Forysta BHM fundaði með forsætisráðherra

23.6.2017

  • mynd_launavisitala_2006
  • mynd_avinn_haskolamenntunar_2015

Forysta BHM átti í vikunni fund með forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, þar sem rætt var um stöðuna á vinnumarkaði í aðdraganda kjaraviðræðna 17 aðildarfélaga bandalagsins við ríkið. Sem kunnugt er samþykkti Alþingi lög á verkfallsaðgerðir aðildarfélaganna í júní 2015 og fól gerðardómi að úrskurða um kaup og kjör félagsmanna. Úrskurðurinn rennur úr gildi í lok ágúst nk. og eru því framundan samningaviðræður félaganna við ríkið.

Á fundinum áréttuðu fulltrúar BHM þá meginkröfu bandalagsins og aðildarfélaga þess að menntun sé metin til launa. Í þessu sambandi var bent á að nú, rúmlega einu ári eftir að svokallað menntunarákvæði gerðardóms tók gildi, er staðan sú að þorri félagsmanna aðildarfélaganna 17  hefur enn ekki fengið launahækkun byggða á ákvæðinu en hún átti að nema allt að 1,65% af launum. Á sama tíma hafa stéttir utan BHM og þær sem heyra undir kjararáð fengið hækkun sem samsvarar menntunarákvæðinu, án tilllits til menntunar.

Þá bentu fulltrúar BHM ráðherranum á tölur sem sýna að félagsmenn aðildarfélaga hjá ríkinu hafa dregist aftur úr félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ hjá ríkinu og launavísitölu Hagstofu Íslands sl. áratug (sjá línurit hér að ofan, smellið á til að stækka). Einnig var vakin athygli á tölum frá Hagstofunni sem sýna að hlutfall ráðstöfunartekna fólks sem eingöngu hefur grunnmenntun af ráðstöfunartekjum fólks með háskólamenntun er hvergi í Evrópu hærra en hér á landi. Ávinningur einstaklinga af háskólamenntun er með öðrum orðum minni hér en annars staðar í álfunni (sjá stöplarit hér að ofan, smellið á til að stækka).

Enn fremur komu fulltrúar BHM því á framfæri við ráðherra að í komandi viðræðum þurfi, fyrir utan kjarasamningsbundnar launahækkanir, að tryggja að allir félagsmenn aðildarfélaganna 17 sem rétt eiga á launahækkun samkvæmt menntunarákvæði gerðardóms fái hana. Einnig að sérkröfur aðildarfélaganna komist á dagskrá og að launasetning félagsmanna hjá fjölmörgum ríkisstofnunum, ekki síst í heilbrigðis- og menntunargeiranum, verði endurskoðuð. Sérstaklega þurfi að huga að launasetningu félagsmanna á Landspítalanum. Þá þurfi að tryggja stöðu nýrra opinberra starfsmanna í breyttu lífeyriskerfi og virða samkomulag um lífeyrismál sem bandalög opinberra starfsmanna gerðu við ríkið sl. haust.

Á fundinum var forsætisráðherra afhent minnisblað þar sem gerð er grein fyrir mati bandalagsins á stöðunni og áherslum í komandi kjaraviðræðum.