Ávinningur af háskólanámi þarf að vera meiri

Formaður BHM ávarpaði þing Kennarasambands Íslands

10.4.2018

  • IMG_0109

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, flutti ávarp við setningu 7. þings Kennarasambands Íslands (KÍ) sem hófst í dag og stendur fram á föstudag. Hún byrjaði á að sýna þingfulltrúum kynningarmyndband sem BHM hefur látið gera til að útskýra þá meginkröfu bandalagsins að menntun sé metin til launa. Í myndbandinu er bent á að fólk sem sækir sér háskólamenntun kemur seinna út á vinnumarkað en aðrir og þarf að stofna til námslánaskulda til að kosta framfærslu sína á sama tíma og aðrir afla tekna til framfærslu og fjárfestingar. Einnig er vakin athygli á því að þau sem fara í háskóla eru í námi einmitt á þeim árum þegar fólk á vinnumarkaði ávinnur sér verðmætust lífeyrisréttindi í aldurstengdu ávinnslukerfi. 

Í ávarpi sínu sagði Þórunn meðal annars að ávinningur af háskólanámi þurfi að vera meiri en hann er nú til að fólk sjái sér hag í því að sækja sér slíka menntun. „Baráttan fyrir því er líklega stærsta og mikilvægasta verkefni okkar í BHM og ykkar í KÍ. Þar eigum við sannarlega samleið,“ sagði hún.

Hér á eftir fer ávarp formanns BHM í heild sinni.

„Mennta- og menningarmálaráðherra, formaður KÍ og aðrir góðir gestir.

Ég heilsa ykkur á sjöunda þingi Kennarasambandsins og þakka þann heiður að fá að ávarpa ykkur í dag.

Myndbandið um Önnu og Berglindi hefur vakið nokkra athygli og jafnvel verið harðlega gagnrýnt. Hvers vegna skyldi það vera?

Bandalag háskólamanna leyfir sér að benda á augljósar staðreyndir. Það kostar tíma, í æviárum, að sækja sér háskólamenntun, tíma sem ekki er varið í fullt starf á vinnumarkaði og tíma, sem er í raun verðmætustu árin á vinnumarkaði í ávinnslu lífeyrisréttinda. Mjög margir þurfa á þessum sama tíma að fjármagna framfærslu sína með verðtryggðum og vaxtaberandi námslánum.

Allar þessar staðreyndir eru þekktar og ættu ekki koma neinum á óvart en það að BHM leyfi sér að benda á að fjárfesting í langskólanámi krefjist umbunar í launum virðist virðist rugga vinnumarkaðsbátnum. Þó ekki Viðskiptaráði sem nýlega benti á þennan augljósa markaðsbrest á íslenskum vinnumarkaði.

Ávinningur af háskólanámi þarf að vera meiri en hann er. Baráttan fyrir því er líklega stærsta og mikilvægasta verkefni okkar í BHM og ykkar í KÍ. Þar eigum við sannarlega samleið. Við skulum líka hafa það hugfast að baráttan fyrir því að menntun sé metin til launa varðar einnig kynskiptingu vinnumarkaðarins. Það er að segja að stéttir þar sem konur eru í meiri hluta eru kerfisbundið með lægri launasetningu en stéttir karla sem hafa sambærilega menntun. Við getum því ekki leyft okkur að skoða viðfangsefnið einungis út frá einstaklingum á vinnumarkaði, heldur verðum við að greina það í ljósi verðmætamats samfélagsins á störfum kvennastétta annars vegar og blandaðra eða karlastétta hins vegar.

Í þessu mikilvæga máli gæta Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands sameiginlegra hagsmuna.

Að lokum óska ég þingfulltrúum góðra og gjöfulla þingdaga. Takk fyrir.“