BHM hvetur þrjá ráðherra til að efna gefin fyrirheit

13.6.2018

  • Yfirlysing-rh-til-BHM---12feb2018
    Yfirlysing-rh-til-BHM---12feb2018
    Smellið á myndina til að stækka hana.

BHM hefur sent forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra bréf þar sem ráðherrarnir eru hvattir til að efna fyrirheit sem þeir gáfu í sameiginlegri yfirlýsingu þann 12. febrúar sl. Í yfirlýsingunni, sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga sautján aðildarfélaga BHM við ríkið, var því m.a. heitið að ráðist yrði í sérstakt átak við gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið til næstu 5–10 ára. Mótuð yrði stefna og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þá sagði í yfirlýsingunni að ráðist yrði í umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í samráði við aðildarfélög BHM. 

Nú eru liðnir fjórir mánuðir frá undirritun yfirlýsingarinnar og lítið sem ekkert hefur heyrst um gang mála frá hlutaðeigandi ráðuneytum en yfirlýsingin hafði úrslitaáhrif á það að mörg aðildarfélög BHM ákváðu að ganga frá kjarasamningum við ríkið í febrúar sl.

Í bréfi BHM til ráðherranna er þess krafist að staðið verði yfirlýsinguna og að stjórnvöld nýti vel tímann þar til kjarasamningar verða lausir að nýju til að vinna að þeim markmiðum sem yfirlýsingin felur í sér. Kjarasamningar aðildarfélaga BHM við ríkið verða lausir í lok mars á næsta ári. Enn fremur óskar BHM eftir því að fá upplýsingar um hvar vinna við að innleiða inntak yfirlýsingarinnar er stödd hjá þeim ráðherrum sem hana undirrituðu.

Yfirlýsingu ráðherranna þriggja frá 12. febrúar 2018 má einnig nálgast hér .