Meirihluti félagsmanna telur álag í starfi of mikið

Rúmlega helmingur andvígur hækkun lífeyristökualdurs

10.8.2017

  • Mynd_Maskina

Um tveir þriðju svarenda í könnun sem nýlega var gerð meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM telja að álag þeirra í starfi sé of mikið en tæplega þriðjungur telur það vera hæfilegt. Aðeins um 1,6% svarenda telja að álag í starfi sé of lítið. 

22% svarenda telja að álagið aukist mikið þegar samstarfsmenn eru frá vinnu vegna veikinda, 46% að álagið aukist nokkuð við slíkar aðstæður en 32% að veikindi samstarfsmanna breyti engu um álag í starfi.  

Í könnuninni var einnig m.a. spurt um afstöðu til hugmynda um hækkun lífeyristökualdurs úr 67 árum í 70 ár í þrepum á næstu 24 árum. Aðeins um fjórðungur svarenda er mjög eða fremur hlynntur slíkri breytingu, um fimmtungur í meðallagi hlynntur henni en rúmlega helmingur andvígur henni. Þess má geta að nokkur munur var á afstöðu svarenda eftir aldri. Andstaða við hækkun lífeyristökualdurs eykst með auknum lífaldri og mælist mest í aldurshópnum 51–60 ára en er minnst meðal þeirra sem eru yngri en 30 ára (sjá töflu).

Afstaða til hækkunar lífeyristökualdurs  Hlynnt(ur)  Í meðallagi   Andvíg(ur
 Yngri en 30 ára  31%  40%  29%
 31–40 ára  27%  25%  48%
 41–50 ára  24%  20%  56%
 51–60 ára  23%  17%  60%
 61 árs og eldri  32%  20%  48%

Könnunin var gerð af fyrirtækinu Maskínu ehf. dagana 5. maí til 28. júní sl. og náði til handhófsúrtaks úr félagaskrám aðildarfélaga BHM sem eru 27 að tölu. Svarendur voru 2.232 en samtals eru um 13 þúsund manns innan raða félaganna.