Kaldar kveðjur heilbrigðisráðherra til ljósmæðra

Yfirlýsing frá Ljósmæðrafélagi Íslands (LMFÍ) og Bandalagi háskólamanna (BHM)

10.4.2018

  • Ljosmaedur

Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær lét heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, orð falla sem skilja má sem svo að hún telji að ljósmæður geti sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig námi. Þessa stöðu megi rekja til þess að ljósmæður hafi valið að vera í sérstöku stéttarfélagi innan BHM. Ráðherrann gaf í skyn að hagsmunum ljósmæðra yrði betur borgið ef Ljósmæðrafélag Íslands, sem var stofnað árið 1919, yrði lagt niður og ljósmæður sæktu um aðild að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

LMFÍ og BHM lýsa undrun og vanþóknun á þessum ummælum heilbrigðisráðherra. Það blasir við öllum sem það vilja sjá að fullkomlega óeðlilegt er að ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig tveggja ára ströngu háskólanámi ofan á hjúkrunarfræðinám. Fráleitt er að rökstyðja eða réttlæta slíka launalækkun með vísan til þess að ljósmæður hafi valið að vera í sérstöku stéttarfélagi innan heildarsamtaka háskólamenntaðra á íslenskum vinnumarkaði. Staðan í kjaraviðræðum ljósmæðra við ríkið er alfarið á ábyrgð stjórnvalda sem hafa hafnað því að koma til móts við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur ljósmæðra.