Námsstyrkir þyrftu einnig að ná til nemenda í öðrum háskólagreinum

Yfirlýsing BHM vegna hugmynda mennta- og menningarmálaráðherra um námsstyrki til kennaranema

25.1.2019

Nýlega viðraði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hugmyndir um að Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) greiði sérstaka styrki til kennaranema til að stuðla að aukinni aðsókn í námið og koma í veg fyrir kennaraskort í landinu. BHM fagnar þessum hugmyndum ráðherrans en bendir jafnframt á að svipaða leið þyrfti að fara til að tryggja nauðsynlega nýliðun í öðrum stéttum háskólamenntaðra. Ítrekað hefur komið fram að meðalaldur t.d. ljósmæðra og lífeindafræðinga er hár og á næstu árum munu stórir hópar þeirra fara á eftirlaun. Sá fjöldi nemenda sem nú stundar nám í þessum greinum mun ekki nægja til að fylla í skörðin.

BHM hvetur stjórnvöld til að grípa til róttækra aðgerða svo tryggja megi nauðsynlega nýliðun í þessum starfsstéttum og, eftir atvikum, í öðrum stéttum háskólamenntaðra sérfræðinga. Meðal annars ættu stjórnvöld að kanna möguleika á því að LÍN veiti nemendum í vissum greinum sérstaka námsstyrki.