BHM væntir þess að Alþingi geri nauðsynlegar breytingar á LSR-frumvarpi

15.12.2016

BHM telur að nýtt frumvarp til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem nú liggur fyrir Alþingi, sé ekki í samræmi við samkomulag ríkis, sveitarfélaga og bandalaga opinberra starfsmanna sem undirritað var í september sl. Mikilvægt sé að frumvarpinu verði breytt í meðförum þingsins til að tryggja samræmi.

Í september sl. undirrituðu Bandalag háskólamanna (BHM), BSRB og Kennarasamband Íslands (KÍ) samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Í kjölfarið lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) sem var liður í að efna samkomulagið. Frumvarpið vék í veigamiklum atriðum frá efni samkomulagsins. BHM og önnur bandalög opinberra starfsmanna gerðu alvarlegar athugasemdir við þetta en sem kunnugt er náðist ekki að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok.  

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði sl. þriðjudag fram nýtt frumvarp um málið á Alþingi. Aðeins lítils háttar breytingar hafa verið gerðar á efnisinnihaldi miðað við fyrra frumvarp. Í umsögn BHM um þetta nýja frumvarp, sem send hefur verið efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, gerir bandalagið athugasemdir við tiltekin efnisatriði frumvarpsins auk þess að ítreka fyrri athugasemdir.

Að mati BHM er mikilvægt að breytingar á lögum um LSR verði í fullu samræmi við áðurnefnt samkomulag um skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Bandalagið væntir þess að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu í meðförum þingsins til að tryggja slíkt samræmi. 


Fréttir