BHM fagnar setningu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði

13.6.2018

  • althingi_logo

Í vikunni voru samþykkt á Alþingi lög um jafna meðferð á vinnumarkaði sem leggja bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Markmiðið er að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er mikilvæg leið til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. 

BHM fagnar lagasetningunni enda tók bandalagið virkan þátt í undirbúningsvinnu vegna samningar frumvarps til laganna ásamt öðrum aðilum á vinnumarkaði sem stjórnvöld leituðu samráðs við. Þessi vinna stóð með hléum allt frá árinu 2003. Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu (2000/78/EB) og tilskipun um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna (2000/43/EB).

Alþingi hefur einnig samþykkt lög um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna þar sem kveðið er á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar.