Chat with us, powered by LiveChat

Fjarvinna

Fjarvinna byggir á frjálsu vali starfsmanns og vinnuveitanda

Fjarvinna er vinnuform sem gerir fólki kleift að vinna fjarri hefðbundinni starfsstöð. Fjarvinna byggir á samkomulagi við vinnuveitanda um að vinna sem alla jafna er unnin á starfsstöð sé reglubundið unnin fjarri starfsstöð með aðstoð upplýsingatækni. 

Almennt er ekki að finna sérstök ákvæði um fjarvinnu í kjarasamningum aðildarfélaga BHM. Í gildi er sam­komu­lag á opinberum vinnumarkaði um fjar­vinnu, frá árinu 2006, þar sem meðal annars er að finna skil­grein­ingu fjar­vinnu, fjallað um notk­un á hvers kyns búnaði við störf og skil milli vinnu og einka­lífs. Finna má sambærilegt samkomulag á almennum vinnumarkaði. Þá má finna bókun um fjarvinnu í kjarasamningi aðildarfélaga BHM við SA (almennur vinnumarkaður) frá júní 2021.  

Fjarvinna byggir á frjálsu vali starfsmanns og vinnuveitanda og ekki er til eitt rétt form fjarvinnu. Þannig getur fjarvinna verið hluti af upphaflegri starfslýsingu eða hafa komist á sem óþvingað val aðila síðar. Fjarvinna er innan ramma ráðningarsamnings og/eða ráðningarsambands samskonar vinna og unnin er á starfsstöð.

Almennt skipuleggur fjarvinnustarfsmaður sjálfur vinnutíma sinn innan ramma laga, kjarasamninga og reglna vinnuveitanda. Vinnuálag og kröfur til starfsmanns í fjarvinnu eiga þó ávallt að vera sambærilegar við álag og kröfur sem gerðar væru til starfsmannsins á starfsstöð vinnuveitanda.

Áður en fjarvinna getur hafist þarf að taka afstöðu til ýmissa álita- og úrlausnarefna sem snerta bæði starfsmann og vinnuveitanda. Fjalla þarf sérstaklega um þessi úrlausnarefni með skriflegum hætti, annaðhvort í ráðningarsamningi eða í viðauka við ráðningarsamning. Félagsmenn aðildarfélaga BHM eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag áður en slíkur samningur er gerður.

Snemma árs 2021 kannaði BHM umfang og umgjörð fjarvinnu sem félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins inna af hendi og viðhorf þeirra til þessa vinnuforms. Hér má lesa um niðurstöður könnunarinnar.

Kjör og réttindi

Fjarvinnustarfsmenn skulu njóta sömu kjara og starfsmönnum á starfsstöð vinnuveitanda eru tryggð samkvæmt lögum og kjarasamningum. Þá gilda kjarasamningsbundin ákvæði óháð því hvort starfsmaður er fjarvinnustarfsmaður eður ei, t.d. varðandi orlof, veikindi, uppsagnir, o.fl. 

 • Reglur og samkomulög um form ráðningarsamninga og skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör gilda einnig um fjarvinnustarfsmenn. Sjá nánar um ráðningarsamninga hér
 • Það kann að vera nauðsynlegt að gera sérstakar viðbætur við ráðningarsamning vegna fjarvinnu starfsmanns
 • Öll álitaefni er varða búnað, ábyrgð og kostnað skulu skilgreind á skýran hátt áður en fjarvinna hefst
 • Nauðsynlegt er að hafa ákvæði kjarasamninga um viðverustefnu í huga þegar að kemur að skipulagningu fjarvinnu

Búnaður

 • Ef samið er um að fjarvinnu sem hluta af vinnufyrirkomulagi milli vinnuveitanda og starfsmanns þá þarf að gera samkomulag um kostnað við búnað og aðstöðu á fjarvinnustað.
 • Meginreglan er sú að vinnuveitanda ber að útvega, tengja og halda við þeim búnaði sem nauðsynlegur er við reglulega fjarvinnu og tryggir að fjarvinnustarfsmaður hafi möguleika á tæknilegri aðstoð
 • Sé fjarvinna innt reglulega af hendi skal vinnuveitandi bæta eða greiða beinan kostnað sem stafar af vinnunni

Trúnaðarmönnum skulu veittar upplýsingar og við þá haft samráð í samræmi við lög, kjarasamninga og venju þegar fjarvinna er tekin upp. Þá eru engar hömlur lagðar á samskipti fjarvinnustarfsmanna við trúnaðarmenn

Fjarvinna ekki hluti af upphaflegri starfslýsingu/ráðningarforsendum

 • Sé fjarvinna ekki hluti af upphaflegri starfslýsingu/ráðningarforsendum og vinnuveitandi býður fjarvinnu, getur starfsmaður tekið því tilboði eða hafnað því. Láti starfsmaður í ljós ósk til þess að taka upp fjarvinnu getur vinnuveitandi orðið við eða hafnað þeirri ósk.
 • Upptaka fjarvinnu hefur engin áhrif á stöðu fjarvinnustarfsmannsins sem starfsmanns.
 • Höfnun starfsmanns á tilboði um fjarvinnu, er sem slík ekki gild ástæða fyrir uppsögn eða breytingum á ráðningarkjörum.
 • Sé fjarvinna ekki hluti af upphaflegri starfslýsingu/ráðningarforsendum er ákvörðun um að hefja fjarvinnu afturkallanleg samkvæmt ráðningarsamningi og/eða kjarasamningi. Afturköllun getur falið í sér að horfið sé til starfs í starfsstöð vinnuveitanda að ósk starfsmanns eða vinnuveitanda. 
 • Heimilt er að útfæra þetta nánar í einstaklingsbundnum ráðningarsamningi og/eða kjarasamningi.

Aðbúnaður og hollustuhættir

Vinnuveitandi ber ábyrgð á heilbrigði og öryggi starfsmanna vegna vinnunnar í samræmi við löggjöf og kjarasamninga og eru fjarvinnustarfsmenn engin undantekning þar á. Hvort heldur sem unnið er heima eða á vinnustað vinnuveitanda þarf vinnuveitandi að huga að vinnuvernd og aðbúnaði. Þegar um fjarvinnu að heiman er að ræða fellur ábyrgðin á heilnæmu vinnuumhverfi, eðli málsins samkvæmt, bæði á vinnuveitanda og starfsmann.

 • Vinnuveitanda ber að upplýsa fjarvinnustarfsmann um stefnu vinnustaðsins í heilbrigðis- og öryggismálum vegna vinnunnar og þá sérstaklega hvað varðar skjávinnu.
  • Fjarvinnustarfsmanni ber að fylgja þessari stefnu
 • Til þess að staðfesta að viðeigandi reglum um heilbrigði og öryggi sé fylgt hafa vinnuveitandi, trúnaðarmenn og/eða viðeigandi yfirvöld aðgang að þeim stað þar sem fjarvinna fer fram, með þeim takmörkum sem lög og kjarasamningar geyma. 
  • Vinni fjarvinnustarfsmaður á heimili sínu er slíkur aðgangur háður fyrirfram tilkynningu og samþykki starfsmanns 
 • Vinnuveitandi þarf að tryggja að fjarvinnustarfsmaður einangrist ekki frá samfélagi við aðra starfsmenn vinnustaðarins.

Vernd gagna

Vinnuveitandi ber ábyrgð á því, einkanlega að því er varðar hugbúnað, að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, til þess að tryggja vernd þeirra gagna sem fjarvinnustarfsmaðurinn notar og vinnur með í starfi sínu.

Vinnuveitanda ber að upplýsa fjarvinnustarfsmann bæði um lagareglur sem máli skipta og reglur fyrirtækisins varðandi verndun gagna.

Það er á ábyrgð fjarvinnustarfsmannsins að fara eftir þessum reglum.

Vinnuveitandi upplýsir fjarvinnustarfsmann sérstaklega um:

 • Allar takmarkanir á notkun upplýsingatæknibúnaðar eða verkfæra eins og internetsins
 • Viðurlög ef ekki er eftir þeim farið

Ítarefni

 • Samkomulag á opinberum vinnumarkaði um fjarvinnu
 • Lög nr. 46/1980 , um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum