Yfirlýsing BHM vegna kjaradeilu ljósmæðra við ríkið

BHM sendi í dag frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna kjaradeilu ljósmæðra við ríkið

5.7.2018

  • Ljosmaedur
„BHM lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands við ríkið. Velferð barnshafandi kvenna, nýbura og fjölskyldna þeirra er undir og miklir hagsmunir eru í húfi. Mæðravernd og fæðingarþjónusta eru einn af hornsteinum velferðarsamfélagsins.

BHM hefur ítrekað bent stjórnvöldum á vankanta stofnanasamninga hjá ríkisstofnunum. Ákvörðun fjárveitinga til stofnana er oft ekki í samræmi við þarfir þeirra en það hefur áhrif á launamyndun og launasetningu starfsmanna. Afleiðingin er viðvarandi skortur á starfsfólki og ónóg nýliðun í mikilvægum starfsstéttum innan BHM. Ástandið er óviðunandi  og  skaðar langtímahagsmuni samfélagsins að mati bandalagsins. Hvert stefnir opinber þjónusta ef ekki fæst fært og hæft fólk til starfa? Í dag eru það ljósmæður sem hverfa frá störfum hjá ríkinu  en fleiri stéttir gætu verið í svipaðri stöðu, t.d. þroskaþjálfar, sálfræðingar, náttúrufræðingar, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafar, lífeindafræðingar, leikarar, geislafræðingar og dýralæknar.

BHM hefur ásamt aðildarfélögum sínum lengi krafist þess að menntun sé metin til launa og fjármagn verði aukið til stofnanasamninga til að mæta þeirri kröfu. Að mati BHM byggist þessi kröfugerð á sameiginlegum hagsmunum ríkisins og starfsmanna þess. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um mannauðsmál ríkisins frá árinu 2011 er m.a. bent á að ríkið þurfi að ákveða hvernig vinnuveitandi það vilji vera. Það glími við hækkandi meðalaldur starfsmanna, mikla starfsmannaveltu, launamun á milli vinnumarkaða, aukið vinnuálag o.fl. Ábendingar Ríkisendurskoðunar frá árinu 2011 eiga ekki síður við í dag en brýn þörf er á að skapa ríkisstofnunum aukna möguleika til að vera skilvirkir og eftirsóknarverðir vinnustaðir.

Tannhjól opinberrar þjónustu mega ekki stöðvast og þurfa samningsaðilar hverju sinni að axla þá ábyrgð að ná samningum þannig að sem mest sátt ríki um þá.“