Upplýsingar fyrir félagsmenn vegna COVID-19

Hér má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um réttindamál á vinnumarkaði í tengslum við COVID-19. Einnig reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá Vinnumálastofnun.

Fordæmalausar aðstæður hafa skapast í íslensku samfélagi vegna COVID-19. Útbreiðsla sjúkdómsins hefur verið hröð á heimsvísu og hafa heilbrigðisyfirvöld beint þeim fyrirmælum til fólks sem hefur mögulega komist í snertingu við veiruna eða smitaða einstaklinga að vera í sóttkví í 14 daga. Þetta er gert til þess að hindra frekari útbreiðslu hér á landi. Vaknað hafa ýmsar spurningar um réttarstöðu þessara einstaklinga. 

Á þessari síðu er að finna efni sem félagsmenn aðildarfélaga BHM geta nýtt sér þegar spurningar vakna um réttindamál á vinnumarkaði við þessar sérstöku aðstæður. Einnig má hér nálgast reiknivél sem reiknar út laun miðað við að starfshlutfall sé skert og að hlutabætur komi frá Vinnumálastofnun á móti.

Fjarvistir starfsmanna frá vinnu geta verið af mismunandi ástæðum, til dæmis vegna þess að þeir eru í einangrun eða sóttkví vegna eigin smits eða smits annarra fjölskyldumeðlima. Þá geta fjarvistir verið vegna beiðni vinnuveitanda um að starfsmaður haldi sig fjarri vinnustað og/eða vinni heiman frá sér, vegna raskana á almenningssamgöngum eða ótta starfsmanna við að smitast ef þeir mæta til vinnu.

Félagsmenn aðildarfélaga BHM sinna fjölbreyttum störfum bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Ráðningarform félagsmanna og ákvæði viðkomandi kjarasamnings eru mismunandi og því reynt að haga upplýsingum og svörum eftir því.   

Atvinnuleysisbótaréttur aukinn - rýmkun á greiðslu hlutabóta

Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. 

„Afgreiðsla Alþingis á frumvarpinu er stórt skref í að mæta þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru uppi á íslenskum vinnumarkaði. Ég hvet atvinnurekendur að minnka frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna. Ef farin verður þessi leið verður viðspyrnan miklu snarpari og kraftmeiri þegar birta tekur á ný.“, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá VMST

Hvernig sæki ég um? 

 • Sótt er um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli í gegnum mínar síður hjá VMST.
 • Samhliða umsókn starfsmanns þarf vinnuveitandi einnig að skila inn ákveðnum upplýsingum á mínum síðum atvinnurekenda á vef VMST. Þegar upplýsingar liggja fyrir, bæði frá starfsmanni og vinnuveitanda, er hægt að afgreiða umsóknina um hlutabætur.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar sækja um atvinnuleysisbætur í gegnum mínar síður atvinnuleitenda.
 • Umsóknir um minnkað starfshlutfall munu gilda afturvirkt frá þeim degi sem starfshlutfall var minnkað, allt aftur til 15. mars 2020. Lögin gilda til 1. júní 2020 og verður úrræðið endurmetið þegar að nær dregur. 
 • Sjá nánar á heimasíðu VMST.

Gott að hafa í huga:

 • Laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur geta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði.
 • Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna miðað við þriggja mánaða tímabil áður en starfsmaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
 • Núverandi starfshlutfall þarf að lækka um a.m.k. 20%, en þó ekki neðar en í 25% starfshlutfall. (Dæmi: 100% í 80%, 50% í 30%)

 • Lögin ná ekki til aðila sem eru áfram í yfir 80% starfshlutfalli og nær ekki til þess þegar laun eru lækkuð eða einungis yfirvinnu er sagt upp.
 • Einstaklingar með 400.000 kr. eða minna í laun á mánuði geta fengið greidd 100% af meðaltali launa.
 • Hafi laun miðað við fullt starf fyrir skerðingu starfshlutfalls numið meira en 400.000 kr. skerðast laun frá vinnuveitanda og VMST ekki niður fyrir 400.000 kr.
 • Námsmenn geta átt rétt á bótum samkvæmt frumvarpinu enda uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði ákvæðisins.
 • Atvinnuleysisbætur greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli hafa ekki áhrif á rétt starfsmanna til greiðslu atvinnuleysisbóta í framtíðinni.
 • Vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið.
 • Skerðing á starfshlutfalli verður að byggja á samkomulagi milli aðila. Mikilvægt er að gengið sé skriflega frá samningi um lækkun starfshlutfalls. Starfsmanni er ekki skylt að verða við óskum vinnuveitanda um lægra starfshlutfall, hann á alltaf rétt á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.
 • Réttindi starfsmanna í Ábyrgðasjóði launa eru tryggð komi til gjaldþrots fyrirtækis. 

Jafnframt er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri. Sjá nánar á heimasíðu RSK og VMST

Reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá VMST

Laun í sóttkví – tímabundnar greiðslur

Alþingi hefur samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. 

Markmið laga þessara er að styðja vinnuveitendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Gildissvið laganna er í meginatriðum tvíþætt og tekur til launagreiðslna vegna:

 1. Launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30 apríl 2020. 
 2. Barna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda

Meginreglan verður sú að vinnuveitendur haldi áfram að greiða laun en ríkið endurgreiði þeim allt nema launatengdu gjöldin. Greiði vinnuveitandi ekki laun meðan á sóttkví stendur geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur. Lögin gera einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.

Gott að hafa í huga:

 • Greiðslur geta aldrei verið hærri en 633.000 kr. fyrir launamann miðað við heilan almanaksmánuð. 
 • Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem launamaður sætir í sóttkví eða annast barn í sóttkví nema 21.200 kr. 
 • Sæki starfsmaður um greiðslu á grundvelli laganna skal greiðsla taka mið af heildarlaunum fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum eða barn í hans forsjá var gert að vera í sóttkví, þó aldrei hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.
 • Greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví skal taka mið af mánaðarlegum meðaltekjum hans, sem taka mið af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið 2019. 
 • Sæki vinnuveitandi um greiðslu á grundvelli laganna skal greiðsla taka mið af heildarlaunum starfsmanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. 
 • Notast er við 30 daga í mánuði til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag. 
 • Ef starfsmaður í sóttkví sinnir sínu starfi í fjarvinnu mun eðlilega ekki koma til endurgreiðslu en geti hann einungis sinnt starfi sínu að hluta í fjarvinnu þarf að meta eðlilegt hlutfall endurgreiðslu.

VMST annast framkvæmd laganna. Unnið er að tæknilegum lausnum vegna greiðslna í sóttkví, sem verður hægt að sækja um hér.  

Réttindi starfsmanna hins opinbera, leiðbeiningar til stjórnenda

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur sent stjórnendum ríkisstofnana leiðbeiningar vegna COVID-19. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið undir þær leiðbeiningar og beint þeim til sveitarfélaga.

Í leiðbeiningunum kemur fram að:

 • Fari starfsmaður í sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda eða stofnunar greiðast meðaltalslaun skv. gr. 12.2.6 (?) í kjarasamningi en fjarvistir teljast ekki veikindi og þ.a.l. ekki veikindadagar.
 • Ef starfsmaður er veikur hvort sem það er sýking af COVID-19 eða önnur veikindi er sem fyrr greitt samkvæmt almennum ákvæðum veikindakafla kjarasamninga og veikindadagar telja.
 • Veikist einstaklingur í sóttkví breytist skráning úr meðaltalslaunum í laun í veikindum.
 • Ef fólk fer í sóttkví að eigin frumkvæði er um að ræða orlof eða launalausa fjarveru.
 • Starfsfólk í sóttkví er hvatt til að vinna að heiman (þegar við á) enda ekki um veikindi að ræða.

Myndræna framsetningu á leiðbeiningum til sveitarfélaga má sjá hér.
Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á vef Landlæknis.

Réttindi starfsmanna á almennum vinnumarkaði, tilmæli til atvinnurekenda

BHM hefur fengið staðfest að tilmæli SA til atvinnurekenda, um að laun verði greidd til starfsmanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, nái til allra óháð stéttarfélagsaðild. 

 • SA beinir þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til starfsmanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Hvert og eitt fyrirtæki verður að meta með hvaða hætti það mætir þeim tilmælum en SA telja mjög æskilegt að atvinnurekendur taki þeim með jákvæðum hætti, m.a. með hliðsjón af endurgreiðslu hluta kostnaðar af hálfu ríkisins. Sjá nánar tillögur hér.

Réttindi sjálfstætt starfandi

Greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli

 • Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri (sjá eyðublað RSK 5.02(?)). Athugið ekki þarf að stöðva rekstur heldur eingöngu tilkynna um verulegan samdrátt rekstrar til skattsins. 
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar sækja um atvinnuleysisbætur í gegnum mínar síður atvinnuleitenda hjá VMST. Umsóknir um minnkað starfshlutfall munu gilda afturvirkt frá þeim degi sem starfshlutfall var minnkað, allt aftur til 15. mars 2020. 
 • Sjá nánari upplýsingar og greinargóðar leiðbeiningar á heimasíðum RSK og VMST

Gott að hafa í huga:

 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar á aldrinum 18 - 70 ára eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarrétt og uppfylli ákveðin skilyrði.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur þarf að tilkynna um verkefni/vinnu sem hann sinnir meðfram greiðslum atvinnuleysisbóta.
 • Sjá reiknivél BHM til að sjá breytingu á launum. 

Laun sjálfstætt starfandi sem sæta sóttkví

 • Alþingi hefur samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Lögin gera einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.
 • VMST annast framkvæmd laganna. Unnið er að tæknilegum lausnum vegna greiðslna í sóttkví, sem verður hægt að sækja um hér.  
 • Sjá einnig upplýsingar á heimasíðu RSK

Gott að hafa í huga:

 • Greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví skal taka mið af mánaðarlegum meðaltekjum hans, sem taka mið af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið 2019. 
 • Greiðslur geta aldrei verið hærri en 633.000 kr. fyrir launamann miðað við heilan almanaksmánuð.
 • Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem launamaður sætir í sóttkví eða annast barn í sóttkví nema 21.200 kr.
 • Notast er við 30 daga í mánuði til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag. 
 • Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur í sóttkví sinnir sínu starfi í fjarvinnu mun eðlilega ekki koma til endurgreiðslu en geti hann einungis sinnt starfi sínu að hluta í fjarvinnu þarf að meta eðlilegt hlutfall endurgreiðslu.

Sjúkrasjóður BHM

 • Þá hafa flestir sjálfstætt starfandi félagsmenn aðildarfélaga BHM aðild að Sjúkrasjóði BHM og geta átt rétt til sjúkradagpeninga að liðnum tilteknum fresti ef þeir veikjast. 

Persónuvernd

 • Stjórnvöld og mörg fyrirtæki hafa nú þegar gripið til ýmissa ráðstafana til að hefta útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Margar þessara ráðstafana fela í sér vinnslu persónuupplýsinga (svo sem nafn, heimilisfang, vinnustað, ferðaupplýsingar o.fl.) og jafnvel vinnslu með viðkvæmar persónuupplýsingar eins og heilsufar. Slík vinnsla er í flestum tilfellum heimil en gæta þarf meðalhófs og gagnsæis.
 • Persónuvernd, í samráði við sóttvarnalækni, hefur tekið saman helstu atriði sem máli skipta við vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við Covid-19 á vinnustöðum. 

Spurt og svarað

Hér að neðan er leitast við að svara helstu spurningum sem vakna vegna réttarstöðu félagsmanna aðildarfélaga BHM. Sumar spurningar og mál eru þess eðlis að ekki er hægt að svara þeim með einföldum hætti og þarf því að skoða þau sérstaklega. Félagsmönnum er bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag fyrir frekari upplýsingar. 

Laun

Á ég rétt á launum ef ég veikist af völdum COVID-19?

Ef þú ert veik/ur í sóttkví átt þú sama rétt á launum og þú ættir ef þú værir frá vinnu vegna almennra veikindaforfalla. Kjarasamningsbundinn veikindaréttur er mismunandi eftir því hvort þú ert opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði og miðar þetta við að þú hafir ekki verið búin/n að fullnýta rétt til launa í veikindaforföllum vegna fyrri veikinda.

Eftir að rétti til launa í veikindum sleppir hjá vinnuveitenda getur þú átt rétt á greiðslum frá Sjúkrasjóði BHM eða Styrktarsjóði BHM og/eða frá almannatryggingakerfi.

Á ég rétt á launum ef ég er send(ur) í sóttkví af heilbrigðisyfirvöldum?

Almennur vinnumarkaður: SA hefur beint þeim tilmælum til atvinnurekenda að greiða starfsmönnum laun í sóttkví, en geta ekki skuldbundið þá til þess. Annað gildir ef þú þarft að sæta sóttkví eftir vinnuferð á vegum atvinnurekanda. Sá tími sem þú dvelur í sóttkví gengur ekki á veikindarétt þinn.

Alþingi hefur samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. VMST annast framkvæmd laganna. 

Hið opinbera: Þeir starfsmenn sem eru sendir í sóttkví samkvæmt fyrirmælum frá heilbrigðisyfirvöldum eða vinnuveitanda sínum skulu fá greidd meðaltalslaun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og skal fjarvist ekki talin til veikinda. Þannig er starfsmaður ekki að ráðstafa orlofi/veikindarétti sínum vegna tímabilsins.

Á ég rétt á launum ef ég ákveð sjálf(ur) að fara í sóttkví?

Þeir starfsmenn sem fara í sjálfskipaða sóttkví (þ.e. ákvörðunin er eingöngu þeirra sjálfra) eru launalausir eða þurfa að taka orlofsdaga á tímabilinu. Þeim sem eru í þessum hugleiðingum er ráðlagt að hafa samband við vinnuveitanda og tryggja að litið sé á fjarvistina sem leyfi en ekki riftun á ráðningarsamningi.

Ríkið: Starfsmaður sem fer í sjálfskipaða sóttkví, án atbeina læknis, nýtur almennt ekki launa á meðan enda ekki um staðfest veikindi að ræða. Í ljósi tilmæla embættis landlæknis um að ekki skuli ónáða lækna að óþörfu skal stofnun meta nauðsyn þess í hverju tilfelli fyrir sig hvort hún kalli eftir læknisvottorði svo unnt sé að greiða laun í veikindum.

Á ég rétt á launum ef vinnustaðnum mínum verður lokað vegna COVID-19 og getur vinnuveitandi farið fram á vinnuframlag?

Já þú átt rétt á launum á meðan vinnustaðnum þínum er lokað vegna COVID-19 og vinnuveitandi þinn getur farið fram á vinnuframlag með fjarvinnu (að því gefnu að þú hafir aðstöðu til fjarvinnu). 

Á ég rétt á launum ef vinnuveitandi sendir mig í sóttkví? 

Ákvörðun um sóttkví er tekin á grundvelli sóttvarnarlaga af viðeigandi yfirvöldum. Óski vinnuveitandi eftir því að þú mætir ekki til starfa þó þú hafir ekki fengið fyrirmæli um að vera í sóttkví skal hann greiða þér full laun meðan á fjarvist stendur.

Vinnuveitandi getur farið fram á fjarvinnu á meðan sóttkví stendur, að því gefnu að þú hafir aðstöðu til þess og ert ekki veik/ur. Fjarvinna í sóttkví telst ekki til veikindadaga. Ef þú svo veikist á meðan sóttkví stendur telst það til veikinda og vinnuveitandi getur ekki gert kröfu um vinnuframlag. 

Á ég rétt á launum ef ég er kyrrsett/ur af erlendum yfirvöldum vegna COVID-19 í vinnuferð erlendis?

Vinnuveitandi er ábyrgur fyrir starfsmanni á meðan hann er í vinnuferð erlendis. Ef starfsmaður er fastur annars staðar eftir vinnuferð, þá heldur starfsmaður launum á meðan hann er kyrrsettur. Jafnframt er eðlilegt að vinnuveitandi komi til móts við starfsmann með greiðslu útlagðs kostnaðar vegna fæðis og gistingar sem af þessu stafar innan eðlilegra marka. 

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með veikt barn í sóttkví?

Um það gilda reglur kjarasamninga um fjarvistir foreldra vegna veikra barna. Einnig geta réttindaákvæði sjúkrasjóðanna átt við eftir atvikum.

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með barn í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda? 

Barn sem sætir sóttkví án þess að vera veikt fellur ekki undir greiðsluskyldu vinnuveitanda. Öðru gildir ef barnið er veikt í sóttkví, en um það gilda reglur kjarasamninga um fjarvistir foreldra vegna veikra barna. 

Samkvæmt lögum um tímabundnar greiðslu vegna launa einstaklinga í sóttkví er heimilt að endurgreiða vinnuveitanda hluta launagreiðslna vegna starfsmanna sem þurfa að sinna börnum (?) sínum sem sæta sóttkví. Kjósi atvinnurekandi að hafa ekki milligöngu um þessar greiðslur, t.d. vegna viðbótarkostnaðar sem á hann fellur vegna launatengdra gjalda, getur starfsmaður sótt um greiðslur beint til VMST.

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með barni mínu vegna lokun leikskóla/grunnskóla?

Nei. Nauðsynleg fjarvist, þegar annarri umönnun er ekki komið við, getur heimilað launalausa fjarvist frá vinnu án þess að um vanefnd á ráðningarsamningi sé að ræða. Vinnuveitandi og starfsmaðurinn geta einnig gert með sér samkomulag um að starfsmaður vinni heima eða taki út orlofsdaga. 

Ríkið: KMR hefur beint þeim tilmælum til stofnana að sýna starfsfólki sínu eins mikinn sveigjanleika og unnt er miðað við þær aðstæður sem uppi eru. Stofnanir hafa eðli málsins samkvæmt mismikið svigrúm til að koma til móts við starfsfólk vegna eðlis starfa viðkomandi, hvort um bundna viðveru sé að ræða eða sveigjanlega o.s.frv. Að sinni beinum við þeim tilmælum til stofnana að útfæra þetta í sínu nærumhverfi. Verði breyting á þessum tilmælum mun KMR upplýsa stofnanir um það hið fyrsta.

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með aldrað foreldri?

Nei. Nauðsynleg fjarvist, þegar annarri umönnun er ekki komið við, getur heimilað launalausa fjarvist frá vinnu án þess að um vanefnd á ráðningarsamningi sé að ræða.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Starfsmaður á rétt á allt að hálfsmánaðar fríi á mánaðarlaunum skv. gr. 1.1.1 (?) vegna sjúkdóms eða slyss nákomins ættingja/aðstandanda sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns. 

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima vegna undirliggjandi sjúkdóms eða annarra fjölskyldumeðlima sem eru í áhættuhóp? 

Almennt eru þeir starfsmenn sem ákveða sjálfir að vera heima í launalausu leyfi eða þurfa að taka orlofsdaga á tímabilinu.

Hafi viðkomandi hinsvegar læknisvottorð sem kveður á um að halda sig heima, t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóms, teljast fjarvistir sem veikindadagar. Vinnuveitandi og starfsmaður geta þó komist að samkomulagi um fjarvinnu, að því gefnu að viðkomandi er vinnufær og hafi aðstöðu til fjarvinnu.

Hafi annar aðili á heimilinu undirliggjandi sjúkdóm, og er talinn í áhættuhóp af heilbrigðisyfirvöldum vegna COVID-19, má viðkomandi starfsmaður vera heima. Almennt er það þó í launalausu leyfi eða telst til orlofsdaga á tímabilinu, nema um annað hafi verið samið eins og t.d. fjarvinnu. 

Ríkið: Fari starfsmaður í sóttkví að beiðni læknis vegna undirliggjandi sjúkdóma fær viðkomandi greidd veikindalaun og er litið á þær fjarvistir sem veikindi. Almennt ætti starfsmaður að skila læknisvottorði við þessar aðstæður en í ljósi tilmæla embættis landlæknis skal stofnun meta nauðsyn þess í hverju tilfelli fyrir sig.

Skert starfshlutfall, uppsögn eða gjaldþrot

Getur vinnuveitandi skert starfshlutfall mitt vegna COVID-19? 

Almenna reglan er sú að vinnuveitandi getur ekki einhliða skert starfshlutfall starfsmanns nema með uppsögn og þá gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd og lengd uppsagnarfrests. Vinnuveitandi og starfsmaður geta með samkomulagi tímabundið breytt starfshlutfalli starfsmanns. Mikilvægt er að gert sé skriflegt samkomulag þar um þar sem m.a. kemur fram tímalengd og sérstakar undantekningar (t.d. varðandi veikindalaun og uppsögn miðað við fyrra starfshlutfall).

Að gefnu tilefni er bent á að vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið.

Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Jafnframt er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri.
Sótt er um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli í gegnum mínar síður hjá VMST. Umsóknir um minnkað starfshlutfall munu gilda afturvirkt frá þeim degi sem starfshlutfall var minnkað, allt aftur til 15. mars 2020. Lögin gilda til 1. júní 2020. 
Bent er á reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá VMST.

Hvernig fer lækkun á starfshlutfalli fram? 

Vinnuveitandi getur sagt upp hluta starfshlutfalls með sama fyrirvara og uppsagnarfrestur. Sé það gert gilda ákvæði kjarasamninga um uppsögn og uppsagnarfrest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM

Vinnuveitandi og starfsmaður geta einnig gert samkomulag um lækkað starfshlutfall og vikið þá frá uppsagnarfresti en þá þurfa bæði starfsmaður og vinnuveitandi að vera sammála um það. Lækkun starfshlutfalls getur ýmist verið tímabundin, og ber þá að taka það fram, eða til frambúðar. Mikilvægt er að gert sé skriflegt samkomulag þar um þar sem m.a. kemur fram tímalengd og sérstakar undantekningar.

Er vinnuveitanda heimilt að lækka starfshlutfall mitt ef ég er frá vinnu vegna veikinda?

Veikindi koma ekki í veg fyrir að starfshlutfall starfsmanns sé lækkað einhliða vegna rekstrarlegra ástæðna. Sé það gert gilda ákvæði kjarasamninga um uppsögn og uppsagnarfrest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Ég og vinnuveitandi minn gerðum samkomulag um lækkað starfshlutfall, hvaða áhrif hefur það á laun í veikindum?

Almennt er það þannig að laun í veikindum miðast við það starfshlutfall sem starfsmaður er í þegar hann veikist.

Samkomulag starfsmanns og vinnuveitanda um lækkað starfshlutfall vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda hefur áhrif á laun starfsmanns í veikindum. Þannig byggjast laun í veikindum á nýja/lækkaða starfshlutfallinu, og starfsmaður á ekki rétt á atvinnuleysisbótum frá VMST á móti lækkuðu starfshlutfalli ef starfsmaður er í veikindaleyfi. Aðilar geta m.a. haft þetta í huga við gerð tímabundna samkomulagsins.

Er vinnuveitanda heimilt að lækka starfshlutfall mitt ef ég er í fæðingarorlofi? 

Vinnuveitandi getur ekki einhliða lækkað starfshlutfall starfsmanns í fæðingarorlofi fyrr en að hann snýr aftur til starfa að loknu orlofi. Sé það gert gilda ákvæði kjarasamninga um uppsögn og uppsagnarfrest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Er vinnuveitanda heimilt að lækka starfshlutfall mitt en krefjast óbreytts vinnuframlags af mér vegna þess að ég fæ atvinnuleysisbætur á móti? 

Vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið. Félagsmönnum er bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag við þessar aðstæður. 

Er vinnuveitanda heimilt að segja mér upp vegna samdráttar af völdum COVID-19?

Vinnuveitandi getur þurft að grípa til uppsagna ef fyrirtækið þarf að draga saman vegna COVID-19, eða vegna annarra ástæðna. Um þetta gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd þeirra og lengd uppsagnarfrests. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Fyrirtækið sem ég starfa hjá er að fara í gjaldþrot vegna aðstæðna á vinnumarkaði, hver eru mín réttindi? 

Sú staða getur komið upp að fyrirtækið sem þú starfar hjá getur ekki greitt skuldir sínar og verður gjaldþrota. Við þessar aðstæður skalt þú strax hafa samband við þitt stéttarfélag. Sjá nánar hér.   

Athugið: Ef fyrirtækið sem þú vinnur hjá verður gjaldþrota í kjölfar minnkaðs starfshlutfalls mun Ábyrgðasjóður launa miða útreikning við tekjur þínar líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað.

Ýmsar aðrar spurningar vegna COVID-19

Ég er sjálfstætt starfandi einstaklingur, á ég rétt á einhverjum úrræðum vegna erfiðleika í rekstri af völdum COVID-19?

Já. Úrræði ríkisstjórnarinnar um laun í sóttkví og lækkað starfshlutfall samhliða atvinnuleysisbótum ná einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga. 
Sjá nánar hér ofar undir liðnum "Réttindi sjálfstætt starfandi", og á heimasíðu VMST og RSK

Þarf ég að mæta til vinnu ef almenningssamgöngur hætta?

Það er á ábyrgð starfsmanns að koma sér til vinnu. Liggi almenningssamgöngur niðri verður þú að finna aðra leið til að mæta til vinnu.

Hjá ríkinu: Áfram gildir þó ákvæði kjarasamnings um vinnusókn og ferðir þegar starfsmenn hefja eða hætta vinnu á tímabilinu frá kl. 00:05 til kl. 06:55 virka daga og frá kl. 00:05 til kl. 10:00 á sunnudögum eða á sérstökum frídögum, að þá skal þeim séð fyrir ferðum eða greiddur ferðakostnaður að og frá vinnustað innan 12 km fjarlægðar, en þó utan 1,5 km.

Getur vinnuveitandi farið fram á að ég vinni í fjarvinnu á meðan ég er í sóttkví?

Já, að því gefnu að þú ert vinnufær og hafir aðstöðu til fjarvinnu þá getur vinnuveitandi farið fram á að þú vinnir í fjarvinnu á meðan þú ert í sóttkví.

Ef þú svo veikist á meðan sóttkví stendur telst það til veikinda og vinnuveitandi getur ekki gert kröfu um vinnuframlag.

Getur vinnuveitandi gert kröfu um að ég mæti til vinnu, þó svo að ég vil og get unnið að heiman/í fjarvinnu?

Almennt er það þannig að vinnuveitandi getur gert kröfu um að starfsmaður mæti til vinnu, sé það venjan. Mæti starfsmaður ekki, og vinnuveitandi samþykkir ekki fjarvinnu, þá er um launalaust leyfi, orlofstöku eða eftir atvikum veikindaleyfi um að ræða. Undantekning væri þó ef að starfsumhverfi er ekki öruggt og heilsusamlegt, þá er ekki hægt að skylda starfsmann til þess að mæta til vinnu.

Ýmsar ástæður geta legið að baki beiðni starfsmanns um að vinna í fjarvinnu. Ef það er vegna þess að starfsmaður treystir sér ekki vegna kvíða eða undirliggjandi sjúkdóms, þá getur það flokkast sem veikinda- og óvinnufærni skv. kjarasamningi. Þannig þyrfti læknisvottorð að liggja fyrir og starfsmaður fer í veikindaleyfi.    

Getur vinnuveitandi sett mig í önnur störf en ég er ráðin/n til?

Vinnuveitanda er ekki heimilt að setja þig í önnur störf en þú ert ráðin til skv. ráðningarsamningi. Vegna óviðráðanlegra atvika líkt og skapast hefur vegna COVID-19 getur vinnuveitandi breytt starfsstöð þinni tímabundið með samkomulagi ykkar á milli.

Er vinnuveitanda heimilt að breyta ákvörðun um orlof sem hann hefur samþykkt?

Almennt er vinnuveitanda óheimilt að breyta orlofstöku starfsmanns. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að gera samkomulag um annað.

Getur vinnuveitandi farið fram á að ég fari í orlof á næstu dögum/vikum eða sent mig í launalaust leyfi?

Samkvæmt orlofslögum er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl. Flestir starfsmenn hafa núþegar nýtt orlof sitt á núverandi orlofsári, eða búnir að ákveða ráðstafa því fram til 30 apríl.

Það orlof sem búið var að ákveða á næstu dögum/vikum (t.d. í kringum páskaleyfi) helst óbreytt, nema starfsmaður og vinnuveitandi komist að öðru samkomulagi. Vinnuveitanda er heimilt að fara fram á að starfsmaður fari í fyrirhugað orlof, þó svo að forsendur orlofsins hafa breyst (t.d. að utanlandsferð um páska falli niður). Undantekning frá þessu er ef starfsmaður geti ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem áætlað var, en þá gilda ákvæði kjarasamninga og laga um veikindi í orlofi.

Almenna reglan er sú að vinnuveitandi getur ekki einhliða ákveðið að þú farir í orlof. Samkvæmt orlofslögum ákveður vinnuveitandi, í samráði við starfsmann, hvenær orlof skuli veitt og skal hann verða við óskum starfsmanns um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja starfsmanna skal vinnuveitandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.

Hið opinbera: Athygli er vakin á því að sé hluti orlofs tekið fyrir sumarorlofstímabil samkvæmt beiðni vinnuveitanda, skal sá hluti orlofsins lengjast. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Vinnuveitanda er óheimilt að senda þig í launalaus leyfi. Það er ávallt háð samkomulagi milli aðila. 

Getur vinnuveitandi óskað eftir því að ég komi með læknisvottorð um að ég sé vinnufær vegna COVID-19?

Vinnuveitandi getur krafist læknisvottorðs á sama hátt og vegna annarra veikinda.

Þeir sem þurfa að sitja í sóttkví samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda geta nú sjálfir skráð upplýsingar um það inn á vefinn heilsuvera.is og fengið vottorð þar að lútandi. Vottorðin eru án endurgjalds. Vakin er athygli á því að skráning í heilsuveru krefst þess að notandi sé með rafræn skilríki.

Þeir sem hafa ekki rafræn skilríki og geta ekki nýtt sér heilsuveru eiga að hafa samband við heilsugæslustöðina sína. Heilsugæslustöðin kemur upplýsingum um sóttkví viðkomandi til sóttvarnalæknis. Þar er hægt að óska eftir staðfestingu á sóttkví með því að senda tölvupóst á netfangið mottaka@landlaeknir.is og skrá í efnislínu: Staðfesting á sóttkví.

Er vinnuveitanda heimilt að upplýsa samstarfsfólk um að ég sé í sóttkví og/eða smituð/smitaður af COVID-19?

Þær aðstæður kunna að koma upp að nauðsynlegt sé að miðla upplýsingum til annarra um fjarvist stafsmanns sem er í sóttkví. Mat á slíku fer eftir aðstæðum hverju sinni. Forðast skal að miðla upplýsingum um nafn starfsmanns, nema slíkt sé nauðsynlegt. Þá er einnig rétt að vanda slíka miðlun til að koma í veg fyrir óþarfa ótta meðal annarra starfsmanna.

Sóttvarnalækni er heimilt að afla gagna frá öllum þeim aðilum, sem geta veitt upplýsingar þegar út brýst hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna, og vinna með þær upplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er, sbr. bréf Persónuverndar til sóttvarnalæknis þann 26. febrúar 2020.

Búið er að leggja niður mötuneytið á vinnustaðnum mínum, á ég rétt á fæðispeningum? 

Hið opinbera: Hafi starfsmaður ekki aðgang að matstofu en ætti að hafa það skv. ákvæðum kjarasamninga, skal hann fá það bætt með fæðispeningum. 

Vinnuveitandi minn breytti útgefni vaktskrá með stuttum fyrirvara vegna COVID-19, er það heimilt? 

Vegna núverandi ástands í þjóðfélaginu af völdum COVID-19 geta breytingar á útgefni vaktskrá verið bæði nauðsynlegar og óhjákvæmilegar. BHM vil þó benda á að mikilvægt er að vinnuveitandi reyni eftir fremsta megni að hafa samráð við starfsmenn um breytingu á vaktskrá.

Vinnuveitanda er heimilt að breyta útgefni vaktskrá og gilda þá ákvæði kjarasamninga þar um. Almennt ber vinnuveitanda að gefa út vaktskrá með minnst mánaða fyrirvara nema um samkomulag sé við starfsmann um skemmri frest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Hið opinbera: Þar sem unnið er á reglubundnum vöktum og vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst. (sólahrings), skal viðkomandi starfsmanni greitt aukalega 3 klst. í yfirvinnu. Sé fyrirvarinn 24-168 klst. (ein vika) skal greiða 2 klst. í yfirvinnu. Hér er eingöngu átt við breytingu á skipulagðri vakt en ekki aukavakt. 

Vinnuveitandi minn breytti útgefni vaktskrá með stuttum fyrirvara vegna COVID-19, á ég rétt á að fá laun samkvæmt fyrri vaktskrá?

Nei laun eru greidd samkvæmt nýrri vaktskrá. Á það bæði við um skipulagðar vaktir og skipulagðar bakvaktir. Vinnuveitanda er heimilt að breyta útgefni vaktskrá og gilda þá ákvæði kjarasamninga þar um. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Hvaða áhrif hefur samkomubann á minn vinnustað?

Samkomubann gildir á Íslandi til og með 12. apríl. Bannið tekur til skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Sjá nánar hér.
Á þeim vinnustöðum þar sem færri en 20 manns vinna er mælst til þess að haga vinnurými þannig að hægt sé að hafa 2 metra á milli einstaklinga. Gott er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Þarf að loka stórum vinnustöðum í samkomubanninu?

Samkomubann gildir á Íslandi til og með 12. apríl. Bannið tekur til skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Sjá nánar hér.
Líkur eru á því að einhverjum vinnustöðvum þurfi að loka eða breyta talsvert fyrirkomulagi vinnu. Allir vinnustaðir þurfa að tryggja að ekki séu fleiri en 20 í sama rými á hverjum tíma og að hægt sé að hafa 2 metra á milli þeirra einstaklinga sem eru í vinnu. Mikilvægt er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Hvað er borgaraleg skylda og hvað felur það í sér?

Samkvæmt 19. gr. laga um almannavarnir er það borgaraleg skylda þeirra sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna á hættustundu, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra.

Fyrir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis liggur frumvarp til breytinga á lögum um almannavarnir en með því er verið að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila (ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu) til að færa starfsmenn tímabundið milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Hættustund telst vera fyrir hendi í skilningi þessa ákvæðis þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hæsta almannavarnastigi samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga, eða hefur lýst því yfir að það sé yfirvofandi.

Í athugasemdum BHM við frumvarpið er bent á mikilvægi þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna starfsmanna hverju sinni. Eftirfarandi texta var bætt við greinargerð með frumvarpinu: „Við þessar aðstæður verður þó ávallt að líta til aðstæðna starfsmanna hverju sinni, svo sem ef starfsmaður, eða annar einstaklingur sem hann ber ábyrgð á, glímir við undirliggjandi sjúkdóm eða aðstæður eru að öðru leyti slíkar að breytt starfsvið myndi stefna öryggi eða heilbrigði hans, eða þess sem hann ber ábyrgð á, í hættu. Við slíkar aðstæður skal starfsmaður vera undanþeginn skyldu ákvæðisins."

Hvað felur borgaraleg skylda í sér að öðru leyti?

 • Hægt er að fara fram á tímabundna breytingu á starfsskyldum og starfsstöðvum viðkomandi starfsmanna eftir þörfum.
 • Heimilt verður að fela starfsmönnum önnur störf en þeir gegna alla jafna svo sem að gegna auknu hlutverki varðandi þrif og sóttvarnir.
 • Heimilt verður að færa starfsmenn úr sérhæfðum sérfræðistörfum í þjónustu- eða afgreiðslustörf.
 • Heimilt verður að færa fólk milli vinnustaða, milli starfa innan sveitarfélags, milli sveitarfélaga, milli sveitarfélaga og ríkis, milli ríkisstofnana, o.s.frv. t.d. ef sú staða kemur upp að fjöldi starfsmanna á einni starfsstöð eða á einum vinnustað er í sóttkví og því þurfi að leita aðstoðar annarra opinberra aðila til að sinna nauðsynlegri almannaþjónustu. Þetta er reyndar einungis heimilt í ítrustu tilfellum.
 • Heimildin nær til aldurhópsins 18–65 ára.
 • Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður og gerir frumvarpið ráð fyrir að starfsmenn fái greidda yfirvinnu ef starfsskyldur umfram hefðbundna vinnuskyldu þeirra aukast.

Námslán

Hvað gerist með námslánin hjá LÍN?

Þær aðstæður sem nú eru uppi kalla á sveigjanleika af hálfu allra og því hefur stjórn LÍN, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið eftirfarandi ívilnanir fyrir greiðendur og námsmenn til að létta á áhyggjum þeirra af fjármálum vegna hugsanlegra aðstæðna sem komið geta upp á meðan á kórónuveirunni stendur eða í kjölfar hennar.

Get ég fengið greitt út námslán á vorönn ef ég næ ekki að skila 22 ECTS einingum vegna röskunar á skólastarfi?

Stjórn LÍN hefur samþykkt heimild fyrir sjóðinn til að taka til greina annars konar staðfestingu frá skóla á ástundun nemenda en prófvottorðum um loknar einingar. Óski námsmaður þess verður tekið mið af umsóttum einingafjölda námsmanns í samræmi við lánsáætlun hans fyrir önnina. 

Get ég fengið námslán ef ég veikist vegna COVID-19 og næ ekki lágmarksárangri?

Sjóðurinn mun skoða það í samvinnu við skóla og óski námsmaður þess verður tekið mið af umsóttum einingafjölda námsmanns í samærmi við lánsáætlun hans fyrir önnina. Sjá nánár hér.

Ítarefni

 • Félagsmönnum er bent á að kynna sér vel fræðsluefni um smitvarnir sem finna má m.a á heimasíðu landlæknisembættisins og www.influensa.is.
 • Á upplýsingavef Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, www.covid.is, má finna góð ráð, tilkynningar, spurt og svarað, o.fl.
 • Hér má nálgast reglur um sóttkví og einangrun vegna COVID-19. 
 • Hér má finna leiðbeiningar Vinnueftirlitsins til vinnustaða um leiðir til að vernda starfsfólk sitt vegna COVID-19 smithættu.
 • Hér má finna myndrænar leiðbeiningar vegna COVID-19 á íslensku og ensku. 
 • Here you can find information in english about COVID-19 from Landlæknir. 
 • Hér má finna upplýsingar um varúðarráðstafanir og viðbrögð vegna Covid-19 á íslensku, ensku, arabísku, spænsku, persnesku, kúrdísku, pólsku og Sorani.
 • Félagsmenn eru minntir á mikilvægi handþvottar og sótthreinsunar. Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) til að fá nánari upplýsingar um hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.