Fimm aðildarfélög BHM sömdu við ríkið

Nýr kjarasamningur kynntur félagsmönnum á næstu dögum

22.10.2019

Fimm aðildarfélög BHM hafa undirritað nýjan kjarasamning við ríkið og verður efni hans kynnt félagsmönnum þeirra á næstu dögum. Í kjölfarið verður efnt til atkvæðagreiðslu um samninginn meðal félagsmanna. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023.

Fulltrúar Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS), Félags íslenskra félagsvísindamanna (FÍF), Fræðagarðs – stéttarfélags háskólamenntaðra, Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) og Stéttarfélags lögfræðinga (SL) undirrituðu kjarasamninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær, 21. október.

Enn eiga 17 aðildarfélög BHM í kjarasamningaviðræðum við ríkið en samningar hafa verið lausir í næstum sjö mánuði eða frá 1. apríl sl.


Fréttir