Chat with us, powered by LiveChat

Ráðningarsamningar

Tilgangur og innihald

Ráðningarsamningur er samningur milli starfsmanns og atvinnurekanda þar sem kveðið er á um vinnuframlag starfsmanns í þágu atvinnurekandans gegn tilteknu gjaldi í formi launa og annarra starfskjara frá atvinnurekanda.

Skylt er að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi milli starfsmanns og forstöðumanns/vinnuveitanda við upphaf ráðningar. Frávik eru frá því ef starfsmaður er einungis ráðinn til eins mánaðar eða skemur eða ekki meira en átta klst. á viku.

Með því að taka skýrt fram í ráðningarsamningi hvaða reglur skuli gilda um ráðningarsamband, bæði varðandi starfið og þau kjör sem því fylgja er hægt að koma í veg fyrir ágreining síðar.

Hvað á að vera í ráðningarsamningi?

Í ráðningarsamningi eru m.a. tilgreind eftirfarandi atriði:

 • Deili á aðilum, nöfn og kennitölur vinnuveitanda og starfsmanns
 • Vinnustað og heimilisfang vinnuveitanda (starfsstöð)
 • Starfsheiti
 • Vinnutímaskipulag og starfshlutfall
 • Upphafstíma ráðningar og lengd ráðningar, sé hún tímabundin, ásamt uppsagnarfresti
 • Ráðningarkjör, t.d. með tilvísun til launataxta og aðrar greiðslur
 • Orlofsrétt
 • Rétt til launa í veikindum
 • Lífeyrissjóð
 • Tilvísun til gildandi kjarasamnings og hlutaðeigandi stéttarfélags

Í öllum ráðningarsamningum þarf að koma fram hvaða kjarasamningur gildir um starfið. Þau atriði sem ekki koma fram í ráðningarsamningi, koma fram í miðlægum kjarasamningi. 

Launaleynd

 • Starfsmönnum er ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum kjósi þeir svo að gera. 
 • Þessi heimild hefur verið í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla síðan 2008. 
 • Það þýðir að vinnuveitandi getur ekki krafist þess af starfsfólki sínu að það semji sig undir ákvæði um launaleynd. Slík samningsákvæði eru óheimil og hafa því ekki gildi.

Ítarefni

Ráðningarsamningsform og samkomulag um ráðningarsamninga