• 2065

Stéttarfélög veita stuðning gegn kynbundnu ofbeldi

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 27. nóvember 2019

27.11.2019

Vinnuverndarlöggjöfin leggur ríkar skyldur á herðar vinnuveitendum að tryggja öryggi og heilbrigði starfsfólks. Meðal annars er vinnuveitendum skylt að taka á og koma í veg fyrir kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Samkvæmt löggjöfinni skal vinna sérstak áhættumat fyrir hvern vinnustað og móta skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum. Atvinnurekandi sem verður var við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað verður að grípa til aðgerða í samræmi við áætlunina.

Í áhættumati skal m.a. leggja mat á svokallaða sálfélagslega áhættuþætti sem geta t.d. tengst samskiptum og upplýsingaflæði á vinnustað. Slíkir áhættuþættir geta varðað miklu um líðan starfsfólks. Óheilbrigt vinnuumhverfi einkennist t.d. af baktali, slúðri, sögusögnum og útilokun. Slíkt getur haft mjög neikvæð áhrif á starfsanda og skaðað heilsu þeirra sem fyrir verða.

Þekkjum öll dæmin

Sálfélagslegir áhættuþættir eiga sér oft kynbundnar hliðar. Því miður þekkjum við öll dæmi af kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum, höfum sjálf orðið fyrir henni eða orðið vitni að henni. Þegar slíkrar hegðunar verður vart er mjög mikilvægt að starfsfólk viti hvert það á að leita eftir ráðgjöf og aðstoð.

Það er líka grundvallaratriði að átta sig á því að slík breytni þrífst aðallega í aðstæðum þar sem valdaójafnvægi ríkir á milli einstaklinga. Það að tryggja jöfnuð og jafnræði í hópi starfsfólks er því mikilvæg forvörn gegn kynbundnu ofbeldi hvers konar.

Hlutverk stéttarfélaga

Fáum dylst hversu slæmar afleiðingarnar geta orðið af kynbundinni áreitni á vinnustöðum, bæði fyrir einstaklingana sem um er að tefla og vinnustaðinn sem heild. Það er mikilvægt að starfsfólk sé vel upplýst um réttindi sín og hvert það geti leitað eftir aðstoð. Stéttarfélög hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna og geta stutt við einstaklinga sem leita aðstoðar. Hvort tveggja með lögfræðilegri ráðgjöf sem og með því að vera til staðar, hlusta og veita góð ráð í fullum trúnaði.