Chat with us, powered by LiveChat

Samtals óskað vegna breytinga á skipulagi ráðuneyta

1.12.2021

Ný ríkisstjórn er tekin við og fram undan eru miklar breytingar og uppstokkun milli ráðuneyta. Svo umfangsmiklar breytingar líkt og boðaðar eru á skipulagi Stjórnarráðsins og afleiddar afleiðingar þeim tengdar á undirstofnanir ráðuneyta, annarra ríkisstofnana og fyrirtækja eiga sér vart fordæmi.

Friðrik Jónsson, formaður BHM, sendi í dag erindi til forsætisráðherra þar sem óskað var eftir því að stjórnvöld veiti upplýsingar um með hvaða hætti eigi að framkvæma þessar skipulagsbreytingar og hvaða samráð hefur verið undirbúið eða áætlað af þeirra hálfu við stéttarfélög starfsmanna og heildarsamtök þeirra.

Það er mikilvægt að framkvæmdin gerist í sem breiðastri sátt, samráði og samstarfi við starfsfólk viðkomandi ráðuneyta og stofnana þannig að tryggja megi sem mesta og besta samfellu í starfi og draga úr óöryggi og óvissu tengdum þessum breytingum. 

Bandalag háskólamanna lýsir sig reiðubúið til slíks samtals og samráðs. Bandalagið mun einnig í samstarfi við þau aðildarfélög sín sem málið varðar fylgjast vel með framkvæmd breytinga og hafa frumkvæði að ábendingum til úrbóta þegar og ef þess gerist þörf.

Hér má lesa bréf formanns BHM til forsætisráðherra. Fréttir