Félagsmenn BHM hjá ríkinu að meðaltali með um 718 þúsund krónur á mánuði árið 2017

21.8.2018

  • tafla_laun_rikisstarfsmanna2
    Smellið á myndina til að stækka hana.

Heildarlaun félagsmanna aðildarfélaga BHM sem starfa hjá ríkinu námu að meðaltali um 718 þúsund krónum á mánuði árið 2017, samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Dagvinnulaun þessa hóps voru að meðaltali um 607 þúsund krónur á mánuði. 

Heildarlaun BHM-fólks voru lægri en annarra hópa háskólamenntaðra sem starfa hjá ríkinu, þ.e. félagsmanna aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Verkfræðingafélags Íslands og Læknafélags Íslands, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að um meðaltöl er að ræða og einnig að töluverður munur er á launum milli aðildarfélaga innan BHM. Þannig voru félagsmenn í Félagi prófessora við ríkisháskóla að meðaltali með um 928 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun árið 2017 meðan heildarlaun félagsmanna í Iðjuþjálfafélagi Íslands voru að meðaltali um 542 þúsund krónur á mánuði, svo dæmi séu nefnd (sjá töfluna hér að neðan).

Tafla_laun_adildarfelaga_bhm_hja_rikinu