Blásið til aukaaðalfundar BHM 1. nóvember

Verkefni fundarins að afgreiða tillögur að nýrri stefnu bandalagsins

12.10.2017

  • 2009-01-01-00.00.00-124
    Frá stefnumótunarþingi BHM sem haldið var í mars 2017.
  • 2009-01-01-00.00.00-114
    Önnur mynd frá stefnumótunarþingi BHM í mars 2017.
  • 2009-01-01-00.00.00-106
  • 2009-01-01-00.00.00-116

Boðað hefur verið til aukaaðalfundar BHM 1. nóvember nk. til að afgreiða tillögur að nýrri stefnu bandalagsins. Aðdragandinn er sá að í mars sl. komu um eitthundrað fulltrúar aðildarfélaga BHM saman og ræddu áherslur og baráttumál bandalagsins á stefnumótunarþingi. Verkefni þingsins var að rýna og endurmeta núgildandi stefnu bandalagsins sem samþykkt var á aðalfundi þess árið 2013. Í umræðum á þinginu komu fram margvísleg sjónarmið og hugmyndir sem skráð voru niður. Í kjölfarið voru helstu niðurstöður umræðunnar dregnar saman í tillögum að nýrri stefnu BHM. Þær voru síðan lagðar fyrir aðalfund BHM í maí. Fyrir fundinum lágu einnig tillögur að nýrri stefnu bandalagsins frá tveimur aðildarfélögum. Vegna umfangsins var ekki talið gerlegt að afgreiða þessar tillögur á aðalfundinum og var því samþykkt að vísa málinu til formannaráðs BHM til frekari úrvinnslu. Jafnframt var samþykkt að boðað skyldi til aukaaðalfundar nú á haustdögum til að afgreiða endanlegar tillögur að nýrri stefnu bandalagsins.

Formannaráð skipaði í ágúst fimm manna starfshóp til að vinna úr fram komnum tillögum og var hann að störfum í september. Hópurinn skilaði af sér tillögum að nýrri stefnu í byrjun október. Formannaráð samþykkti svo á fundi sínum 5. október að aukaaðalfundur skyldi haldinn 1. nóvember nk. Fundarboð hefur nú verið sent til allra aðildarfélaga BHM en samtals eiga félögin rétt á að senda 161 fulltrúa á fundinn. Hann verður haldinn í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, kl. 13.00–16:00.

Hér má nálgast fundargögn.