Lífeyrisréttindi
Skylduaðild að lífeyrissjóði
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.
Ávinningur af lífeyrissjóðsaðild
- Ellilífeyrir til æviloka.
- Örorku- og barnalífeyrir ef sjóðfélagi missir starfsgetu.
- Maka- og barnalífeyrir við fráfall sjóðfélaga.
- Möguleiki á lánum frá lífeyrissjóði.
Í hvaða lífeyrissjóð?
Aðild að lífeyrissjóði fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Félagsmenn aðildarfélaga BHM á opinberum vinnumarkaði greiða í annaðhvort Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) eða Brú lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðsaðild félagsmanns sem starfar á almennum vinnumarkaði er hins vegar valfrjáls. Ef koma upp þær aðstæður að félagsmaður sem starfað hefur á opinberum vinnumarkaði færir sig yfir á almennan vinnumarkað, þá getur viðkomandi óskað eftir áframhaldandi aðild að LSR (A deild) eða Brú. Til þess þarf félagsmaður þó leyfi viðkomandi sjóðs og samþykki launagreiðenda síns.
Frekari upplýsingar um lífeyrismál má nálgast á vefsíðum lífeyrissjóðanna og Landssamtaka lífeyrissjóða (sjá einnig ítarefni hér að neðan).
Samanburður á iðgjaldagreiðslum lífeyrissjóða
Iðgjöld |
LSR-A deild |
LSR-B deild |
Brú-A deild |
Brú-V deild |
Almennir lífeyrirsjóðir |
---|---|---|---|---|---|
Sjóðfélaga |
4% af heildarlaunum |
4% af dagvinnulaunum |
4% af heildarlaunum |
4% af heildarlaunum |
4% af heildarlaunum |
Launagreiðanda |
11,5% af heildarlaunum |
8% af dagvinnulaunum |
12% af heildarlaunum |
8 eða 11,5% af heildarlaunum |
8,5% af heildarlaunum |
Alls | 15,5% af heildarlaunum |
12% af dagvinnulaunum |
16% af heildarlaunum |
15,5% af heildarlaunum |
12,5% af heildarlaunum |
Viðbótalífeyrissparnaður
Í kjarasamningum er ákvæði um að launagreiðendur greiði 2% af launum starfsmanna sinna sem mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað þeirra enda sé framlag launamanns a.m.k. 2%. Starfsmaður getur valið sér hvort hann geymir viðbótarlífeyrissparnað hjá lífeyrissjóðum, bönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum eða líftryggingafélögum.
Ítarefni
- Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
- Lög nr. 1/1997 um lífeyrisjóð starfsmanna ríkisins
- Á fræðsluvef Landssamtaka lífeyrissjóða er að finna greinargóða umfjöllun um lífeyrismál.
- Umfjöllun LSR um 95 ára reglu.