Chat with us, powered by LiveChat

Upplýsingar fyrir félagsmenn vegna COVID-19

Hér má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um réttindamál á vinnumarkaði í tengslum við COVID-19. Einnig reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá Vinnumálastofnun.

Fordæmalausar aðstæður hafa skapast í íslensku samfélagi vegna COVID-19. Útbreiðsla sjúkdómsins hefur verið hröð á heimsvísu og hafa heilbrigðisyfirvöld beint ýmsum fyrirmælum til almennings sem og ríkisstjórnin gripið til margvíslegra úrræða. Vaknað hafa ýmsar spurningar um réttarstöðu einstaklinga við þessar aðstæður.

Á þessari síðu er að finna efni sem félagsmenn aðildarfélaga BHM geta nýtt sér þegar spurningar vakna um réttindamál á vinnumarkaði við þessar sérstöku aðstæður. Einnig má hér nálgast reiknivél sem reiknar út laun miðað við að starfshlutfall sé skert og að hlutabætur komi frá Vinnumálastofnun á móti.

Fjarvistir starfsmanna frá vinnu geta verið af mismunandi ástæðum, til dæmis vegna þess að þeir eru í einangrun eða sóttkví vegna eigin smits eða smits annarra fjölskyldumeðlima. Þá geta fjarvistir verið vegna beiðni vinnuveitanda um að starfsmaður haldi sig fjarri vinnustað og/eða vinni heiman frá sér, vegna raskana á almenningssamgöngum eða ótta starfsmanna við að smitast ef þeir mæta til vinnu.

Félagsmenn aðildarfélaga BHM sinna fjölbreyttum störfum bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Ráðningarform félagsmanna og ákvæði viðkomandi kjarasamnings eru mismunandi og því reynt að haga upplýsingum og svörum eftir því.   

Atvinnuleysisbótaréttur aukinn - rýmkun á greiðslu hlutabóta

 • Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. 
 •   Framlenging á hlutabótaleiðinni til 31. ágúst 2020 var svo samþykkt með tilteknum breytingum sem meðal annars lúta að starfsemi fyrirtækja
  • Áfram þarf starfshlutfall að hafa lækkað um a.m.k. 20%, en launamaður þarf að lágmarki að halda 50% starfshlutfalli frá 1. júlí 2020. 
  • Hlutabótaleiðin var svo framlengd til 31. desember 2020. Með framlengingunni varð sú breyting að starfsmenn óskattskyldra aðila, eins og t.d. sveitarfélög, íþróttafélög, líknarfélög o.fl. eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli.  
  • Úrræðið var svo aftur framlengt og gildir nú til og með 31. maí 2021.

Vinnuveitanda er áfram óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.

„Afgreiðsla Alþingis á frumvarpinu er stórt skref í að mæta þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru uppi á íslenskum vinnumarkaði. Ég hvet atvinnurekendur að minnka frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna. Ef farin verður þessi leið verður viðspyrnan miklu snarpari og kraftmeiri þegar birta tekur á ný.“, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá VMST

Hvernig sæki ég um? 

 • Sótt er um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli í gegnum mínar síður hjá VMST.
 • Samhliða umsókn starfsmanns þarf vinnuveitandi einnig að skila inn ákveðnum upplýsingum á mínum síðum atvinnurekenda á vef VMST. Þegar upplýsingar liggja fyrir, bæði frá starfsmanni og vinnuveitanda, er hægt að afgreiða umsóknina um hlutabætur.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar sækja um atvinnuleysisbætur í gegnum mínar síður atvinnuleitenda
 • Mikilvægt er að einstaklingur staðfesti nýtingu hlutabótaleiðar milli 20. og 25. hvers mánaðar.
 • Sjá nánar á heimasíðu VMST.
 • Sjá spurt og svarað hjá VMST. 

Gott að hafa í huga:

 • Með framlengingu á hlutabótaleiðinni var samþykkt að einstaklingur sem fengið hefur greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli geti óskað eftir að miðað verði við annað tímabil við útreikning á viðmiðunartekjum. Á vef VMST er hægt að óska eftir að miðað verði við tekjur út frá eftirfarandi reglum:

  • Að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði tekjuárið 2019. 
  • Að miðað verði við þær tekjur sem lágu til grundvallar útreikningi á fæðingarorlofi eða 
  • Að miðað verði við meðaltali heildarlauna síðustu þriggja mánað áður en viðkomandi hóf töku foreldraorlofs.
  • Hið sama gildir um þá sem nýtt hafa sér úrræðið á tímabilinu 15. mars 2020 til 31. maí 2020.
 • Lögin ná ekki til aðila sem eru áfram í yfir 80% starfshlutfalli og nær ekki til þess þegar laun eru lækkuð eða einungis yfirvinnu er sagt upp.
 • Ákvæðið var í fyrstu framkvæmt þannig að það náði einungis til launamanna á aldrinum 18-69 ára en nú eiga launamenn rétt óháð lífaldri. 
 • Námsmenn geta átt rétt á bótum samkvæmt frumvarpinu enda uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði ákvæðisins.
 • Atvinnuleysisbætur greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli hafa ekki áhrif á rétt starfsmanna til greiðslu atvinnuleysisbóta í framtíðinni.
 • Vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið.
 • Skerðing á starfshlutfalli verður að byggja á samkomulagi milli aðila. Mikilvægt er að gengið sé skriflega frá samningi um lækkun starfshlutfalls. Starfsmanni er ekki skylt að verða við óskum vinnuveitanda um lægra starfshlutfall, hann á alltaf rétt á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.
 • Megintilgangur ákvæðisins er að aðstoða og gera vinnuveitendum og starfsmönnum þeirra, kleift að viðhalda ráðningarsambandi sín á milli. Það er grundvallarskilyrði fyrir greiðslu bóta VMST að ráðningarsamband sé í gildi. Ef vinnuveitandi segir upp starfsmanni sem hann hefur gert samkomulag við, lítur VMST svo á að forsenda samkomulagsins sé brostin og þá taki almennar reglur um uppsagnarfrest við.
 • Réttindi starfsmanna í Ábyrgðasjóði launa eru tryggð komi til gjaldþrots fyrirtækis. 

Jafnframt er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri. 

 • Að gefnu tilefni vil BHM benda á að mismunandi reglur gilda fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga út frá rekstrarformi. Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur rekstur sinn á eigin kennitölu þarf viðkomandi að sækja um hefðbundnar atvinnuleysisbætur og þarf að uppfylla að öllu leyti lög um atvinnuleysistryggingar (m.a. að staðfesta atvinnuleit sína milli 20 og 25 hvers mánaðar).  
 • Sjá nánar á heimasíðu RSK og VMST

Reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá VMST

Laun í sóttkví – tímabundnar greiðslur

Alþingi hefur samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.

Markmið laga þessara er að styðja vinnuveitendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Gildissvið laganna er í meginatriðum tvíþætt og tekur til launagreiðslna vegna:

 1. Launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. 
  1. Með breytingu á lögunum framlengist úrræðið til 30. september 2020.
  2. Með breytingu á lögunum framlengist úrræðið til 31. desember 2021.
  3. Með breytingu á lögunum framlengist úrræðið til 31. desember 2022.
 2. Barna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda

Meginreglan verður sú að vinnuveitendur haldi áfram að greiða laun en ríkið endurgreiði þeim allt nema launatengdu gjöldin. Greiði vinnuveitandi ekki laun meðan á sóttkví stendur geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur. Lögin gera einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.

Gott að hafa í huga:

 • Lögin setja ekki takmarkanir á dagafjölda sem viðkomandi getur átt rétt á launum í sóttkví. 
 • Sæki starfsmaður um greiðslu á grundvelli laganna skal greiðsla taka mið af heildarlaunum fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum eða barn í hans forsjá var gert að vera í sóttkví, þó aldrei hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.
 • Lögin ná yfir greiðslur til launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings þegar barn í hans forsjá sætir sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda enda barnið undir 13 ára aldri eða undir 18 ára aldri og þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. 
 • Lögin ná ekki til forsjármanna barna sem þurfa að vera heima vegna samkomubanns eða annarrar röskunar á skólastarfi.
 • Greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví skal taka mið af mánaðarlegum meðaltekjum hans, sem taka mið af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við undanfarandi tekjuár. 
 • Sæki vinnuveitandi um greiðslu á grundvelli laganna skal greiðsla taka mið af heildarlaunum starfsmanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. 
 • Notast er við 30 daga í mánuði til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag. 
 • Ef starfsmaður í sóttkví sinnir sínu starfi í fjarvinnu mun eðlilega ekki koma til endurgreiðslu en geti hann einungis sinnt starfi sínu að hluta í fjarvinnu þarf að meta eðlilegt hlutfall endurgreiðslu.
 • Með fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda er átt við fyrirmæli/fyrirskipun frá Embætti landlæknis um að sæta sóttkví. Ekki er átt við almennar leiðbeiningar Landslæknis eða fyrirmæli um samkomubann.
Vakin er athygli á því að með breytingu á lögunum bættist við ný málsgrein sem segir að ekki kemur til greiðslna hafi aðili farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví. 

VMST annast framkvæmd laganna og er hægt að sækja um hér
Umsóknir um greiðslur skulu berast VMST fyrir 31. mars 2023. Eftir þá dagsetningu fellur réttur til greiðslu niður.
Sjá nánar spurt og svarað vegna greiðslna í sóttkví á vef VMST. 

Stuðningur vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

Alþingi hefur samþykkt lög sem kveða á um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Með þessu á að koma til móts við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegri fjárhagslegri röskunar á atvinnurekstri vegna farsóttarinnar. Markmið stuðningsins er að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og tryggja réttindi launafólks.

 • Atvinnurekandi þarf að uppfylla tiltekin skilyrði.
 • Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.

 • Ekki er hægt að sækja um stuðning vegna þeirra sem eiga að reikna sér endurgjald vegna starfa í eigin atvinnurekstri, hvort sem hann er stundaður í eigin nafni eða í gegnum félag.

Skattinum hefur verið falið að sjá um framkvæmd þessa úrræðis, sjá nánar hér.

Réttindi starfsmanna hins opinbera, leiðbeiningar til stjórnenda

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur sent stjórnendum ríkisstofnana leiðbeiningar vegna COVID-19. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið undir þær leiðbeiningar og beint þeim til sveitarfélaga.

Í leiðbeiningunum kemur fram að:

 • Fari starfsmaður í sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda eða stofnunar greiðast meðaltalslaun skv. gr. 12.2.6 (?) í kjarasamningi en fjarvistir teljast ekki veikindi og þ.a.l. ekki veikindadagar.
 • Ef starfsmaður er veikur hvort sem það er sýking af COVID-19 eða önnur veikindi er sem fyrr greitt samkvæmt almennum ákvæðum veikindakafla kjarasamninga og veikindadagar telja.
 • Veikist einstaklingur í sóttkví breytist skráning úr meðaltalslaunum í laun í veikindum.
 • Ef fólk fer í sóttkví að eigin frumkvæði er um að ræða orlof eða launalausa fjarveru.
 • Starfsfólk í sóttkví er hvatt til að vinna að heiman (þegar við á) enda ekki um veikindi að ræða.
 • Í lögum segir: "Ekki kemur til greiðslna samkvæmt lögum þessum hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dveljast í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu."
 • BHM vil vekja athygli á því að mál sem þessi geta verið mismunandi og nauðsynlegt að skoða hvert tilfelli fyrir sig. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag

Myndræna framsetningu á leiðbeiningum til sveitarfélaga má sjá hér.
Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á vef Landlæknis.

Réttindi starfsmanna á almennum vinnumarkaði, tilmæli til atvinnurekenda

BHM hefur fengið staðfest að tilmæli SA til atvinnurekenda, um að laun verði greidd til starfsmanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, nái til allra óháð stéttarfélagsaðild. 

 • SA beinir þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til starfsmanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Hvert og eitt fyrirtæki verður að meta með hvaða hætti það mætir þeim tilmælum en SA telja mjög æskilegt að atvinnurekendur taki þeim með jákvæðum hætti, m.a. með hliðsjón af endurgreiðslu hluta kostnaðar af hálfu ríkisins. Sjá nánar tillögur hér.

Borgaraleg skylda

Samkvæmt 19. gr. laga um almannavarnir er það borgaraleg skylda þeirra sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna á hættustundu, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra.

Alþingi hefur samþykkt ákvæði til bráðabirgða til að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila (ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu) til að færa starfsmenn tímabundið milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Hættustund telst vera fyrir hendi í skilningi þessa ákvæðis þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hæsta almannavarnastigi samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga, eða hefur lýst því yfir að það sé yfirvofandi. Ákvæðið fellur úr gildi 1. janúar 2021. 
Þá samþykkti Alþingi nýtt ákvæði til bráðabirgða II , sem fellur úr gildi 1. janúar 2022. 

Í athugasemdum BHM við frumvarpið var bent á mikilvægi þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna starfsmanna hverju sinni. Eftirfarandi texta var bætt við greinargerð með frumvarpinu: „Við þessar aðstæður verður þó ávallt að líta til aðstæðna starfsmanna hverju sinni, svo sem ef starfsmaður, eða annar einstaklingur sem hann ber ábyrgð á, glímir við undirliggjandi sjúkdóm eða aðstæður eru að öðru leyti slíkar að breytt starfsvið myndi stefna öryggi eða heilbrigði hans, eða þess sem hann ber ábyrgð á, í hættu. Við slíkar aðstæður skal starfsmaður vera undanþeginn skyldu ákvæðisins."

Hvað felur borgaraleg skylda í sér að öðru leyti?

 • Hægt er að fara fram á tímabundna breytingu á starfsskyldum og starfsstöðvum viðkomandi starfsmanna eftir þörfum.
 • Heimilt verður að fela starfsmönnum önnur störf en þeir gegna alla jafna svo sem að gegna auknu hlutverki varðandi þrif og sóttvarnir.
 • Heimilt verður að færa starfsmenn úr sérhæfðum sérfræðistörfum í þjónustu- eða afgreiðslustörf.
 • Heimilt verður að færa fólk milli vinnustaða, milli starfa innan sveitarfélags, milli sveitarfélaga, milli sveitarfélaga og ríkis, milli ríkisstofnana, o.s.frv. t.d. ef sú staða kemur upp að fjöldi starfsmanna á einni starfsstöð eða á einum vinnustað er í sóttkví og því þurfi að leita aðstoðar annarra opinberra aðila til að sinna nauðsynlegri almannaþjónustu. Þetta er reyndar einungis heimilt í ítrustu tilfellum.
 • Heimildin nær til aldurhópsins 18–65 ára.
 • Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður og gerir frumvarpið ráð fyrir að starfsmenn fái greidda yfirvinnu ef starfsskyldur umfram hefðbundna vinnuskyldu þeirra aukast.

Persónuvernd

 • Stjórnvöld og mörg fyrirtæki hafa nú þegar gripið til ýmissa ráðstafana til að hefta útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Margar þessara ráðstafana fela í sér vinnslu persónuupplýsinga (svo sem nafn, heimilisfang, vinnustað, ferðaupplýsingar o.fl.) og jafnvel vinnslu með viðkvæmar persónuupplýsingar eins og heilsufar. Slík vinnsla er í flestum tilfellum heimil en gæta þarf meðalhófs og gagnsæis.
 • Persónuvernd, í samráði við sóttvarnalækni, hefur tekið saman helstu atriði sem máli skipta við vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við Covid-19 á vinnustöðum. 

Sjálfstætt starfandi

Greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli

 • Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Framlenging á hlutabótaleiðinni til 31. ágúst 2020 var svo samþykkt með tilteknum breytingum sem meðal annars lúta að starfsemi fyrirtækja. Áfram þarf starfshlutfall að hafa lækkað um a.m.k. 20%, en launamaður þarf að lágmarki að halda 50% starfshlutfalli frá 1. júlí 2020. Hlutabótaleiðin var svo framlengd til 31. desember 2020 og aftur til 31. maí 2021.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri. Athugið ekki þarf að stöðva rekstur heldur eingöngu tilkynna um verulegan samdrátt rekstrar til skattsins.
 • Svo virðist sem að lögin ná mismunandi til sjálfstætt starfandi einstaklinga eftir rekstrarformi. BHM hefur sett málefni sjálfstætt starfandi félagsmanna í sérstakan farveg og m.a. þrýst á stjórnvöld svo að úrræðin ná til allra hópa, óháð rekstrarformi.
 • Sjá nánari upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðum RSK og VMST.
 • Sjá spurt og svarað hjá VMST.

Gott að hafa í huga:

 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarrétt og uppfylli ákveðin skilyrði.
 • Atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli er mismunandi eftir rekstrarformi:
  • Sjálfstætt starfandi einstaklingur með rekstur á eigin kennitölu sækir um hefðbundnar atvinnuleysisbætur í gegnum mínar síður hjá VMST. Skila þarf eyðublaði RSK 5.02(?) til skattsins og verktakayfirlýsingu til VMST.
   • Viðkomandi þarf að uppfylla að öllu leyti lög um atvinnuleysistryggingar, þ.a.m. að staðfesta atvinnuleit sína milli 20 og 25 hvers mánaðar (sem á einnig við þegar beðið er eftir að umsókn er afgreidd).
  • Sjálfstætt starfandi einstaklingur með rekstur á sér kennitölu (t.d. ehf.) sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli í gegnum mínar síður hjá VMST. Skila þarf staðfestingu á starfstímabili til VMST. Viðkomandi getur einnig sótt um hefðbundnar atvinnuleysisbætur.
  • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem gefur upp tekjur einu sinni á ári (ársmaður), t.d. í skattaskýrslu, getur sótt um atvinnuleysisbætur eins og aðrir sjálfstætt starfandi. Skila þarf verktakayfirlýsingu og staðfestingu skattstjóra um skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu til VMST.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur þarf að tilkynna um verkefni/vinnu sem hann sinnir meðfram greiðslum atvinnuleysisbóta.
 • Sjá reiknivél BHM til að skoða breytingu á launum. 

Laun sjálfstætt starfandi sem sæta sóttkví

 • Alþingi hefur samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Lögin gera einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.
 • VMST annast framkvæmd laganna og er hægt að sækja um hér
  Umsóknir um greiðslur skulu berast VMST fyrir 31. mars 2023. Eftir þá dagsetningu fellur réttur til greiðslu niður.
 • Sjá nánar spurt og svarað vegna greiðslna í sóttkví á vef VMST.
 • Sjá einnig upplýsingar á heimasíðu RSK.

Gott að hafa í huga:

 • Greiðsla til sjálfstætt starfandi einstaklings sem sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví skal taka mið af mánaðarlegum meðaltekjum hans, sem taka mið af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við undanfarandi tekjuár.
 • Notast er við 30 daga í mánuði til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag.
 • Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur í sóttkví sinnir sínu starfi í fjarvinnu mun eðlilega ekki koma til endurgreiðslu en geti hann einungis sinnt starfi sínu að hluta í fjarvinnu þarf að meta eðlilegt hlutfall endurgreiðslu.
 • Vakin er athygli á því að með breytingu á lögunum bættist við ný málsgrein sem segir að ekki kemur til greiðslna hafi aðili farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví. 

Lokunarstyrkir

 • Alþingi hefur samþykkt lög um stuðning við minni rekstraraðila sem m.a. var gert að loka vegna sóttvarna. Með breytingu á fyrrgreindum lögum voru viðbótarlokunarstyrkir samþykktir á Alþingi. 
 • Þann 5. nóvember 2020 samþykkti Alþingi lög um áframhald á lokunarstyrkjum. Að mörgu leyti gilda sömu skilyrði og um eldri loknarstyrki (nefndir hér að ofan), en þó með töluverðum breytingum. Sjá nánar hér
 • Þann 11. maí 2021 var úrræðið framlengt. 
 • Þann 24. febrúar 2022 var úrræðið framlengt.

Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

Fyrir hverja?
 • Allir, bæði einstaklingar og lögaðilar, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og eru skattskyldir á Íslandi geta átt rétt á styrk, að uppfylltum skilyrðum laganna. Þeir verða þó að vera skráðir á launagreiðendaskrá hjá Skattinum og virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
 •  Stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga geta ekki sótt um lokunarstyrk.

Hvað?

 • Kveðið er á um sérstaka styrki, svokallaða lokunarstyrki, til að bæta upp hluta tekjufalls og hjálpa þeim að standa undir föstum kostnaði sem fallið hefur til í rekstri þeirra.
 • Sjá nánar hér
Hvar?
 • Umsókn um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk er rafræn í gegnum skattur.is.

 • Umsóknir um lokunarstyrk 7 skulu hafa borist eigi síðar en 30. júní 2022.

Annað?

 • Lokunarstyrkur/viðbótarlokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna rekstraraðila samkvæmt lögum um tekjuskatt.
 • Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki dregst hann frá lokunarstyrk.

Tekjufallsstyrkir

 • Alþingi hefur samþykkt lög um tekjufallsstyrki. Styrkur þessi er ætlaður þeim sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna áhrifa faraldursins. Allir þeir sem stunda atvinnurekstur munu geta sótt um, hvort sem reksturinn er í gegnum félag eða á eigin kennitölu einstaklings. 

Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar 

Fyrir hverja?

 • Einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt
 • Nær til starfsemi sem hófst fyrir 1. apríl 2020.
 • Heimilt að veita rekstraraðila sem hóf störf á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2020 tekjufallsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. október 2020 að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
 • Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga. 

Hvað? 

 • Ná þarf tilteknu tekjufalli á milli áranna 2019 og 2020 til að styrkur komi til álita, auk annarra skilyrða og takmarkana. Sjá frumskilyrði og nánari skilyrði fyrir tekjufallsstyrk hér.

Hvar?

 • Umsókn um tekjufallsstyrk er rafræn í gegnum skattur.is

 • Umsóknarfrestur er til 1. maí 2021.

 • Sjá nánar hér.  

Annað? 

 • Hafi rekstraraðili fengið atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. apríl til 31. október 2020 dragast þær frá þannig reiknuðum rekstrarkostnaði.
 • Hafi rekstraraðili hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti samkvæmt lögum nr. 50/2020 á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 skal hann draga fjárhæð þess stuðnings frá rekstrarkostnaði skv. 1. málsl. 1. mgr.
 • Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru dregst hann frá tekjufallsstyrk.
 • Tekjufallsstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.
 • Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hvaða lögaðilum hefur verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur samkvæmt lögum þessum.
 • Skatturinn skal endurákvarða tekjufallsstyrk komi í ljós að rekstraraðili átti ekki rétt á styrknum eða átti rétt á hærri eða lægri styrk en honum var ákvarðaður.
 • Hafi rekstraraðili fengið tekjufallsstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum frá greiðsludegi.

Viðspyrnustyrkir

 • Alþingi hefur samþykkt g um viðspyrnustyrki. Úrræðið var framlengt með lögum þann 11. maí 2021 og aftur með lögum þann 24. febrúar 2022.

Markmið laganna er að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

 • Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 40% tekjufalli vegna heimsfaraldursins frá annarsvegar ágúst til desember 2021 og hins vegar frá desember 2021 til og með mars 2022. Það gildir um alla rekstraraðila óháð rekstrarformi og gildir þannig líka um einyrkja sem stunda atvinnurekstur á eigin kennitölu. 
 • Ef umsækjandi um viðspyrnustyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.
 • Skatturinn fer með framkvæmdina og má nálgast nánari upplýsingar hér.
 • Umsóknir um viðspyrnustyrk þurfa að berast eigi síðar en 30. júní 2022.  

Stuðningslán

 • Alþingi hefur samþykkt lög um stuðning við minni rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu og tímabundnu tekjutapi vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum til að standa undir rekstrarkostnaði þeirra. Úrræðið var framlengt með lögum þann 16. desember 2020. 
 • Umsóknarfrestur um Stuðningslán er til 31. maí 2021.
 • Afgreiðsla lánsumsókna fyrir stuðningslán mun fara í gegnum viðskiptabanka en nánari upplýsingar um umsóknarferli lokunarstyrks má nálgast hér.

 • Sjá nánar hér.

Sjúkrasjóður BHM

 • Þá hafa flestir sjálfstætt starfandi félagsmenn aðildarfélaga BHM aðild að Sjúkrasjóði BHM og geta átt rétt til sjúkradagpeninga að liðnum tilteknum fresti ef þeir veikjast. 

Spurt og svarað

Hér að neðan er leitast við að svara helstu spurningum sem vakna vegna réttarstöðu félagsmanna aðildarfélaga BHM. Sumar spurningar og mál eru þess eðlis að ekki er hægt að svara þeim með einföldum hætti og þarf því að skoða þau sérstaklega. Félagsmönnum er bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag fyrir frekari upplýsingar. 

Laun

Á ég rétt á launum ef ég veikist af völdum COVID-19?

Ef þú ert veik/ur í sóttkví átt þú sama rétt á launum og þú ættir ef þú værir frá vinnu vegna almennra veikindaforfalla. Kjarasamningsbundinn veikindaréttur er mismunandi eftir því hvort þú ert opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði og miðar þetta við að þú hafir ekki verið búin/n að fullnýta rétt til launa í veikindaforföllum vegna fyrri veikinda.

Eftir að rétti til launa í veikindum sleppir hjá vinnuveitenda getur þú átt rétt á greiðslum frá Sjúkrasjóði BHM eða Styrktarsjóði BHM og/eða frá almannatryggingakerfi.

Á ég rétt á launum ef ég er send(ur) í sóttkví af heilbrigðisyfirvöldum?

Almennur vinnumarkaður: SA hefur beint þeim tilmælum til atvinnurekenda að greiða starfsmönnum laun í sóttkví, en geta ekki skuldbundið þá til þess. Annað gildir ef þú þarft að sæta sóttkví eftir vinnuferð á vegum atvinnurekanda. Sá tími sem þú dvelur í sóttkví gengur ekki á veikindarétt þinn.

Alþingi hefur samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Launamenn sem hafa sætt sóttkví en hafa ekki fengið greidd laun frá atvinnurekanda sínum fyrir þann tíma geta einnig sótt um greiðslur á grundvelli laganna. Auk þess geta sjálfstætt starfandi einstaklinga sótt um greiðslur. 

VMST annast framkvæmd laganna. Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að einstaklingur hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að hann hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví.

Hið opinbera: Þeir starfsmenn sem eru sendir í sóttkví samkvæmt fyrirmælum frá heilbrigðisyfirvöldum eða vinnuveitanda sínum skulu fá greidd meðaltalslaun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og skal fjarvist ekki talin til veikinda. Þannig er starfsmaður ekki að ráðstafa orlofi/veikindarétti sínum vegna tímabilsins.

Á ég rétt á launum ef ég ákveð sjálf(ur) að fara í sóttkví?

Þeir starfsmenn sem fara í sjálfskipaða sóttkví (þ.e. ákvörðunin er eingöngu þeirra sjálfra) eru launalausir eða þurfa að taka orlofsdaga á tímabilinu. Þeim sem eru í þessum hugleiðingum er ráðlagt að hafa samband við vinnuveitanda og tryggja að litið sé á fjarvistina sem leyfi en ekki riftun á ráðningarsamningi.

Ríkið: Starfsmaður sem fer í sjálfskipaða sóttkví, án atbeina læknis, nýtur almennt ekki launa á meðan enda ekki um staðfest veikindi að ræða. Í ljósi tilmæla embættis landlæknis um að ekki skuli ónáða lækna að óþörfu skal stofnun meta nauðsyn þess í hverju tilfelli fyrir sig hvort hún kalli eftir læknisvottorði svo unnt sé að greiða laun í veikindum.

Á ég rétt á launum ef vinnustaðnum mínum verður lokað vegna COVID-19 og getur vinnuveitandi farið fram á vinnuframlag?

Já þú átt rétt á launum á meðan vinnustaðnum þínum er lokað vegna COVID-19 og vinnuveitandi þinn getur farið fram á vinnuframlag með fjarvinnu (að því gefnu að þú hafir aðstöðu til fjarvinnu). 

Á ég rétt á launum ef vinnuveitandi sendir mig í sóttkví? 

Ákvörðun um sóttkví er tekin á grundvelli sóttvarnarlaga af viðeigandi yfirvöldum. Óski vinnuveitandi eftir því að þú mætir ekki til starfa þó þú hafir ekki fengið fyrirmæli um að vera í sóttkví skal hann greiða þér full laun meðan á fjarvist stendur.

Vinnuveitandi getur farið fram á fjarvinnu á meðan sóttkví stendur, að því gefnu að þú hafir aðstöðu til þess og ert ekki veik/ur. Fjarvinna í sóttkví telst ekki til veikindadaga. Ef þú svo veikist á meðan sóttkví stendur telst það til veikinda og vinnuveitandi getur ekki gert kröfu um vinnuframlag. 

Á ég rétt á launum ef ég er kyrrsett/ur af erlendum yfirvöldum vegna COVID-19 í vinnuferð erlendis?

Vinnuveitandi er ábyrgur fyrir starfsmanni á meðan hann er í vinnuferð erlendis. Ef starfsmaður er fastur annars staðar eftir vinnuferð, þá heldur starfsmaður launum á meðan hann er kyrrsettur. Jafnframt er eðlilegt að vinnuveitandi komi til móts við starfsmann með greiðslu útlagðs kostnaðar vegna fæðis og gistingar sem af þessu stafar innan eðlilegra marka. 

Getur vinnuveitandi neitað að greiða mér laun í sóttkví ef ég fer til útlanda í fríi mínu?

Borið hefur á því að vinnuveitendur banni starfsmönnum sínum að fara erlendis í lögbundnu fríi sínu og/eða setja sérreglur um sóttkví við heimkomu. Þessu er BHM ósammála og telur vinnuveitendur ekki geta gert upp á milli starfsmanna sinna eftir því hvert þeir fóru í fríum sínum.

Í lögum nr. 24/2000 um greiðslu launa í sóttkví er gerður greinamunur á því hvort launamanni mátti vera ljóst fyrir brottför til útlanda að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu. Að mati BHM er þetta mikilvægt atriði þegar kemur að ákvörðun um laun í sóttkví eða ekki.

 • BHM lítur svo á að fari starfsmaður til útlanda og ekki var ljóst við brottför að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu þá á viðkomandi rétt á launum í sóttkví og þarf því ekki að skrá þá daga sem orlof eða launalaust leyfi. Við þessar aðstæður getur vinnuveitandi farið fram á fjarvinnu á meðan sóttkví stendur, að því gefnu að starfsmaður hafi aðstöðu og búnað til þess og er ekki veik/ur. Greiði vinnuveitandi ekki laun í sóttkví getur starfsmaður sótt um greiðslur hjá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2000.
 • Hafi starfsmanni hinsvegar mátt vera ljóst að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu, þá ber honum að ráðstafa orlofi sínu fyrir þá daga, óska eftir launalausu leyfi eða vinna í fjarvinnu samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda.

BHM vekur athygli á því að mál sem þessi geta verið mismunandi og nauðsynlegt að skoða hvert tilfelli fyrir sig. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með veikt barn í sóttkví?

Um það gilda reglur kjarasamninga um fjarvistir foreldra vegna veikra barna. Einnig geta réttindaákvæði sjúkrasjóðanna átt við eftir atvikum.

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með barn í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda? 

Barn sem sætir sóttkví án þess að vera veikt fellur ekki undir greiðsluskyldu vinnuveitanda. Öðru gildir ef barnið er veikt í sóttkví, en um það gilda reglur kjarasamninga um fjarvistir foreldra vegna veikra barna. 

Samkvæmt lögum um tímabundnar greiðslu vegna launa einstaklinga í sóttkví er heimilt að endurgreiða vinnuveitanda hluta launagreiðslna vegna starfsmanna sem þurfa að sinna börnum (?) sínum sem sæta sóttkví. Kjósi atvinnurekandi að hafa ekki milligöngu um þessar greiðslur, t.d. vegna viðbótarkostnaðar sem á hann fellur vegna launatengdra gjalda, getur starfsmaður sótt um greiðslur beint til VMST.

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með barni mínu vegna lokun leikskóla/grunnskóla?

Nei. Nauðsynleg fjarvist, þegar annarri umönnun er ekki komið við, getur heimilað launalausa fjarvist frá vinnu án þess að um vanefnd á ráðningarsamningi sé að ræða. Vinnuveitandi og starfsmaðurinn geta einnig gert með sér samkomulag um að starfsmaður vinni heima eða taki út orlofsdaga. 

Samtök launafólks hafa hvatt vinnuveitendur til að vera sveigjanlega vegna þessara tímabundnu aðstæðna. Hluti foreldra getur unnið að heiman og aðrir hafa sveigjanlegan vinnutíma. Mikilvægt er að vinnuveitendur tryggi öllum sama möguleika hvað þetta varðar. 

Ríkið: KMR hefur beint þeim tilmælum til stofnana að sýna starfsfólki sínu eins mikinn sveigjanleika og unnt er miðað við þær aðstæður sem uppi eru. Stofnanir hafa eðli málsins samkvæmt mismikið svigrúm til að koma til móts við starfsfólk vegna eðlis starfa viðkomandi, hvort um bundna viðveru sé að ræða eða sveigjanlega o.s.frv. Að sinni beinum við þeim tilmælum til stofnana að útfæra þetta í sínu nærumhverfi. Verði breyting á þessum tilmælum mun KMR upplýsa stofnanir um það hið fyrsta.

Á ég rétt á launum ef ég lendi í sóttkví í orlofi mínu? 

BHM lítur svo á að lendi starfsmaður í sóttkví í orlofi teljist það ekki orlofsdagar. 

Lendi starfsmaður í sóttkví á meðan orlofi stendur ber honum að tilkynna vinnuveitanda það án tafar til að fá lengingu á orlof sitt sem nemur þeim dögum sem starfsmaður er í sóttkví. Vinnuveitandi getur farið fram á starfsmaður vinni fjarvinnu á meðan á sóttkví stendur, að því gefnu að starfsmaður hafi aðstöðu og búnað til heimavinnu og er ekki veik/ur. Veikist starfsmaður í sóttkví telst það til veikinda og um það gilda reglur kjarasamninga um veikindi starfsmanna. Ekki er gerð krafa um vinnuframlag á þessum tíma.

Meginreglan er sú að vinnuveitandi greiðir starfsmanni laun þurfi hann að sæta sóttkví skv. beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Vinnuveitandi getur svo fengið launin endurgreidd (án launatengdra gjalda) á grundvelli laga nr. 24/2020. Greiði vinnuveitandi ekki laun meðan á sóttkví stendur geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur hjá Vinnumálastofnun. Lögin gera einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.

BHM vekur athygli á því að mál sem þessi geta verið mismunandi og nauðsynlegt að skoða hvert tilfelli fyrir sig. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima með aldrað foreldri?

Nei. Nauðsynleg fjarvist, þegar annarri umönnun er ekki komið við, getur heimilað launalausa fjarvist frá vinnu án þess að um vanefnd á ráðningarsamningi sé að ræða.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Starfsmaður á rétt á allt að hálfsmánaðar fríi á mánaðarlaunum skv. gr. 1.1.1 (?) vegna sjúkdóms eða slyss nákomins ættingja/aðstandanda sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns. 

Á ég rétt á launum ef ég þarf að vera heima vegna undirliggjandi sjúkdóms eða annarra fjölskyldumeðlima sem eru í áhættuhóp? 

Almennt eru þeir starfsmenn sem ákveða sjálfir að vera heima í launalausu leyfi eða þurfa að taka orlofsdaga á tímabilinu.

Hafi viðkomandi hinsvegar læknisvottorð sem kveður á um að halda sig heima, t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóms, teljast fjarvistir sem veikindadagar. Vinnuveitandi og starfsmaður geta þó komist að samkomulagi um fjarvinnu, að því gefnu að viðkomandi er vinnufær og hafi aðstöðu til fjarvinnu.

Hafi annar aðili á heimilinu undirliggjandi sjúkdóm, og er talinn í áhættuhóp af heilbrigðisyfirvöldum vegna COVID-19, má viðkomandi starfsmaður vera heima. Almennt er það þó í launalausu leyfi eða telst til orlofsdaga á tímabilinu, nema um annað hafi verið samið eins og t.d. fjarvinnu. 

Ríkið: Fari starfsmaður í sóttkví að beiðni læknis vegna undirliggjandi sjúkdóma fær viðkomandi greidd veikindalaun og er litið á þær fjarvistir sem veikindi. Almennt ætti starfsmaður að skila læknisvottorði við þessar aðstæður en í ljósi tilmæla embættis landlæknis skal stofnun meta nauðsyn þess í hverju tilfelli fyrir sig.

Hvað geri ég ef ég og vinnuveitandi minn erum ósammála um kjarasamningsbundin laun og kjör?

Kjarasamningsbundin laun og kjör gilda óháð ástandi í þjóðfélaginu. Komi upp ágreiningur vegna þessa er best er að hafa samband við sitt stéttarfélag og fá leiðsögn og ráðleggingar.

Gott er að hafa í huga að á þessum fordæmalausum tímum geta komið upp ýmis túlkunar atriði sem aðilar geta verið ósammála um. Mikilvægt er að starfsmaður sé meðvitaður um réttindi sín og að hann láti ekki líða hjá að halda réttindum sínum til haga (sbr. tómlæti). Sé uppi vafi eða deilur er gott að halda slíkri kröfu til streitu ef úr þessu verður svo leyst síðar. 

Hvernig á að launa fyrir breytingar á störfum samkvæmt lögum um borgaralega skyldu? 

Starfsmenn eiga aldrei að lækka í launum. Almennt eiga starfsmenn að halda sínum launum en það getur einnig gerst að starfsmaður sé færður í hærra launað starf eða að um yfirvinnu sé að ræða, og þá ættu laun að hækka í samræmi við það.

Alþingi hefur samþykkt nýtt ákvæði til bráðabirgða til að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila (ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu) til að færa starfsmenn tímabundið milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Hættustund telst vera fyrir hendi í skilningi þessa ákvæðis þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hæsta almannavarnastigi samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga, eða hefur lýst því yfir að það sé yfirvofandi. Ákvæðið fellur úr gildi 1. janúar 2021. 


Skert starfshlutfall, uppsögn eða gjaldþrot

Getur vinnuveitandi skert starfshlutfall mitt vegna COVID-19? 

Almenna reglan er sú að vinnuveitandi getur ekki einhliða skert starfshlutfall starfsmanns nema með uppsögn og þá gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd og lengd uppsagnarfrests. Vinnuveitandi og starfsmaður geta með samkomulagi tímabundið breytt starfshlutfalli starfsmanns. Mikilvægt er að gert sé skriflegt samkomulag þar um þar sem m.a. kemur fram tímalengd og sérstakar undantekningar (t.d. varðandi veikindalaun og uppsögn miðað við fyrra starfshlutfall).

Að gefnu tilefni er bent á að vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið.

Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Jafnframt er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri. Sjá nánar hér ofar á síðunni. 
Bent er á reiknivél fyrir skert starfshlutfall og hlutabætur frá VMST.

Getur vinnuveitandi minn búið til sérreglur í tengslum við Covid-19?

Vinnuveitanda ber skylda til að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi fyrir sína starfsmenn og getur því verið nauðsynlegt að setja sérreglur í tengslum við Covid-19. Setji vinnuveitandi reglur sem ganga lengra en almenn fyrirmæli, reglur og lög þá eru þær sérreglur að jafnaði settar á kostnað vinnuveitanda.

Ákvörðun um sóttkví er tekin af stjórnvöldum á grundvelli sóttvarnarlaga. Óski vinnuveitandi eftir því að starfsmaður mæti tímabundið ekki til starfa, án þess að starfsmaður hafi fengið fyrirmæli stjórnvalda um að sæta sóttkví, heldur starfsmaður fullum launum á meðan fjarvist stendur. 

BHM vekur athygli á því að mál sem þessi geta verið mismunandi og nauðsynlegt að skoða hvert tilfelli fyrir sig. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag

Hvernig fer lækkun á starfshlutfalli fram? 

Vinnuveitandi getur sagt upp hluta starfshlutfalls með sama fyrirvara og uppsagnarfrestur. Sé það gert gilda ákvæði kjarasamninga um uppsögn og uppsagnarfrest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM

Vinnuveitandi og starfsmaður geta einnig gert samkomulag um lækkað starfshlutfall og vikið þá frá uppsagnarfresti en þá þurfa bæði starfsmaður og vinnuveitandi að vera sammála um það. Lækkun starfshlutfalls getur ýmist verið tímabundin, og ber þá að taka það fram, eða til frambúðar. Mikilvægt er að gert sé skriflegt samkomulag þar um þar sem m.a. kemur fram tímalengd og sérstakar undantekningar.

Er vinnuveitanda heimilt að lækka starfshlutfall mitt ef ég er frá vinnu vegna veikinda?

Veikindi koma ekki í veg fyrir að starfshlutfall starfsmanns sé lækkað einhliða vegna rekstrarlegra ástæðna. Sé það gert gilda ákvæði kjarasamninga um uppsögn og uppsagnarfrest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Ég og vinnuveitandi minn gerðum samkomulag um lækkað starfshlutfall, hvaða áhrif hefur það á laun í veikindum?

Almennt er það þannig að laun í veikindum miðast við það starfshlutfall sem starfsmaður er í þegar hann veikist.

Samkomulag starfsmanns og vinnuveitanda um lækkað starfshlutfall vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda hefur áhrif á laun starfsmanns í veikindum. Þannig byggjast laun í veikindum á nýja/lækkaða starfshlutfallinu, og starfsmaður á ekki rétt á atvinnuleysisbótum frá VMST á móti lækkuðu starfshlutfalli ef starfsmaður er í veikindaleyfi. Aðilar geta m.a. haft þetta í huga við gerð tímabundna samkomulagsins.

Er vinnuveitanda heimilt að lækka starfshlutfall mitt ef ég er í fæðingarorlofi? 

Vinnuveitandi getur ekki einhliða lækkað starfshlutfall starfsmanns í fæðingarorlofi fyrr en að hann snýr aftur til starfa að loknu orlofi. Sé það gert gilda ákvæði kjarasamninga um uppsögn og uppsagnarfrest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Er vinnuveitanda heimilt að lækka starfshlutfall mitt en krefjast óbreytts vinnuframlags af mér vegna þess að ég fæ atvinnuleysisbætur á móti? 

Vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið. Félagsmönnum er bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag við þessar aðstæður. 

Er vinnuveitanda heimilt að segja mér upp vegna samdráttar af völdum COVID-19?

Vinnuveitandi getur þurft að grípa til uppsagna ef fyrirtækið þarf að draga saman vegna COVID-19, eða vegna annarra ástæðna. Um þetta gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd þeirra og lengd uppsagnarfrests. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Er vinnuveitanda heimilt að segja mér upp samhliða samkomulagi um lækkað starfshlutfall? 

Megintilgangur ákvæðisins er að aðstoða og gera vinnuveitendum og starfsmönnum þeirra, kleift að viðhalda ráðningarsambandi sín á milli. Það er grundvallarskilyrði fyrir greiðslu bóta frá VMST að ráðningarsamband sé í gildi. Ef vinnuveitandi segir upp starfsmanni sem hann hefur gert samkomulag við, lítur VMST svo á að forsenda samkomulagsins sé brostin og þá taki almennar reglur um uppsagnarfrest við.

Sjá nánar tilkynningu frá VMST

Er vinnuveitanda heimilt að gera breytingar á ráðningarkjörum mínum? 

Ástandið í þjóðfélaginu hefur ekki áhrif á lagaleg- né kjarasamningsbundin ákvæði. Ætli vinnuveitandi að breyta ráðningarkjörum þínum ber honum að segja þeim upp með sama fyrirvara og uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi. Aðilar geta einnig komist að samkomulagi um breytingu á kjörum.

BHM vil beina því til félagsmanna að lesa vel yfir alla samninga um breytingar á ráðningarkjörum og ef það er minnsti vafi um einhver atriði að hafa samband við sitt stéttarfélag .    

Fyrirtækið sem ég starfa hjá er að fara í gjaldþrot vegna aðstæðna á vinnumarkaði, hver eru mín réttindi? 

Sú staða getur komið upp að fyrirtækið sem þú starfar hjá getur ekki greitt skuldir sínar og verður gjaldþrota. Við þessar aðstæður skalt þú strax hafa samband við þitt stéttarfélag. Sjá nánar hér.   

Athugið: Ef fyrirtækið sem þú vinnur hjá verður gjaldþrota í kjölfar minnkaðs starfshlutfalls mun Ábyrgðasjóður launa miða útreikning við tekjur þínar líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað.

Ýmsar aðrar spurningar vegna COVID-19

Ég er sjálfstætt starfandi einstaklingur, á ég rétt á einhverjum úrræðum vegna erfiðleika í rekstri af völdum COVID-19?

Já. Úrræði ríkisstjórnarinnar um laun í sóttkví og lækkað starfshlutfall samhliða atvinnuleysisbótum ná einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga. 
Sjá nánar hér ofar undir liðnum "Réttindi sjálfstætt starfandi", og á heimasíðu VMST og RSK

Ég er sjálfstætt starfandi rekstraraðili og var gert að loka starfsemi minni til að hefta útbreiðslu COVID-19. Á ég rétt á tímabundnum greiðslum vegna fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda?

Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir ná til launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem var gert að sæta sóttkví en ekki rekstraraðila.

Þá hefur Alþingi samþykkt lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar eru sérstakir lokunarstyrkir til rekstraraðila sem var gert skylt að láta af starfsemi eða þjónustu.  

Þarf ég að mæta til vinnu ef almenningssamgöngur hætta?

Það er á ábyrgð starfsmanns að koma sér til vinnu. Liggi almenningssamgöngur niðri verður þú að finna aðra leið til að mæta til vinnu.

Hjá ríkinu: Áfram gildir þó ákvæði kjarasamnings um vinnusókn og ferðir þegar starfsmenn hefja eða hætta vinnu á tímabilinu frá kl. 00:05 til kl. 06:55 virka daga og frá kl. 00:05 til kl. 10:00 á sunnudögum eða á sérstökum frídögum, að þá skal þeim séð fyrir ferðum eða greiddur ferðakostnaður að og frá vinnustað innan 12 km fjarlægðar, en þó utan 1,5 km. Ákvæði þetta er mismunandi í kjarasamningum aðildarfélaga BHM og félagsmenn hvattir til að hafa samband við sitt félag.

Getur vinnuveitandi farið fram á að ég vinni í fjarvinnu á meðan ég er í sóttkví?

Já, að því gefnu að þú ert vinnufær og hafir aðstöðu til fjarvinnu þá getur vinnuveitandi farið fram á að þú vinnir í fjarvinnu á meðan þú ert í sóttkví.

Ef þú svo veikist á meðan sóttkví stendur telst það til veikinda og vinnuveitandi getur ekki gert kröfu um vinnuframlag.

Getur vinnuveitandi gert kröfu um að ég mæti til vinnu, þó svo að ég vil og get unnið að heiman/í fjarvinnu?

Almennt er það þannig að vinnuveitandi getur gert kröfu um að starfsmaður mæti til vinnu, sé það venjan. Mæti starfsmaður ekki, og vinnuveitandi samþykkir ekki fjarvinnu, þá er um launalaust leyfi, orlofstöku eða eftir atvikum veikindaleyfi um að ræða. Undantekning væri þó ef að starfsumhverfi er ekki öruggt og heilsusamlegt, þá er ekki hægt að skylda starfsmann til þess að mæta til vinnu.

Ýmsar ástæður geta legið að baki beiðni starfsmanns um að vinna í fjarvinnu. Ef það er vegna þess að starfsmaður treystir sér ekki vegna kvíða eða undirliggjandi sjúkdóms, þá getur það flokkast sem veikinda- og óvinnufærni skv. kjarasamningi. Þannig þyrfti læknisvottorð að liggja fyrir og starfsmaður fer í veikindaleyfi.    

Getur vinnuveitandi krafist þess að ég vinni með hlífðargrímu ef ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna?

Samkvæmt lögum ber vinnuveitanda að tryggja starfsmönnum sínum öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi.

Í dag gildir sú regla að hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi séu a.m.k. tveir metrar á milli einstaklinga og er sú regla ekki valfrjáls. Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á til dæmis við í samgöngum eins og flugvélum, farþegaferjum, strætó og rútuferðum. Sömuleiðis á þetta við um starfsemi þar sem nálægð er mikil, til dæmis á hárgreiðslustofum og nuddstofum. Hlífðargríma kemur því ekki í stað tveggja metra reglunnar.

Þannig ber vinnuveitandi að framfylgja tveggja metra reglunni eða gera viðeigandi ráðstafanir, t.d. með því að bjóða starfsmönnum að vinna að heiman. 

Hver hefur rétt á að skilgreina  náin tengsl, ég eða vinnuveitandi?

Vinnuveitandi hefur ekki rétt til að ákveða við hverja starfsmaður er í nánum tengslum, starfsmaður hefur í öllum tilvikum þann skilgreiningarrétt sjálfur. Þar af leiðandi er vinnuveitandi skyldugur til að tryggja að starfsfólk geti viðhaft tveggja metra regluna á vinnustað, nema í ákveðnum tilvikum eins og getið er um í lögum. 

Getur vinnuveitandi ákveðið að  náin tengsl séu á milli starfsfólks sama vinnustaðar og því þurfi ekki að fylgja 2ja metra reglunni á vinnustað?

Borið hefur á því að vinnuveitendur og starfsmenn hafi mismunandi túlkun á orðalaginu í nánum tengslum í 4.gr. gildandi auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Þar segir m.a. að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Sé starfsemin þess eðlis að krafist er meiri nálægðar milli einstaklinga, svo sem í heil­brigðis­þjónustu, skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem 2 metra fjar­lægð milli einstaklinga verður ekki við komið.

Í útskýringum sóttvarnarlæknis á nálægðartakmörkunum vegna COVID-19, dagsettri19. ágúst 2020 , kemur fram að rekstraraðilum ber að tryggja einstaklingum sem ekki deila heimili a.m.k. 2 metra nálægðartakmörkun. Hinsvegar eru ekki lagðar skyldur á einstaklinga um að viðhafa 2 metra nálægðartakmarkanir.

Með tilliti til ofangreinds telur BHM það skýrt að vinnuveitanda ber að tryggja starfsmönnum sínum öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi með því að framfylgja tveggja metra reglunni ella gera viðeigandi ráðstafanir. Náin samvinna starfsfólks veitir ekki afslátt af tveggja metra reglunni. 

Getur vinnuveitandi sett mig í önnur störf en ég er ráðin/n til?

Vinnuveitanda er almennt ekki heimilt að setja þig í önnur störf en þú ert ráðin til skv. ráðningarsamningi. 

Hafa þarf þó í huga mismunandi orðalag í ráðningarsamningum sem í sumum tilvikum opna á ákveðnar breytingar á verksviði. Skiptir þá höfuðmáli að um sé að ræða málefnalegar breytingar. Meta þarf hvert tilvik fyrir sig með tilliti til aðstæðna. Vegna óviðráðanlegra atvika líkt og skapast hafa vegna COVID-19 getur vinnuveitandi breytt starfsstöð þinni tímabundið með samkomulagi ykkar á milli.

Er vinnuveitanda heimilt að breyta ákvörðun um orlof sem hann hefur samþykkt?

Almennt er vinnuveitanda óheimilt að breyta orlofstöku starfsmanns. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að gera samkomulag um annað.

Getur vinnuveitandi farið fram á að ég fari í orlof á næstu dögum/vikum eða sent mig í launalaust leyfi?

Samkvæmt orlofslögum er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl. Flestir starfsmenn hafa núþegar nýtt orlof sitt á núverandi orlofsári, eða búnir að ákveða ráðstafa því fram til 30 apríl.

Það orlof sem búið var að ákveða á næstu dögum/vikum (t.d. í kringum páskaleyfi) helst óbreytt, nema starfsmaður og vinnuveitandi komist að öðru samkomulagi. Vinnuveitanda er heimilt að fara fram á að starfsmaður fari í fyrirhugað orlof, þó svo að forsendur orlofsins hafa breyst (t.d. að utanlandsferð um páska falli niður). Undantekning frá þessu er ef starfsmaður geti ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem áætlað var, en þá gilda ákvæði kjarasamninga og laga um veikindi í orlofi.

Almenna reglan er sú að vinnuveitandi getur ekki einhliða ákveðið að þú farir í orlof. Samkvæmt orlofslögum ákveður vinnuveitandi, í samráði við starfsmann, hvenær orlof skuli veitt og skal hann verða við óskum starfsmanns um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja starfsmanna skal vinnuveitandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.

Hið opinbera: Athygli er vakin á því að sé hluti orlofs tekið fyrir sumarorlofstímabil samkvæmt beiðni vinnuveitanda, skal sá hluti orlofsins lengjast. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Vinnuveitanda er óheimilt að senda þig í launalaus leyfi. Það er ávallt háð samkomulagi milli aðila. 

Getur vinnuveitandi óskað eftir því að ég komi með læknisvottorð um að ég sé vinnufær vegna COVID-19?

Vinnuveitandi getur krafist læknisvottorðs á sama hátt og vegna annarra veikinda.

Þeir sem þurfa að sitja í sóttkví samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda geta nú sjálfir skráð upplýsingar um það inn á vefinn heilsuvera.is og fengið vottorð þar að lútandi. Vottorðin eru án endurgjalds. Vakin er athygli á því að skráning í heilsuveru krefst þess að notandi sé með rafræn skilríki.

Þeir sem hafa ekki rafræn skilríki og geta ekki nýtt sér heilsuveru eiga að hafa samband við heilsugæslustöðina sína. Heilsugæslustöðin kemur upplýsingum um sóttkví viðkomandi til sóttvarnalæknis. Þar er hægt að óska eftir staðfestingu á sóttkví með því að senda tölvupóst á netfangið mottaka@landlaeknir.is og skrá í efnislínu: Staðfesting á sóttkví.

Er vinnuveitanda heimilt að upplýsa samstarfsfólk um að ég sé í sóttkví og/eða smituð/smitaður af COVID-19?

Þær aðstæður kunna að koma upp að nauðsynlegt sé að miðla upplýsingum til annarra um fjarvist stafsmanns sem er í sóttkví. Mat á slíku fer eftir aðstæðum hverju sinni. Forðast skal að miðla upplýsingum um nafn starfsmanns, nema slíkt sé nauðsynlegt. Þá er einnig rétt að vanda slíka miðlun til að koma í veg fyrir óþarfa ótta meðal annarra starfsmanna.

Sóttvarnalækni er heimilt að afla gagna frá öllum þeim aðilum, sem geta veitt upplýsingar þegar út brýst hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna, og vinna með þær upplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er, sbr. bréf Persónuverndar til sóttvarnalæknis þann 26. febrúar 2020.

Búið er að leggja niður mötuneytið á vinnustaðnum mínum, á ég rétt á fæðispeningum? 

Hið opinbera: Hafi starfsmaður ekki aðgang að matstofu en ætti að hafa það skv. ákvæðum kjarasamninga, skal hann fá það bætt með fæðispeningum. 

Vinnuveitandi minn breytti útgefni vaktskrá með stuttum fyrirvara vegna COVID-19, er það heimilt? 

Vegna núverandi ástands í þjóðfélaginu af völdum COVID-19 geta breytingar á útgefni vaktskrá verið bæði nauðsynlegar og óhjákvæmilegar. BHM vil þó benda á að mikilvægt er að vinnuveitandi reyni eftir fremsta megni að hafa samráð við starfsmenn um breytingu á vaktskrá.

Vinnuveitanda er heimilt að breyta útgefni vaktskrá og gilda þá ákvæði kjarasamninga þar um. Almennt ber vinnuveitanda að gefa út vaktskrá með minnst mánaða fyrirvara nema um samkomulag sé við starfsmann um skemmri frest. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Hið opinbera: Þar sem unnið er á reglubundnum vöktum og vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst. (sólahrings), skal viðkomandi starfsmanni greitt aukalega 3 klst. í yfirvinnu. Sé fyrirvarinn 24-168 klst. (ein vika) skal greiða 2 klst. í yfirvinnu. Hér er eingöngu átt við breytingu á skipulagðri vakt en ekki aukavakt. 

Vinnuveitandi minn breytti útgefni vaktskrá með stuttum fyrirvara vegna COVID-19, á ég rétt á að fá laun samkvæmt fyrri vaktskrá?

Nei laun eru greidd samkvæmt nýrri vaktskrá. Á það bæði við um skipulagðar vaktir og skipulagðar bakvaktir. Vinnuveitanda er heimilt að breyta útgefni vaktskrá og gilda þá ákvæði kjarasamninga þar um. Sjá nánar viðkomandi kjarasamning hjá viðkomandi aðildarfélagi BHM.

Hefur neyðarstig almannavarna áhrif á hvíldartímaákvæði kjarasamninga?

Hvíldar- og vinnutímaákvæði kjarasamninga eru enn í fullu gildi þrátt fyrir að lýst hafi verið yfir neyðarstigi almannavarna. Undanþágur frá hvíldartímaákvæðum kjarasamninga getur þó verið beitt í meira mæli og er það heimilt vegna þess að almannaheill krefst þess. Starfsmenn skulu þó áfram fá frítökurétt með þeim hætti sem kjarasamningar kveða á um. 

Má færa starfsmann á milli starfsstöðva samkvæmt lögum um borgaralega skyldu? 

Já, það getur verið heimilt. Sem dæmi má nefna ef stór hluti starfsmanna á einum vinnustað er í sóttkví og starfsemin er þess eðlis að henni verður að halda gangandi. Þá getur verið heimilt að færa aðra starfsmenn þangað.

Alþingi hefur samþykkt nýtt ákvæði til bráðabirgða til að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila (ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu) til að færa starfsmenn tímabundið milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Hættustund telst vera fyrir hendi í skilningi þessa ákvæðis þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hæsta almannavarnastigi samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga, eða hefur lýst því yfir að það sé yfirvofandi. Ákvæðið fellur úr gildi 1. janúar 2022. 

Ef ég verð fyrir útlögðum kostnaði vegna breytinga á lögum um borgaralega skyldu, hver greiðir þann kostnað?

Almennt er það vinnuveitandi sem greiðir útlagðan kostnað, t.d. vegna ferðalaga á tímabundna nýja vinnustöð. Starfsmaður þarf þá að framvísa reikningi eða akstursdagbók. Ef greiða á dagpeninga er það gert eftir almennum reglum.

Get ég neitað breytingu á starfi mínu ef breytingin er að öðru leyti í samræmi við lög um borgaralega skyldu?

Nei, lögin gera ekki ráð fyrir því að starfsmenn geti neitað breytingu en hins vegar þarf að taka tillit til þess ef starfsmaður eða annar aðili sem starfsmaður ber ábyrgð á, eins og til dæmis barn starfsmanns, glímir við undirliggjandi sjúkdóm og telst þar af leiðandi vera í áhættuhópi. Starfsmaður í þeirri stöðu gæti farið fram á að fá undanþágu frá breytingu, sé hið nýja starf til dæmis þess eðlis að hann er í meiri smithættu en í fyrra starfi.

Hvaða störf má fela starfsmanni samkvæmt lögum um borgaralega skyldu?

Þau verkefni sem verða að hafa forgang í neyðarástandi almannavarna. Ekki má fela starfsfólki störf sem hafa ekki tilgangi að gegna í almannavarnaástandi.

Hvaða áhrif hefur samkomubann á minn vinnustað?

Hér er hægt að fylgjast með gildandi takmörkunum á samkomum.
Á þeim vinnustöðum þar sem færri en [gildandi takmörkun á samkomum] vinna er mælst til þess að haga vinnurými þannig að hægt sé að hafa [gildandi nálægðarmörk] á milli einstaklinga. Gott er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Þarf að loka stórum vinnustöðum í samkomubanninu?

Hér er hægt að fylgjast með gildandi takmörkunum á samkomum.
Líkur eru á því að einhverjum vinnustöðvum þurfi að loka eða breyta talsvert fyrirkomulagi vinnu. Mikilvægt er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.


Námslán

Hvað gerist með námslánin hjá LÍN?

Þær aðstæður sem nú eru uppi kalla á sveigjanleika af hálfu allra og því hefur stjórn Menntasjóðs námsmanna, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið eftirfarandi ívilnanir fyrir greiðendur og námsmenn til að létta á áhyggjum þeirra af fjármálum vegna hugsanlegra aðstæðna sem komið geta upp á meðan á kórónuveirunni stendur eða í kjölfar hennar.

4. desember 2020: Á vormánuðum voru kynntar ívilnanir fyrir bæði nemendur og greiðendur til að koma til móts við bæði sérstakar og erfiðar aðstæður fjölda viðskiptavina sjóðsins á tímum kórónuveirufaraldursins. Þær ívilnanir eru enn til staðar, sjá nánar hér .

Ítarefni

Úttekt séreignarsparnaðar vegna COVID-19

Á tímabilinu 1. apríl til og með 31. desember 2021 er heimilt að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar allt að 12 milljónum króna miðað við stöðu samanlagðs sparnaðar þann 1. apríl 2021 óháð dreifingu á vörsluaðila. Sótt er um þetta hjá vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Úttekt greindar fjárhæðar dreifist á 15 mánuði frá því að beiðni er lög fram hjá vörsluaðila. Sé ráðstafað lægri fjárhæð en 12 milljónum styttist útgreiðslutími hlutfallslega. Við útborgun skal haldið eftir staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ráðstöfun séreignarsparnaðar samkvæmt þessari heimild hefur ekki áhrif á önnur úrræði sem heimiluð hafa verið um úttekt og ráðstöfun séreignasparnaðar. Þá hefur útgreiðsla séreignasparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hvorki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð né greiðslu húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur eða greiðslu barnabóta, vaxtabóta , atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

Sjá yfirlit úrræða vegna COVID-19

Barnabótaauki 

 • Við álagninu 2021 er greiddur sérstakur barnabótaauki vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónuveiru. Greiddar eru 30.000 krónur með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda. Fjárhæð barnabótaauka skiptist jafnt milli hjóna og sambúðarfólks. 
 • Þann 1. júní 2020 var sérstakur barnabótaauki greiddur vegna allra barna yngri en 18 ára. Barnabætur miðast við tekjuárið 2019 og í lok maí verður hægt að sjá hversu hár barnabótaaukinn verður. Foreldrar sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum fá 42.000 krónur með hverju barni undir 18 ára aldri en foreldrar sem ekki eiga rétt á tekjutengdum barnabótum vegna skerðingar fá 30.000 krónur með hverju barni.

Ekki þarf að sækja um sérstakan barnabótaauka, hann telst ekki til skattskyldra tekna, leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

Sjá nánar hér.

Sjá yfirlit úrræða vegna COVID-19

Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Á tímabilinu 1. mars 2020 til 31. desember 2021 geta eigendur og leigjendur íbúðarhúsnæðis (utan rekstrar) fengið 100 prósent endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna:

 • Aðkeyptrar vinnu við nýbyggingar, viðhalds og hönnunar íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa. Þessi heimild nær einnig til orlofshúsa og orlofsíbúða stéttarfélaga og mannvirkja í eigu ýmissa frjálsra félagasamtaka.
 • Vinnu við heimilisþrif og reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis.
 • Einnig verður heimiluð, á sama tímabili, endurgreiðsla á 100 prósent virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiðar í eigu umsækjanda en vinnuliðurinn verður að vera að lágmarki 25.000 krónur.

Sótt er um endurgreiðslu virðisaukaskatts hjá Skattinum, sjá nánar hér.

Sjá yfirlit úrræða vegna COVID-19

Almennar upplýsingar vegna COVID-19

 • Félagsmönnum er bent á að kynna sér vel fræðsluefni um smitvarnir sem finna má m.a á heimasíðu landlæknisembættisins og www.influensa.is.
 • Á upplýsingavef Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, www.covid.is, má finna góð ráð, tilkynningar, spurt og svarað, o.fl.
 • Landlæknir hefur gefið út formlegar leiðbeiningar um hvernig skuli bregðast við COVID-19 smitum á vinnustöðum.
 • Hér má finna leiðbeiningar Vinnueftirlitsins til vinnustaða um leiðir til að vernda starfsfólk sitt vegna COVID-19 smithættu.
 • Hér má finna myndrænar leiðbeiningar vegna COVID-19 á íslensku og ensku. 
 • Here you can find information in english about COVID-19 from Landlæknir. 
 • Hér má finna upplýsingar um varúðarráðstafanir og viðbrögð vegna Covid-19 á íslensku, ensku, arabísku, spænsku, persnesku, kúrdísku, pólsku og Sorani.
 • Félagsmenn eru minntir á mikilvægi handþvottar og sótthreinsunar. Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) til að fá nánari upplýsingar um hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.