Samstaða og barátta í sextíu ár

Bandalag háskólamanna var stofnað 23. október 1958 og fagnar því 60 ára afmæli á þessu ári

Á mildum haustdegi árið 1958 komu sautján manns, allt karlmenn, saman á gömlu kennarastofunni í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þetta voru fulltrúar ellefu félaga háskólamenntaðs fólks með samtals um tólfhundruð félagsmenn innan sinna raða. Tilgangur fundarins var að stofna samtök þessara félaga í því skyni að efla samheldni háskólamenntaðs fólks á Íslandi og gæta hagsmuna þess gagnvart innlendum og erlendum aðilum. Samtökin sem stofnuð voru á þessum degi, 23. október 1958, hlutu nafnið Bandalag háskólamenntaðra manna en fljótlega var nafninu breytt í Bandalag háskólamanna. Stofnaðilar bandalagsins voru Dýralæknafélag Íslands, Félag íslenskra fræða, Félag íslenskra sálfræðinga, Félag viðskiptafræðinga, Hagsmunafélag náttúrufræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands, Prestafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.*

Kjara- og réttindabarátta í fyrirrúmi

Margt hefur breyst á þeim sex áratugum sem liðnir eru frá stofnun BHM en kjara- og réttindabarátta í þágu félagsmanna hefur þó ætíð verið í fyrirrúmi í starfsemi bandalagsins. Framan af fór mikið púður í baráttuna fyrir samningsrétti og verkfallsrétti. Samningsrétturinn fékkst árið 1973 og takamarkaður verkfallsréttur árið 1986. Þegar þessum réttindum hafði verið náð gat bandalagið loks beitt sér af fullum þunga í kjara- og réttindabaráttunni. Oft hefur verið tekist hart á í kjaraviðræðum. Nokkrum sinnum hafa bandalagið og aðildarfélögin þurft að efna til verkfalla til að knýja á um kjarabætur og einu sinni hafa slíkar aðgerðir verið bannaðar með lögum, árið 2015. Í kjölfarið var gerðardómi falið að úrskurða um laun félagsmanna. Þá hafa kjarasamningar BHM-félaga einu sinni verið ógiltir með bráðabirgðalögum en það var árið 1990. Af því tilefni var ríkisstjórn Íslands reist níðstöng eða vindgapi (stöng með þorskhaus) fyrir framan Stjórnarráðið sem sjá má á myndinni hér til hægri.

Nefndir og efndir

Á þessum 60 árum hefur BHM átt fulltrúa í fjölmörgum nefndum og starfshópum á vegum stjórnvalda sem falið hefur verið að móta löggjöf um málefni vinnumarkaðar. Þannig hefur bandalagið átt þátt í að koma til leiðar margvíslegum umbótum í þágu félagsmanna. Auk þess hefur bandalagið beitt sér fyrir opinberri umræðu um hagsmunamál háskólamenntaðs fólks og styrkt stöðu félagsmanna á vinnumarkaði með ýmsum hætti, m.a. lögfræðilegri aðstoð og námskeiðahaldi. Þá hefur rekstur og umsýsla sjóða orðið sífellt viðameiri þáttur í starfseminni. Bandalagið annast nú umsýslu fjögurra sjóða (Styrktarsjóðs, Sjúkrasjóðs, Starfsmenntunarsjóðs og Orlofssjóðs) og Starfsþróunarseturs háskólamanna samkvæmt þjónustusamningum.

Félagsmenn tífalt fleiri nú en í upphafi

Á tímabilinu hafa nokkur aðildarfélög yfirgefið BHM en mun fleiri félög hafa þó gengið til liðs við bandalagið. Aðildarfélögin eru nú 26 en voru 11 í upphafi og félagsmenn eru nú samtals rúmlega tífalt fleiri en þeir voru árið 1958. Rétt er að geta þess að í upphafi voru hlutfallslega mjög fáar konur innan aðildarfélaga BHM en sú staða hefur gjörbreyst og eru konur nú um tveir þriðju félagsmanna.

Afmælisfagnaður í Borgarleikhúsinu

60 ára afmæli BHM var fagnað í Borgarleikhúsinu þriðjudaginn 23. október 2018. Meðal gesta voru forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, forystufólk samtaka á vinnumarkaði, fulltrúar viðsemjenda, forstöðumenn opinberra stofnana, forystufólk aðildarfélaga bandalagsins og almennir félagsmenn. Flutt var söng- og leikdagskrá í aðalsal leikhússins sem sérstaklega var samin í tilefni af 60 ára afmælinu. Eftir að dagskránni lauk var gestum boðið að þiggja veitingar í forsal leikhússins. 

Hér má nálgast upptöku frá afmælisfagnaðinum

*Friðrik G. Olgeirsson:  BHM - Saga Bandalags háskólamanna 1958-2008. Reykjavík 2008.