• thorunn_9718

Fjórföldun atvinnuleysis háskólamenntaðra

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 23. febrúar 2021

23.2.2021

Undanfarin tvö ár hefur fjöldi háskólamenntaðs fólks sem skráð er án atvinnu tæplega fjórfaldast. Fjöldinn var rúmlega 1.400 í ársbyrjun 2019 en er nú rúmlega 5.500. Þetta er skelfileg óheillaþróun sem veldur okkur hjá Bandalagi háskólamanna miklum áhyggjum. Vitanlega hefur kórónuveirufaraldurinn haft áhrif á þróunina en hún var þó hafin áður en hann kom til sögunnar. Hlutfall háskólamenntaðra af heildarfjölda atvinnulausra í landinu hefur farið stöðugt vaxandi allt frá ári hruni. Í ársbyrjun 2008 voru þannig 10% atvinnulausra með háskólamenntun en núna er hlutfallið 25% og hefur reyndar verið yfir 20% undanfarin sjö ár.

Háskólar landsins útskrifa á hverju ári þúsundir nemenda sem eiga sífellt erfiðara með að finna störf sem hæfa menntun þeirra. Þetta skapar hættu á því að fjárfesting í háskólamenntun, bæði einstaklinga og samfélags, fari í súginn eða nýtist ekki sem skyldi. Í nágrannalöndum okkar er hafin umræða um „týndu covid-kynslóðina“, þ.e.a.s. fólk á þrítugsaldri sem erfitt með að finna sér fasta vinnu í kórónukreppunni. Einsleitt atvinnulíf hér á landi gerir stöðuna erfiðari en hún þyrfti að vera.

Vandinn er m.a. sá að vinnumarkaðurinn hefur ekki náð að halda í við fjölgun háskólamenntaðra undanfarin ár. Það á bæði við um almenna markaðinn og þann opinbera. Samt liggur fyrir að skortur er á fólki í mörgum stéttum, t.d. innan heilbrigðisþjónustunnar. BHM hefur margoft bent stjórnvöldum á þá staðreynd.

Hér ber ríkisvaldið mikla ábyrgð. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi forsendur fyrir aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu, m.a. með framlögum til rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Við þurfum að búa til ný þekkingarstörf á hverjum degi bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði. Ný kynslóð vel menntaðra einstaklinga þarf að sjá þess merki að Ísland vilji nýta krafta þeirra og atgervi. Það þýðir að byggja þarf upp fleiri útflutningsatvinnuvegi en þá sem grundvallast á nýtingu náttúruauðlinda.