Tillaga um breytt aðildargjöld samþykkt á aukaaðalfundi BHM með yfirgnæfandi meirihluta

Aðildargjöldin framvegis blanda af föstu gjaldi á hvern félagsmann og hlutfalli af heildarlaunum

26.11.2020

  • aukaadalf
    Ragnar H. Hall lögmaður stýrði fundinum.

Tillaga um breytt aðildargjöld til BHM var samþykkt á aukaaðalfundi bandalagsins sem haldinn var í dag í gegnum fjarfundabúnað. Með samþykktinni verður breyting á útreikningi gjaldanna. Í grófum dráttum felst hún í því að í stað þess að miða við hlutfall af heildarlaunum félagsmanna (0,17%) auk fasts gjalds á hvert aðildarfélag, eins og nú er gert, verður framvegis miðað við fast gjald á hvern félagsmann auk hlutfalls af heildarlaunum (0,034%). Áhrif þessarar breytingar eru mjög mismunandi eftir aðildarfélögum en fyrir flest þeirra þýðir hún að gjöldin munu í heild lækka. Samtals er áætlað að aðildargjöld til BHM muni lækka um nálægt 22 milljónum króna á næsta ári. Til þess að hægt væri að samþykkja breytt aðildargjöld þurfti að breyta lögum bandalagsins og samþykkti fundurinn tillögu þess efnis. Nálgast má frekari umfjöllun um breytingarnar og aðdraganda þeirra hér.

Um 84% samþykktu 

Samtals tilnefndu aðildarfélög BHM 178 fulltrúa til setu á fundinum og þar af skráði 171 fulltrúi sig inn á fundinn sem, eins og áður segir, var haldinn í fjarfundabúnaði. Af þeim sem skráðu sig inn á fundinn greiddu 164 atkvæði um fyrrnefndar tillögur en greidd voru atkvæði um breytt aðildargjöld og lagabreytingar í einu lagi. Niðurstaðan varð sú að 137 (83,5%) fulltrúar samþykktu tillögurnar, 20 (12,2%) voru á móti og 7 (4,3%) sátu hjá.

Þess má að lokum geta að á þessu ári hefur BHM haldið aðalfund, framhaldsaðalfund og aukaaðalfund. Tveir þessara funda voru haldnir í gegnum fjarfundabúnað.

Tengdar fréttir:

 


Fréttir