BHM tekur þátt í verkefni um vaxtarmöguleika netvanga á Norðurlöndum

9.1.2019

  • digital_platform

Heildarsamtök háskólafólks á Norðurlöndum hafa ákveðið að láta í sameiningu kortleggja vaxtarmöguleika „netvanga“ (e. digital platforms) í þessum löndum sem tengja saman kaupendur og seljendur sérfræðiþjónustu. Aðstandendur verkefnisins eru auk BHM heildarsamtök háskólamenntaðra í Danmörku (AC), Noregi (Akademikerne Norge), Svíþjóð (Saco) og Finnlandi (Akava). Norræni nýsköpunarsjóðurinn (Nordic Innovation – NI) fjármagnar verkefnið og á jafnframt beina aðild að því.

Verkefnið er þrískipt. Í fyrsta lagi verður unnin ítarleg úttekt á vaxtarmöguleikum netvanga sem hafa milligöngu um sérfræðiþjónustu í þessum löndum. Úttektin miðar m.a. að því að greina og setja fram tillögur um hvernig laga megi starfsemi netvanga að „norræna vinnumarkaðslíkaninu“. Hún verður unnin af norska fyrirtækinu Samfunnsøkonomisk analyse í samstarfi við Fafo sem er norsk rannsóknarstofnun á sviði vinnumarkaðsfræða. Í öðru lagi verður efnt til vinnustofu með þátttöku fulltrúa netvanga, vinnuveitenda og heildarsamtaka háskólafólks frá löndunum fimm. Í þriðja lagi verður gefin út skýrsla með niðurstöðum úttektarinnar og blásið til ráðstefnu á vormánuðum þar sem hún verður kynnt og rædd. 

Hvað eru netvangar?

Einn grunnþáttur hins svokallaða deilihagkerfis (e. sharing economy) eru vefsíður sem tengja saman kaupendur og seljendur vöru eða þjónustu. Slíkar vefsíður kallast „netvangar“ á íslensku. Dæmi um þekkta netvanga eru t.d. Airbnb og Uber en einnig eru til netvangar sem hafa milligöngu um þjónustu sem byggir á sérhæfðri þekkingu af ýmsu tagi. Í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar færist í vöxt að háskólamenntað fólk taki að sér verkefni í gegnum netvanga sem miðla sérfræðiþjónustu. Þetta fólk er ýmist í föstum störfum og vinnur sjálfstætt aukalega eða vinnur eingöngu sjálfstætt.