Launamunur milli kynja dregst saman

Konur innan ESB voru að jafnaði með 16% lægri laun en karlar árið 2016

9.3.2018

Íslenskar konur voru að jafnaði með 6,6% lægri laun en karlar árið 2008 en munurinn var 4,5% árið 2016, samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands á launamun kynjanna sem unnin var í samvinnu við aðgerðarhóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Óskýrður launamunur milli kynja var að jafnaði 3,6% á tímabilinu 2014–2016 en 4,8% á tímabilinu 2008–2010. Með óskýrðum launamun er átt við þann mun sem mælist á launum kynjanna eftir að búið er að leiðrétta launamun út frá ýmsum skýringarþáttum.

Óleiðréttur launamunur milli kynja var að jafnaði 16,2% í ríkjum Evrópusambandsins (ESB) árið 2016, samkvæmt rannsókn Eurostat, hagstofu ESB. Með óleiðréttum launamun er átt við þann mun sem er á launum kynjanna áður en leiðrétt hefur verið fyrir ýmsum þekktum skýringarþáttum. Mestur munur mælist í Eistlandi (25,3%) en minnstur í Rúmeníu (5,2%). Dregið hefur úr óleiðréttum launamun innan ESB frá árinu 2011 en þá mældist hann að jafnaði 16,8%. Óleiðréttur launamunur milli kynja mældist 16,3% hér á landi árið 2016 sem er mjög nálægt meðaltali ESB-ríkjanna.