Tveir bjóða sig fram til varaformanns BHM

Opnað verður fyrir rafræna kosningu varaformanns BHM 22. apríl og lýkur henni 29. apríl

17.4.2020

  • Guðfinnur og Jóhann Gunnar
    GudfinnurogJohann_2

Auglýst var eftir framboðum til setu í stjórnum og nefndum BHM í lok janúar á þessu ári. Í samræmi við lög BHM verður kosið um varaformannsembættið í rafrænni kosningu fjórum vikum fyrir aðalfund. Kjörgengi hafa allir félagsmenn sem hafa hlotið meðmæli síns félags og bárust tvö framboð til embættis varaformanns BHM.

Opnað verður fyrir rafræna kosningu varaformanns BHM 22. apríl og lýkur henni 29. apríl, fjórum vikum fyrir aðalfund sem er áætlaður 27. maí. Kosningarétt hafa aðalfundarfulltrúar aðildarfélaga BHM.

Frambjóðendurnir eru: 

Guðfinnur Þór Newman

Guðfinnur Þór er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er löggildur verðbréfamiðlari frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur m.a. setið í stjórn BHM frá 2016 -2018, var formaður lagabreytingarnefndar BHM í eitt ár, og situr sem fulltrúi BHM í nefnd um jöfnun launa á milli markaða. Þá hefur hann sinnt vinnumarkaðsmálum sl. 20 ár. Guðfinnur Þór starfar sem framkvæmdastjóri Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, en hefur einnig starfað sem verkefnastjóri kjaramála hjá BHM, deildarstjóri tölfræði- og greiningar hjá Reykjavíkurborg og á lögfræði- og kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Hér má lesa kynningarbréf Guðfinns Þórs.

Jóhann Gunnar Þórarinsson

Jóhann Gunnar er með B.A. og Mag. Jur. gráður frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í evrópskri viðskiptalögfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Jóhann Gunnar er varaformaður Stéttarfélags lögfræðinga, hann situr í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna en hefur einnig gegnt formennsku í SÍNE (Sambandi íslenskra námsmanna erlendis) og setið í framkvæmdastjórn LÍS (Landssamtaka íslenskra stúdenta). Hann starfar sem fagstjóri leyfisveitinga og heimagistingar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Hér má lesa kynningarbréf Jóhanns Gunnars.