Chat with us, powered by LiveChat
 • pexels-miguel-a-padrinan-745365

Vinnutími

Hér er fjallað um flesta þætti kjarasamninga er lúta að vinnutíma, skilgreiningu á helstu hugtökum, ásamt nánari upplýsingum um skipulag vinnutíma samkvæmt kjarasamningum og lögum.

Þegar að vinna er skipulögð er gott að kynna sér og þekkja ákvæði kjarasamninga um vinnutíma, neysluhlé, hvíldartíma og frídaga, en ákvæði kjarasamninga aðildarfélaga BHM geta verið mismunandi hvað þessa þætti varðar. Jafnframt geta ákvæði um vinnutíma verið mismunandi eftir því hvort starfsmaður er opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði.

Vinnuvikan

Almennt er vinnuvika starfsmanns í fullu starfi 40 stundir, nema um skemmri vinnutíma sé sérstaklega samið. Meginreglan er sú að starfsmaður í fullu starfi skilar fullri vinnuskyldu vinni hann 8 tíma á dag 5 daga vikunnar, mánudag til föstudags.

Sjá nánar um styttingu vinnuvikunnar.

Yfirvinna

Yfirvinna telst sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vakt starfsmanns svo og sú vinna sem innt er að hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu.

Yfirvinnutímakaupið er fundið með því að margfalda mánaðarlaunum með tiltekinni prósentu, sem finna má í hlutaðeigandi kjarasamningi. 

Frí í stað yfirvinnu:

 • Í flestum kjarasamningum er ákvæði um frí í stað yfirvinnu.
 • Hjá hinu opinbera er starfsmönnum heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að safna frídögum vegna yfirvinnu á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar og frítöku en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Rétt er að taka fram að ávallt ber að greiða yfirvinnuálagið. 

Vaktavinna

Vaktavinna er unnin á skipulögðum vöktum, samkvæmt fyrirfram ákveðnu fyrirkomulagi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum.

 • Vaktaálag er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma. Vaktaálag reiknast sem hlutfall af dagvinnukaupi.
 • Almenna reglan er sú að endanleg vaktskrá skal lögð fram með að lágmarki eins mánaðar fyrirvara. Finna má ákvæði um breytingargjald ef breyta þarf vaktskrá með skömmum fyrirvara. Hér er átt við breytingar á skipulögðum vöktum og ekki aukavöktum og er breytingin háð samþykki starfsmanns. Sjá hlutaðeigandi kjarasamning vegna tímamarka og breytingargjalds. 
 • Þegar að kemur að vaktavinnu og gerð vaktskrá er mikilvægt að hafa í huga meginreglur hvíldartímalöggjafar um 11 tíma hvíld á sólarhring, vikulegan frídag og 48 klst. hámarksvinnuskyldu á viku. Æskilegt er að vaktir séu skipulagðar réttsælis eftir sólarhringnum og líkamsklukkunni, þannig að fyrst komi morgunvakt, svo kvöldvakt, svo næturvakt og svo hvíld. 
 • Vakin er athygli á því að vaktavinnukafli kjarasamninga hins opinbera tekur breytingum þann 1. maí 2021.

Sjá nánar um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki.

Bakvaktir

 • Með bakvakt er átt við að starfsmaður sé ekki við störf en er reiðubúinn að sinna útkalli
 • Sé starfsmaður kallaður út til vinnu er almennt greidd yfirvinna fyrir útkallið
 • Það telst ekki bakvakt ef starfsmaður dvelst á vinnustað að beiðni yfirmanns
 • Bakvaktagreiðsla eða bakvaktarálag er vaktaálag sem reiknast sem hlutfall af dagvinnukaupi. Hlutfallið er mismunandi eftir tíma sólahrings og hvaða vikudag er um að ræða. Sjá hlutaðeigandi kjarasamning vegna þessa. 
  • Bakvaktafrí má veita hvenær árs sem er en hvorki er heimilt að flytja það milli ára né bæta því við sumarleyfi. 
 • Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við opinbera vinnuveitendur er að finna ákvæði um bakvaktafrí. Þar segir að veita skal frí fyrir reglubundna bakvakt sem skipulögð er allt árið. Frí þetta svarar 1 klst. fyrir hverja 15 klst. á bakvakt en getur að hámarki orðið 80 stundir. 

Bakvaktir eru fyrst og fremst skipulagðar vegna útkalla og því gott að hafa í huga hvað þýðir það að fara í útkall? Gott er að hafa það skýrt frá upphafi hvað telst sem útkall og hvernig er greitt fyrir aðra vinnu en eiginlegt útkall á bakvöktum. 

Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði er að finna heimildarákæði um annað fyrirkomulag greiðslna fyrir bakvaktir (sjá gr. 2.5.7.). Þá er t.d. heimilt að semja um ákveðin fjölda klukkustunda fyrir bakvaktir án tillits til tímalengdar. Mikilvægt er að hafa samband við sitt stéttarfélag áður en gengið er frá sérstökum samningi, til að ganga úr skugga um að samningurinn feli ekki í sér lakari kjör en almenn bakvaktarákvæði kjarasamningsins.  

Hvíldartími

 • Vinnutíma skal haga þannig að á 24 stunda tímabili fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld (daglegur hvíldartími). Meginreglan er að slíkur hvíldartími skal veittur strax í beinu framhaldi af vinnulotu.
 • Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími á 24 klst. tímabili fari umfram 13 klst. 
 • Séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klst. eru liðnar af hvíldartíma skapast frítökuréttur sem nemur 1,5 klst. í dagvinnu fyrir hverja klst. sem skerðist af 11 klst. hvíldartíma. 

Frávik frá meginreglu hvíldartíma

 • Á skipulegum vaktaskiptum er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld starfsmanna í allt að 8 klst. Þetta á t.d. við þegar starfsmaður skiptir af morgunvakt yfir á næturvakt samkvæmt skipulagi vaktskrár. Fráviksheimild þessi frá 11 klst. lágmarkshvíld á hins vegar ekki við þegar starfsmaður lýkur yfirvinnu og fer yfir á reglubundna vakt og öfugt.
 • Þar sem hér er um frávik frá meginreglunni um 11 klst. samfellda hvíld að ræða, verður að gera þá kröfu til vaktkerfis að það sé skipulagt þannig að skipti milli mismunandi tegunda vakta séu sem sjaldnast á vaktahring og að jafnaði reyni ekki á frávik þetta oftar en einu sinni í viku. Vinnan skal því skipulögð með sem jöfnustum hætti.
 • Vaktaskipti:
  • Við sérstakar aðstæður er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 klst. og lengja vinnulotu í allt að 16 klst., þ.e.a.s. við ófyrirsjáanleg atvik þegar bjarga þarf verðmætum. Ennfremur þegar almannaheill krefst þess og/eða halda þarf uppi nauðsynlegri heilbrigðis- eða öryggisþjónustu.
  • Sé heimildum til frávika frá daglegum hvíldartíma samkvæmt þessum lið beitt, skal starfsmaður fá samsvarandi hvíld í staðinn. Í beinu framhaldi af slíkri vinnulotu skal veita starfsmanni 11 klst. hvíld á óskertum launum sem hann annars hefði fengið.
 • Sérstakar aðstæður.

Vikulegur hvíldardagur

 • Á hverju 7 daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. 1 vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.
 • Hann á því rétt á 35 klst. samfelldri hvíld (11+24) einu sinni í viku. Að svo miklu leyti sem því verður við komið, skal vikulegur hvíldardagur vera á sunnudegi.
 • Með samkomulagi við starfsmenn má fresta vikulegum hvíldardegi þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Þá í stað vikulegs hvíldardags koma tveir samfelldir hvíldardagar á hverjum tveimur vikum. 

Ítarefni