Chat with us, powered by LiveChat

Stjórnvöld gefi skýr skilaboð um leiðina fram á við

BHM hefur sent minnisblað til ráðherranefndar um samræmingu mála vegna COVID 19

7.1.2022

  • COVID_-9

BHM hvetur stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar til að gefa í sameiningu skýr skilaboð um leiðina fram á við í faraldrinum.  Þetta kemur fram í minnisblaði Friðriks Jónssonar, formanns BHM, til ráðherranefndar um samræmingu mála vegna COVID 19.

Minnisblaðið var tekið saman í kjölfar fundar ráðherranefndarinnar með forystufólki samtaka launafólks og atvinnulífs sem haldinn var þriðjudaginn 4. janúar.

Að mati BHM er nú komið að ákveðnum vendipunkti í stefnumörkun aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Endurmeta þarf ásetning og meginmarkmið með hliðsjón af háu bólusetningarstigi, þeirri ógn sem mismunandi hópum samfélagsins stafar af veirunni og lýðheilsu- og efnahagssjónarmiðum á breiðum grunni. Jákvæðir hvatar til bólusetninga þurfa að vera í forgrunni. Þá þarf að huga þarf að kjörum og  réttindum foreldra vegna barna í þeirra forsjá sem gert er að sæta sóttkví, einangrun eða vegna annarra þátta sem tengjast COVID-19. Tryggja verður kjör og réttindi þeirra sem sæta sóttkví í orlofi skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Innan BHM er stór hópur heilbrigðisstétta sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í faraldrinum. Tryggja þarf öllu framlínustarfsfólki sem fyrst aukið svigrúm, öryggi, hvíld og réttláta umbun ef ekki á illa að fara. Bandalagið hefur kallað eftir því að starfsfólk innan heilbrigðis-, velferðar- og félagsþjónustu fái sérstakar álagsgreiðslur og að starfsmenn hafi greiðari aðgang að sálfélagslegri þjónustu og áfallahjálp. Bandalagið mun beita sér fyrir því að gerð verði rannsókn/könnun á heilsufari heilbrigðisstarfsmanna í kjölfar heimsfaraldurs.

Þá er það mat BHM að framlengja þurfi úrræði stjórnvalda, viðspyrnustyrki og tekjutengingar atvinnuleysisbóta ef ástandið dregst á langinn. Huga þarf þar sérstaklega að stöðu sjálfstætt starfandi eða þeirra sem eru með blandaða tekjuöflun. Þar eru listamenn sérstaklega berskjaldaður hópur fyrir frekari tekjumissi.

Hér má lesa bréf BHM til ráðherranefndarinnar. 


Fréttir