Samgöngustefna BHM

Vinnustaðurinn BHM

30.1.2014

 • Logo-BHM

BHM vinnur að því að efla vitund starfsfólks síns um vistvænar samgöngur, hvetur starfsfólk til að taka tillit til umhverfisins og aðstæðna hverju sinni og vill stuðla að heilbrigðari lífsháttum starfsfólks. BHM býður starfsmönnum upp á samgöngusamning vilji þeir tileinka sér vistvænar samgöngur til og frá vinnu.

Leiðir/vistvænar samgöngur

 • BHM hvetur starfsfólk til að nota almenningssamgöngur vegna vinnu.  
 • BHM hvetur starfsfólk til að ganga eða hjóla vegna vinnu.
 • BHM hvetur starfsfólk til að fara gangandi eða hjólandi á fundi ef það tekur 10 mínútur eða skemur að ferðast á milli staða, annars er notast við leigubíla eða strætisvagna ef það hentar og mun BHM kaupa staka miða í strætisvagna í því skyni. 
 • BHM hvetur starfsfólk til að fjölga síma- og fjarfundum þegar aðstæður leyfa.
 • BHM kappkostar að tryggja góða aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænar samgöngur. 
 • BHM mun standa fyrir fræðslufundum einu sinni á ári í því skyni að efla vitund starfsfólks um vistvænar samgöngur.

Samgöngusamningur BHM og starfsmanns

BHM býður upp á samgöngusamning fyrir þá starfsmenn sem nýta einhverja af ofantöldum vistvænum samgöngumátum að jafnaði.  

 • BHM greiðir fyrir samgöngukort fyrir starfsmenn sem nota almenningssamgöngur til vinnu eða andvirði samgöngukorts fyrir þá sem temja sér vistvænan samgöngumáta.  
 • Samgöngukort Strætó bs. er alltaf með 12 mánaða gildistíma.  
 • Starfsfólk sem gengur eða hjólar til vinnu fær greiddan útlagðan kostnað skv. reikningi og getur gildistími slíkra samninga verið frá þremur upp í 12 mánuði. Með kostnaði er t.d. átt við rekstrarkostnað á hjóli (naglar á hjóladekk eða aðra hjólaumhirðu), hlífðarfatnaðar og göngu- eða íþróttaskóbúnaðar, þó að hámarki þeirri  upphæð sem nemur andvirði samgöngukorts fyrir 12 mánaða tímabil. 
 • Samgöngukortið hjá Strætó bs. kostar (apríl 2013) kr. 49.900 og gildir það í 12 mánuði (12 mánaðar kort á verði 9 mánaðar korts).  Styrkveiting vegna útlagðs kostnaðar vegna annarra vistvænna samgangna miðar að hámarki við kostnað við samgöngukortið og breytast upphæðir í samræmi við breytingu á kostnaði við samgöngukort Strætó bs. 


Dæmi um útfærslu:
Starfsmaður gerir samning við BHM um 3ja mánaða notkun á hjóli sem ferðamáta, skilar inn kvittunum fyrir útlögðum kostnaði vegna viðhalds á hjóli eða kaupum á hlífðarfatnaði. Samgöngustyrkur getur að hámarki verið kr. 49.900 fyrir 12 mánaða tímabil.  Þannig er hármars greiðsla fyrir kostnað við 3ja mánaða samgöngusamning fjórðungur af þeirri upphæð eða kr. 12.475.


Fréttir