Á við um opinbera starfsmenn

Ávinnsla veikindaréttar

Réttur til launa í veikindum er áunninn réttur og ræðst fyrst og fremst af lengd starfstíma hjá ríki eða sveitarfélagi. Við mat á ávinnslurétti skal auk starfsaldurs hjá launagreiðanda einnig telja starfstíma hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Á fyrstu þremur mánuðum samfelldrar ráðningar skal þó fyrri þjónustualdur ekki metinn nema viðkomandi starfsmaður hafi náð samfelldum þjónustualdri hjá  framangreindum launagreiðendum í tólf mánuði eða meira. Líði meira en mánuður á milli ráðninga telst það rof og því ekki um samfelldan þjónustualdur að ræða.

Dæmi 1:

Starfsmaður ræður sig til Landspítalans. Áður starfaði hann í sex mánuði hjá Tollinum og þar áður 24 mánuði hjá Reykjavíkurborg. Samfelldur þjónustualdur hans er því 30 mánuðir og veikindaréttur hans 133 dagar. Frá fyrsta degi í nýju starfi hjá Landspítala er veikindarétturinn 133 dagar því starfsmaðurinn náði samfelldum þjónustualdri hjá Reykjavíkurborg í tólf mánuði.

Dæmi 2:

Starfsmaður ræður sig til Ríkisskattstjóra. Viðkomandi hafði starfað tvisvar í fjóra mánuði hjá Hagstofunni (samtals í átta mánuði). Áður en starfsmaðurinn réði sig til Ríkisskattstjóra starfaði hann í tíu mánuði í ráðuneyti. Samanlagður þjónustualdur hans er 18 mánuðir og veikindaréttur hans 133 dagar. Viðkomandi hefur ekki náð samfelldum tólf mánuðum í starfi hjá ríki og sveitarfélögum og veikindaréttur því fjórtán dagar á fyrstu þremur mánuðum ráðningar. 

Dæmi 3:

Starfsmaður ræður sig til Landspítalans í beinu framhaldi af starfi sínu hjá Kópavogsbæ þar sem hann starfaði í tíu mánuði. Viðkomandi hafði áður starfað hjá Kópavogsbæ í þrjá mánuði og því samtals í þrettán mánuði þar. Hins vegar varð rof í ráðningu hans hjá Kópavogi í meira en mánuð og því hefur viðkomandi ekki náð samfelldum tólf mánuðum í starfi hjá ríki og sveitarfélögum. Veikindaréttur er því fjórtán dagar á fyrstu þremur mánuðum ráðningar. 

Dæmi 4:

Starfsmaður ræður sig til Jafnréttisstofu. Áður starfaði hann í ellefu mánuði hjá Þjóðskrá og þar áður í sex mánuði hjá Sjúkratryggingum. Samfelldur þjónustualdur hans  er fimmtán mánuðir og veikindaréttur hans 133 dagar. Þar sem viðkomandi hóf störf hjá Þjóðskrá í beinu framhaldi af starfi sínu hjá Sjúkratryggingum er samfelldur þjónustualdur hans 17 mánuðir og veikindaréttur því 133 dagar frá fyrsta degi í nýju starfi hjá Jafnréttisstofu.