BHM fagnar tillögum um aðgerðir í þágu greiðenda námslána

19.11.2019

  • lin_logo

Starfshópur forsætisráðherra leggur til að endurgreiðsluhlutfalli og vöxtum námslána verði breytt. Einnig leggur hópurinn til að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið að fullu og að innágreiðslu- og uppgreiðsluafsláttur verði hækkaður verulega. BHM fagnar tillögunum enda eru þær í samræmi við stefnu bandalagsins.

Síðastliðið sumar skipaði forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, starfshóp til að yfirfara reglur vegna endurgreiðslna námslána. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta auk fulltrúa frá BHM og iðnaðarmannafélögum. Fulltrúi BHM í hópnum var Georg Brynjarsson, hagfræðingur bandalagsins. Hópurinn hefur nú skilað tillögum sínum til ráðherra en þær fela í sér ýmsar aðgerðir til að koma til móts við greiðendur námslána.

Treystum því að tillögurnar verði framkvæmdar

„BHM fagnar þessum tillögum enda eru þær í samræmi við stefnu bandalagsins í málefnum námsmanna og LÍN,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. „Við höfum lengi barist fyrir breytingum á námslánakerfinu, meðal annars lægri greiðslubyrði og fullu afnámi ábyrgðarmannakerfisins. Við treystum því að stjórnvöld hefji þegar í stað vinnu við að hrinda þessum tillögum í framkvæmd.“

Leiðrétting endurgreiðsluhlutfalls og vaxta

Á undanförnum árum hafa laun almennt hækkað umfram verðlag. Þetta hefur leitt til þess að endurheimtur námslána hjá LÍN hafa verið mun betri en upphaflegar áætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir. Sjóðurinn hefur hagnast á þessu og fjárhagsstaða hans styrkst. Starfshópurinn leggur til að þessi staða verði nýtt til að leiðrétta endurgreiðsluhlutfallið, þ.e. það hlutfall af tekjum sem lántaki þarf árlega að greiða í afborganir. Eðlilegt sé að lántakar njóti sterkrar fjárhagsstöðu sjóðsins enda hafi þeir átt þátt í að byggja hana upp.

Lántaki greiðir árlega 3,75% eða 4,75% af launum sínum í afborganir, eftir því hvenær námslán var tekið. Starfshópurinn leggur til að endurgreiðsluhlutfallið verði annars vegar fært í 3,4% og hins vegar í 4,4%. 

Almennt vaxtastig er nú með allt öðrum hætti en þegar vextir námslána voru ákveðnir. Því má segja að opinber stuðningur við námsmenn hafi hlutfallslega lækkað verulega á undanförnum árum. Í samræmi við þetta leggur starfshópurinn til að vextir á námslánum verði færðir úr 1% í 0,4%.

Fyrir lántaka hefðu framangreindar breytingar í för með sér að afborganir af námslánum myndu lækka um sem næmi minni vaxtakostnaði. Með öðrum orðum, endurgreiðslubyrðin yrði léttari en endurgreiðslutíminn héldist svipaður fyrir og eftir leiðréttinguna.

Ábyrðarmannakerfið afnumið að fullu

Fram til ársins 2009 þurfti námsmaður sem hugðist taka lán hjá LÍN að fá einhvern annan – t.d. foreldri, náinn ættingja eða vin – til að ábyrgjast lánið. Árið 2009 var lögum um sjóðinn breytt og skilyrðið um ábyrgðarmann afnumið en áfram var gerð krafa um ábyrgðarmenn á eldri lánum. BHM hefur ítrekað bent á þá mismunun sem í þessu felst og sett fram þá kröfu að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið að fullu. Starfshópurinn leggur til almenna aðgerð þar sem ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum sem veitt voru fyrir 2009, eru í skilum og lánþegi er ekki á vanskilaskrá, verði felldar úr gildi. Þannig verði aðstöðumunur fyrri og seinni lántakenda jafnaður enda sýni lækkandi vanskilahlutfall hjá sjóðnum frá 2009 að þetta er vel gerlegt. Í rökstuðningi sínum bendir hópurinn á að nú er þess almennt krafist að lántaki fari í gegnum greiðslumat. Það hafi ekki tíðkast í tíð veittra ábyrgða. Auk þessa hafi lagabreyting fyrir um áratug síðan, um gjaldþrot einstaklinga, veikt stöðu ábyrgðarmanna. 

Aukinn afsláttur við inná- eða uppgreiðslu

Starfshópurinn leggur til að lántaki sem vill greiða inn á námslán eða greiða það upp að fullu fái ríflegan afslátt. Hópurinn telur að afslátturinn eigi að endurspegla þann hag sem LÍN hefur af því að lán séu greidd upp. Reikna skuli afsláttinn af fjárhæð niðurgreiðslunnar en afsláttarprósentan skuli ráðast af eftistöðvum láns. Afsláttarprósentan verði aldrei lægri en 5% en að hámarki 20%. Ef eftirstöðvar láns eru ein milljón króna eða lægri skuli afslátturinn vera 5% en séu eftirstöðvar meiri ein ein milljón skuli afsláttarprósentan hækka samkvæmt ákveðinni reiknireglu og ná 20% þegar eftirstöðvar eru 6,8 milljónir króna eða hærri. Þannig skili ávinningur sjóðsins af hraðari niðurgreiðslum sér beint til lántakenda sem séu í aðstöðu til að flýta niðurgreiðslu námsláns.