Úthlutunarreglur Sjúkrasjóðs BHM

16.1.2014

  • Logo-BHM

Úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM hefur verið breytt og tóku nýjar reglur gildi þann 1. janúar s.l. Hér að neðan eru helstu breytingar reglnanna útlistaðar.

Frá og með 1. janúar 2014 skal öllum gögnum skilað með rafrænum hætti í gegnum Mínar síður BHM.

  • Greinar 10 og 11 í úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM falla út. Í stað þeirra kemur inn styrktarliðurinn forvarnir (10. gr.). Undir hann falla a) reglubundin krabbameinsleit (kembileit) á brjósta- og/eða leghálskrabbameini, b) krabbameinsskoðun í ristli og/eða blöðruhálsi og c) áhættumat vegna hjartasjúkdóma.  Sjóðfélagi með fullan rétt getur fengið 20.000 kr. endurgreiddar á almanaksári vegna áðurtalins kostnaðar.
  • 13. grein úthlutunarreglnanna breytist þannig að sjóðurinn kemur til með að styrkja dvöl vegna endurhæfingar á Heilsustofnun NLFÍ eða Lækningarlindar Bláa lónsins vegna húðmeðferðar  um allt að 50.000 kr. á tveggja ára tímabili.
  • Fæðingarstyrkur tekur ekki lengur mið af starfshlutfalli. Nú er farið eftir inngreiðslum í sjóðinn sbr. 6. mgr. 3. gr. Þannig er einungis greiddur hálfur styrkur ef mánaðarleg iðgjöld  sjóðfélaga eru undir 1.500 kr. Fullur styrkur greiðist ef iðgjöld hvers mánaðar eru 1.500 kr. eða hærri.
  • Styrkur vegna meðferðar á líkama og sál hækkar í 65.000 kr. á almanaksári..
  • Hámarksgreiðsla sjúkradagpeninga verður 615.000 kr. á mánuði.
  • Ferðastyrkur vegna utanfarar til að sækja barn til ættleiðingar hækkar í 200.000 kr.
  • Útfararstyrkur verður 350.000 kr.

Athygli er vakin á því að reglurnar eru öllum aðgengilegar á vefsvæði sjóðsins.

Sjóðfélögum í Sjúkrasjóði BHM er bent á að sjóðurinn dregur ekki staðgreiðslu frá heilsuræktarstyrkjum. Styrkurinn færist sjálfkrafa til frádráttar á skattframtali fyrir árið 2013. Í þessu samhengi vill sjóðurinn benda á eftirfarandi heimild sem finna má í skattmati fyrir árið 2013 og tekur á kostnaði sem fellur til vegna endurhæfingar: “Ekki skal telja til tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun og aðra heilsurækt að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 50.000 kr. á ári.“

Samkvæmt skattmatinu fellur annar sambærilegur kostnaður einnig undir þessa heimild, þ.m.t. kostnaður vegna endurhæfingar. Með endurhæfingu er átt við líkamlegar sjúkrameðferðir sem gera fólki kleift að stunda vinnu áfram eða komast til vinnu aftur í kjölfar veikinda eða slysa. Að þessum skilyrðum uppfylltum getur kostnaður við nálastungur, sjúkraþjálfun og sjúkranudd fallið undir þessa heimild svo dæmi séu tekin. Ekki hefur verið talið að sálfræðiþjónusta falli almennt hér undir.

Sjóðfélögum er bent á að skoða þessa heimild sérstaklega við framtalsskil, sér í lagi hafi þeir fengið styrk árið 2013 vegna meðferðar á líkama og sál.

 


Fréttir