Evrópuráðstefna félagsráðgjafa haldin hér á landi

24.5.2017

  • evropuradstefna_felagsradgjafa

Dagana 28. til 30. maí nk. stendur Félagsráðgjafafélag Íslands fyrir Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa (IFSW European Conference) í Hörpu. Yfirskrift ráðstefnunnar er á ensku Marginalization and Social Work in a Changing Society eða Jaðarsetning í síbreytilegu samfélagi. Á ráðstefnunni koma saman rúmlega fimm hundruð þátttakendur, þar af yfir 300 erlendis frá, til að ræða margvísleg samfélagsleg málefni. Það sem brennur mest á nú eru málefni flóttafólks en málefni barna og fjölskyldna eru einnig áberandi enda fjölskyldur þungamiðja hvers samfélags. 

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru Helga Þórólfsdóttir félagsráðgjafi og Lena Dominelli, prófssor við Durham háskóla í Bretlandi. Erindi Helgu nefnist Crossing Borders: Social Work and Humanitarian Action. Erindi Lenu Dominelli nefnist Getting the "Short Straw": Precariousness, Marginalisation and Climate Change. Í framhaldi af erindi Lenu fara fram pallborðsumræður þar sem fjallað verður um hvernig hægt er að tryggja viðkvæmum hópum félagslegt öryggi í sjálfbæru samfélagi. Í umræðunni verður áhersla verður lögð á þá hópa sem fátækastir eru, hvaða áhrif niðurskurður í velferðarþjónustu á viðkvæma hópa, geðheilbrigði og notendasamráð, flóttafólk og virkni sem leið í stefnumótun. 

Alls verða um 80 áhugaverðar kynningar og vinnusmiðjur á ráðstefnunni um margvísleg samfélagsleg málefni. 

Félagsráðgjafar eru ein þeirra lykilfagstétta sem sinna félagsþjónustu og annarri velferðarþjónustu og hafa þeir alla tíð haft mikil áhrif á þróun íslensks velferðarsamfélags. Á vettvangi velferðarþjónustu eru félagsráðgjafar oft frumkvöðlar í þróun þjónustunnar, ýmist með öðrum félagsráðgjöfum eða samstarfsfélögum úr öðrum stéttum. Félagsráðgjafar á Íslandi starfa flestir hjá sveitarfélögunum, í félagsþjónustu, við barnavernd, málefni aldraðra og fatlaðs fólks og síðast en ekki síst í þjónustu við hælisleitendur og flóttafólk. Einnig starfa fjölmargir félagsráðgjafar við endurhæfingu, bæði hjá opinberum aðilum, Landspítala, VIRK starfsendurhæfingarsjóði og öðrum starfsendurhæfingaraðilum.