Álag á vinnustað eykst - laun lækka eða standa í stað

Úr kjarakönnun BHM maí/júní 2010

24.6.2010

Niðurstöður nýlegrar kjarakönnunar BHM benda til þess að álag á vinnustað hafi aukist umtalsvert á sama tíma og laun lækka eða standa í stað.

Með öðrum orðum; félagsmenn BHM leggja meira á sig og bera á sama tíma minna úr býtum.

Fyrir ári síðan kom svipuð niðurstaða varðandi aukið álag í hliðstæðri könnun, þannig að þessi tilhneiging hefur verið viðvarandi um nokkurn tíma og ástæða til að ætla að ástandið sé orðið erfitt víða.

Í nýju könnuninni sögðu nær 70% álag hafa aukist á vinnustað síðustu mánuði, en í könnuninni fyrir ári síðan voru það ríflega 60% sem svöruðu á sama veg.

Þessar niðurstöður koma félagsmönnum BHM varla á óvart, enda er álag á vinnustað meðal helstu áhyggjuefna bandalagsins um þessar mundir.  Hvarvetna er verið að draga saman seglin og víðast hvar undir þeim formerkjum að viðhalda þjónustustigi.  Ríkið hefur sett fram leiðarljós um viðmið í aðhaldi á opinberum stofnunum, þar sem meðal annars er mælt fyrir um ráðningarbann.

Ekki er ráðið í störf sem losna af „náttúrulegum“ orsökum, svo sem við upphaf töku lífeyris eða þegar starfsmenn hætta störfum að eigin ósk.   Tímabundnir samningar hafa verið látnir renna sitt skeið án endurnýjunar. Endurskipulagning hefur einnig haft í för með sér uppsagnir í einhverjum mæli, auk þess sem starfshlutfall hefur víða verið fært niður.

Í opinbera geiranum hefur að mati BHM allt of lítið verið rætt um breyttar forsendur hvað varðar þjónustustig. 

Forysta BHM hefur ekki trú á því að hægt sé að viðhalda gæðum og öryggisákvæðum á sama tíma og dregið er úr mönnun og vinnuframlagi starfsmanna.

 

 


Fréttir