Chat with us, powered by LiveChat
 • FundurBHM

Stytting vinnuvikunnar

Samkomulag um styttingu vinnutíma náðist í kjarasamningum 2019-2021

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir árin 2019-2021 er að finna ákvæði um breytingu á vikulegum virkum vinnutíma. Vinnuvikan hefur verið 40 stundir í nærri hálfa öld, eða frá undirritun laga um 40 stunda vinnuviku árið 1971, og ljóst er að margt hefur breyst á þeim tíma. Með kjarasamningunum var stigið mikilvægt skref í átt að auknum lífsgæðum starfsmanna.

Umræðan um hvernig breyta má skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna er hafin á flestum vinnustöðum en mikilvægt er að allir hlutaðeigandi aðilar séu upplýstir um ferlið og hvað er gott að hafa í huga þegar verið er að útfæra styttingu vinnuvikunnar. 

Ekki þarf að hafa mörg orð um þann ávinning sem stytting vinnuvikunnar getur haft í för með sér fyrir vinnustaði hins opinbera og starfsfólk þess, en bætt vinnustaðamenning og betri nýting vinnutíma eru meðal helstu markmiða styttingarinnar. Með styttingu vinnuvikunnar verður vinnustaðurinn skilvirkari og um leið fjölskylduvænni og getur styttingin stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilum. 

Stytting vinnuvikunnar hjá hinu opinbera

Stytting er í fylgiskjölum við kjarasamninga

Hér munu birtast upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar. Ekki verður farið skref fyrir skref í framkvæmdina sjálfa en leitast verður við að benda á hvað er gott að hafa í huga þegar að kemur að styttingu vinnuvikunnar og að svara helstu spurningum sem berast aðildarfélögum BHM.

Gott er að hafa í huga að samkomulag um styttingu vinnutíma hefur ekki verið fært inn í kjarasamninga heldur er það í fylgiskjölum við þá. Áður en núgildandi kjarasamningar renna út munu samningsaðilar meta í sameiningu áhrif breytinganna og hvort núverandi framsetning á ákvæðum um vinnutíma henti til frambúðar.

Bent er á að hægt er að nálgast nytsamlegt efni þar sem nánar er farið í framkvæmdina sjálfa á sérstökum heimasíðum um betri vinnutíma. Sjá slóðir hér neðar. 

Dagvinnufólk

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma dagvinnufólks og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku.

Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að umbótum í starfsemi vinnustaðarins, bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu, tryggja betur gagnkvæman sveigjanleika og stuðla þannig að bættum lífskjörum og samræmingu vinnu og einkalífs.

Breytingar á vinnufyrirkomulagi og fækkun vinnustunda krefst undirbúnings og skipulagningar hjá starfsfólki og stjórnendum en forsenda styttingarinnar hjá dagvinnufólki er samtal um betri vinnutíma á hverjum vinnustað fyrir sig. Útfærslan tekur mið af starfsemi vinnustaðarins og getur því verið með ólíkum hætti milli vinnustaða.
Gott er að hafa í huga að stytting vinnuvikunnar er samstarfsverkefni og til að ná settum markmiðum er mikilvægt að tryggja góðan undirbúning og þátttöku allra á vinnustaðnum.

Sjá myndband með upplýsingum um framkvæmd styttingu vinnuvikunnar ætlað fyrir trúnaðarmenn og fulltrúa í vinnutímanefndum. 

Vaktavinnufólk

Í flestum kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir 2019-2020 er samkomulag um breytingar sem verða gerðar á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu. Vinnuvikan fyrir fólk í vaktavinnu styttist úr 40 stundum í 36 virkar stundir, fyrir fullt starf. Frekari stytting í allt að 32 stundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnustunda.

Launamyndun vaktavinnufólks breytist og mun taka meira mið af vaktabyrði en áður. Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall. Hefur það í för með sér hærri laun og ævitekjur. Breytingar á vinnufyrirkomulagi og fækkun vinnustunda krefjast undirbúnings og skipulagningar hjá starfsfólki og stjórnendum. 

Meginmarkmið kerfisbreytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta vinnu og einkalíf, þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari. Breytingunum er einnig ætlað auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og vinnustöðum Reykjavíkurborgar, að draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning. 

Hlekkir á stuðningsefni við innleiðingu styttingar

Myndband - almenn kynning á styttingu vinnuvikunnar hjá hinu opinbera

Karen Ósk Pétursdóttir sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá BHM fer yfir helstu atriði sem huga þarf að við styttingu vinnuvikunnar:

 • Athugið að í myndbandinu er ekki farið yfir hvernig yfirvinnu verður háttað í kjölfar styttingarinnar því það var ekki ljóst þegar myndbandið var gert. Sjá upplýsingar um yfirvinnu hér að neðan.
 • Dæmin sem farið er yfir í myndbandinu má skoða nánar í þessari kynningu á betrivinnutimi.is: Betri vinnutími dagvinnufólks.
 • Einnig má skoða dæmin þrjú með því að smella á þetta pdf skjal sem opnast í nýjum glugga. 

Um yfirvinnu dagvinnufólks

Tvískipt yfirvinna tekur gildi 1. janúar 2021 hjá öllum stéttarfélögum sem sömdu þar um. Frá sama tíma mun eftirfarandi ákvæði gilda um yfirvinnu 1 og 2:

Yfirvinna er greidd með tímakaupi, sem skiptist í yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2. Tímakaup yfirvinnu 1 er 0,9385% af mánaðarlaunum en tímakaup yfirvinnu 2 er 1,0385% af mánaðarlaunum.
Greiðsla fyrir yfirvinnu skal vera með eftirtöldum hætti:
Yfirvinna 1 kl. 08.00 - 17.00 mánudaga – föstudaga.
Yfirvinna 2 kl. 17.00 - 08.00 mánudaga – föstudaga.
Yfirvinna 2 kl. 00.00 - 24.00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga.
Tímakaup yfirvinnu 2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 stundir á viku (173,33 stundir miðað við meðalmánuð).

Upplýsingar um breytingu á vinnutíma dagvinnufólks er að finna kjarasamningum aðildarfélaga BHM, þ.e. í fylgiskjali 1 (ríki og borg) og fylgiskjali 2 (sveit). Efni fylgiskjalanna er í grunninn eins þótt orðalag og dagsetningar séu ekki nákvæmlega eins.

Staðfesting um að samkomulag hafi náðst

Þegar niðurstaða um skipulag vinnutíma liggur fyrir skal hún annars vegar borin undir atkvæði þeirra sem starfa hjá viðkomandi starfsstað og hins vegar skal senda staðfestingu til hlutaðeigandi aðila.

 • Ríki: Hlutaðeigandi ráðuneyti eða eftir atvikum stjórn stofnunar
 • Reykjavíkurborg: Hlutaðeigandi sviðsstjóri
 • Sveitarfélög: Hlutaðeigandi sveitarstjórn

Jafnframt skal senda afrit af samkomulaginu til eftirfarandi aðila eftir atvikum:

 • Ríki: Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og heildarsamtök/stéttarfélög
 • Reykjavíkurborg: Skrifstofa kjaramála og heildarsamtök/stéttarfélög
 • Sveitarfélög: Innleiðingarhópur

Stytting vinnuvikunnar á almennum vinnumarkaði

Þann 7. janúar 2021 var gert samkomulag um breytingu á kjarasamningi SA og nokkurra aðildarfélaga BHM. 

Með samkomulaginu eru vinnutímaákvæði kjarasamningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði.

Stytting vinnuvikunnar

Margir stjórnendur og sérfræðingar hafa alla jafna töluvert svigrúm til að skipuleggja vinnutíma sinn og eru fyrst og fremst ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum og fá fyrir það föst mánaðarlaun. Yfirvinna er oft innifalin í mánaðarlaunum og/eða vinnutími sveigjanlegur. Rétt er að samtal eigi sér stað þar sem svo háttar til um bætta nýtingu vinnutíma gegn styttri viðveru svo samræma megi betur atvinnu- og fjölskyldulíf.

 • Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. mars nk.
 • Virkur vinnutími miðað við fullt starf verður 35,5 stundir að meðaltali á viku (35klst. og 30mín.). Virkur vinnutími telst sá tími sem starfsmaður er við störf. Neysluhlé og hádegishlé teljast ekki til virks vinnutíma. 
 • Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. 
 • Framkvæmd styttingarinnar er samkomulag félagsmanna og vinnuveitanda á hverjum vinnustað fyrir sig. Hægt er að stytta vinnuvikuna t.d. með því að:
  • Stytta hvern dag
  • Stytta einn dag í hverri viku
  • Safna upp styttingu innan árs

Spurt og svarað - stytting vinnuvikunnar hjá hinu opinbera

Dagvinna

Hvenær tekur stytting vinnuvikunnar gildi hjá dagvinnufólki? 

Í kjarasamningum var samið um að styttingin taki gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021. Breytingarnar verða innleiddar á hverjum vinnustað fyrir sig, þannig að stofnunum og vinnustöðum er heimilt að stytta vinnuvikuna fyrir þann tímapunkt. Það er til mikils að vinna og því ekki eftir neinu að bíða. 

Hvernig verður stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki innleidd?

Stytting vinnutíma í dagvinnu verður útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig. Útfærslan getur því verið með mismunandi hætti og ræðst af því hvað hentar vinnustaðnum og starfsmönnum þess best. 

Verður stytting vinnuvikunnar í dagvinnu útfærð með sama hætti fyrir alla starfsmenn á stofnun/vinnustað?

Útfærslan á vinnustöðum verður með ólíkum hætti vegna þess hve starfsstaðir og störf hins opinbera eru fjölbreytt.

Starfsemi einstakra deilda/sviða innan sömu stofnunar getur verið ólík og því er ekki sjálfgefið að sama vinnutímafyrirkomulag henti öllum. Í einhverjum tilvikum gæti dagleg stytting vinnutíma hentað sumum deildum á meðan vikuleg stytting kæmi betur út á öðrum. Á sumum vinnustöðum getur fyrirkomulagið verið þannig að hver og einn starfsmaður fái að ráða sinni styttingu. 

Vinnustaðurinn minn var búinn að stytta vinnuvikuna, hvaða áhrif hefur þetta? 

Ef búið er að stytta vinnuvikuna þá er ekki um að ræða viðbót við þá styttingu, heldur tækifæri til að breyta núverandi útfærslu ef vilji er til þess. 

Falla matar- og kaffitímar niður þegar vinnuvikan hefur verið stytt hjá dagvinnufólki?

Náist samkomulag á vinnustað um hámarks styttingu vinnutíma, þ.e. um 4 klst. á viku, verður gr. 3.1 um matar- og kaffitíma óvirk. Þetta þýðir ekki að starfsmenn fái ekki að taka sér hlé til að ná sér í kaffibolla eða borða hádegismat en ekki er um formlegt hlé í skilningi kjarasamnings að ræða. 

Þar sem starfsmenn þurfa afleysingu til að komast frá þarf stofnun að tryggja skipuleg neysluhlé. Starfsmenn geta líka valið að hafa áfram forræði yfir hluta matar- og kaffitíma en þá verður stytting vinnutíma minni sem því nemur.

Hvernig á fyrirkomulag á matar- og kaffitímum að vera hjá dagvinnufólki?

Það er undir ykkur komið. Hér ræður meirihluti vinnustaðarins. Niðurstaðan gæti t.d. verið að halda núverandi fyrirkomulagi óbreyttu og hafa kaffitíma áfram á forræði starfsmanna, eða fara í hámarks styttingu. 

Svo er hægt að velja á milli aðferða, t.d. getur starfsfólk ákveðið að stytta matartímann í 20 mínútur, og stytta vinnutímann þá um 15 mínútur á dag. Við það bætist einnig stytting upp á 13 mínútur sem er hluti af styttingu samkvæmt kjarasamningi. Þá er dagleg stytting samtals 28 mínútur en með þessum hætti hefur starfsfólk áfram forræði á matartímanum og getur þá t.d. farið út af vinnustaðnum. Þá verður matartími ekki hluti vinnutímans. 

Rauði þráðurinn við útfærslu styttingar vinnuvikunnar er að starfsfólki verður áfram heimilt að standa upp og fá sér kaffi og nærast, óháð því hvaða fyrirkomulag verður fyrir valinu.   

Mun styttri vinnuvika dagvinnufólks leiða til aukinnar yfirvinnu?

Eitt helsta markmiðið með betri vinnutíma er að auðvelda starfsfólki samþættingu vinnu og einkalífs. Aukin yfirvinna gengur í berhögg við það markmið. Laun starfsmanna eiga ekki að lækka við styttingu vinnutíma en að sama skapi er ein helsta forsenda styttingarinnar að hún verði ekki til þess að auka útgjöld vinnustaðarins. Þannig þarf styttingin að fela í sér gagnkvæman ávinning fyrir vinnustaðinn og starfsfólk þess.

Hvaða áhrif hefur stytting vinnuvikunnar dagvinnufólks á yfirvinnu?

Meginmarkmið breytinganna er að stytta heildarvinnutíma en ekki að hann færist í yfirvinnu. Þannig á stytting vinnuvikunnar almennt ekki að hafa áhrif á yfirvinnu dagvinnufólks. Laun starfsmanna eiga ekki að lækka við styttingu vinnutíma en að sama skapi er ein helsta forsenda styttingarinnar að hún verði ekki til þess að auka útgjöld vinnustaðarins.

Félagsmenn aðildarfélaga BHM eru þó hvattir til að vera vakandi yfir því að lækka ekki í launum vegna styttingu vinnuvikunnar vegna breytingar á taxta yfirvinnu. 

Með síðustu kjarasamningum varð sú breyting að yfirvinnu er nú skipt í yfirvinnu 1 (YV1) og yfirvinnu 2 (YV2). Tímakaup YV1 er 0,9385% af mánaðarlaunum og tímakaup YV2 er 1,0385% af mánaðarlanum.

 • Ríki: YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar og sérstaka frídaga. Tímakaup YV2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 stundir á viku.
  • Vakin er athygli á því að þetta er ekki í samræmi við orðalag kjarasamningsins, heldur urðu aðilar sammála um breytta útfærslu á samningstímanum.
 • Reykjavíkurborg: YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar. 
 • Sveitarfélög: YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar. Tímakaup YV2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 tíma (fullt starf).

Vaktavinna

Hvenær taka breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks gildi?

Kerfisbreytingin í vaktavinnu tekur gildi 1. maí 2021. 

Hvernig verður stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki innleidd?

Það er gert ráð fyrir þátttöku starfsfólks í umbótasamtölum sem eiga að fara fram á hverjum vinnustað. Þátttakan er þó ólík því sem gerist hjá dagvinnufólki við innleiðingu á betri vinnutíma. Nýja vaktavinnukerfið á að virka eins fyrir alla vinnustaði og er líklegt að á mörgum vinnustöðum þurfi að gera breytingar á vaktlínum eða skipulagi til þess að innleiða breytingarnar.