Orð ráðherra gefa fyrirheit um kjarabætur til handa félagsmönnum

Yfirlýsing frá Bandalagi háskólamanna vegna blaðamannafundar fjármála- og efnahagsráðherra

6.9.2017

Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, boðaði í gær til blaðamannafundar í tilefni af komandi kjaraviðræðum sautján aðildarfélaga BHM við ríkið. Kjarasamningar félaganna eru lausir eftir að gildistími gerðardóms frá 2015 rann út um síðustu mánaðamót. Á blaðamannafundinum sagði ráðherra m.a. að árangur í ríkisrekstrinum byggði á því að ríkið gæti laðað til sín og haldið í hæft starfsfólk. Í komandi viðræðum myndi ríkisvaldið leggja áherslu á að hlusta og vinna með viðsemjendum sínum að því sameiginlega markmiði að ríkið geti boðið samkeppnishæf kjör.

BHM fagnar þessum orðum ráðherrans og lítur svo á að í þeim felist fyrirheit um kjarabætur til handa félagsmönnum aðildarfélaganna. Einnig gefa orð ráðherrans von um að í komandi viðræðum verði ítarlega fjallað um ýmsar sérkröfur aðildarfélaganna sem þau hafa lengi beðið eftir að fá ræddar við samningaborðið. Bandalagið leggur áherslu á að samningsréttur aðildarfélaganna verði virtur og að gengið verði til kjaraviðræðna við þau af fullum þunga.