í heild 3% en var 2,4% á sama tíma í fyrra.

Bandalag háskólamanna hefur sent erindi til Vinnumálastofnunar og hvatt til þess að gripið verði til sérstakra aðgerða til að taka á vanda háskólafólks sem er án vinnu. Stofnunin hefur upplýst BHM um að hún hyggist leita samtarfs við fyrirtæki og stofnanir um að fjölga starfstækifærum fyrir háskólamenntaða í samráði við bandalagið. Einnig verði efnt til námskeiðahalds fyrir þennan hóp og ráðist í fleiri stuðningsaðgerðir.

Tafla – Fjöldi atvinnulausra eftir menntunarflokkum 

(Heimild: Vinnumálastofnun)

Atvinnuleysi_tafla

Tengd frétt:
Háskólamenntuðum á vinnumarkaði fjölgar ört (8.11.2018)