Mannauðsstefna

Vinnustaðurinn BHM

BHM er metnaðarfullur og skemmtilegur vinnustaður þar sem starfsánægja, fagmennska og virðing er höfð að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að hjá BHM starfi hæft, áhugasamt, vel þjálfað og ánægt starfsfólk sem axlar ábyrgð í starfi, sýnir frumkvæði og veitir félagsmönnum aðildarfélaga BHM og aðildarfélögum fyrirmyndar þjónustu. 

Til viðbótar mannauðsstefnu er vísað til jafnréttisstefnu og öryggisstefnu fyrir vinnustaðinn.

Markmið mannauðsstefnunnar er að lýsa þeim leiðum sem BHM vill fara til að: 

 • laða að og halda í hæft starfsfólk, 
 • viðhalda og efla hæfni starfsfólks,
 • tryggja fagmennsku og gagnkvæma virðingu á vinnustaðnum,
 • tryggja samkvæmni í meðhöndlun mannauðsmála,
 • tryggja starfsánægju með jákvæðu og heilbrigðu starfsumhverfi.

Starfsumhverfi

Á vinnustaðnum skulu vera góð og heilbrigð samskipti, byggð á gagnkvæmri virðingu og trausti.

 • Lögð er áhersla á góðan starfsanda, góð samskipti og samstarf og að starfsfólk upplifi samkennd á vinnustaðnum. 
 • Lögð er áhersla á að skapa þannig vinnustaðarmenningu að starfsfólk upplifi að því sé treyst sem samstarfsfélaga og fagmanni.
 • Lögð er áhersla á að starfsfólk upplifi að allir vinni á jafningjagrundvelli og að ávallt sé hægt að koma hugmyndum sínum á framfæri við allt starfsfólk BHM.
 • Lögð er áhersla á að starfsmenn séu vel upplýstir um starfsemi BHM, m.a. með reglubundnum  starfsmannafundum þar sem farið er yfir þau mál er teljast brýn hverju sinni og litið svo á að það sé sameiginleg ábyrgð stjórnenda að deila upplýsingum og starfsfólks að kalla eftir þeim.
 • Starfsfólki er boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma, sé því viðkomið vegna starfseminnar.
 • Í boði eru styrkir til íþróttaiðkunar enda er starfsfólk hvatt til  að stunda  heilbrigt líferni.   
 • Hvatt er til vistvænna samgangna og samgöngustyrkur veittur skv. samgöngustefnu BHM.

Starfsþróun og fræðsla

BHM leggur mikla áherslu á að starfsmenn hafi fjölbreytt tækifæri til að afla sér þekkingar og þróast í starfi.

 • Tryggt er að starfsfólk fái reglulega hreinskipta og uppbyggilega endurgjöf á frammistöðu sína.
 • Starfsfólk fer árlega í formlegt starfsmannasamtal og skal í því lagt mat á árangur starfsmanns í starfi sem og fræðsluþörf sem er grunnur að starfsþróunaráætlun hvers starfsmanns.
 • Við mat á fræðsluþörf skal taka mið af starfslýsingu, sem er endurskoðuð árlega í kjölfar starfmannasamtals, og óskum starfsmanns eins og hægt er hverju sinni.
 • Fræðsla og þjálfun er sameiginlegt verkefni starfsmanns og  yfirmanns og er á ábyrgð beggja aðila
 • Velja skal fræðslu og þjálfun út frá niðurstöðum reglulegrar endurgjafar á frammistöðu og einnig þess sem fram kemur í árlegu starfsmannasamtali.
 • Starfsfólk er hvatt til  að sækja sér með reglubundnum hætti þjálfun og fræðslu sem eykur faglega hæfni þess í núverandi starfi sem og persónulega hæfni
 • Öll þjálfun og fræðsla sem starfsfólk sækir skal vera til þess fallin að efla fagmennsku og framþróun hjá starfsfólkinu sjálfu, sem og hjá BHM
 • Starfsfólk er hvatt og stutt til að miðla þekkingu sinni til samstarfsfólks.

Ráðningasamband

Hjá BHM er gerð rík krafa um fagmennsku starfsfólks, metnað og góða frammistöðu.

 • Við ráðningar er tekið mið af uppfærðri starfslýsingu fyrir viðkomandi starf hverju sinni.
 • Í ráðningarferlinu skal beita viðurkenndum matsaðferðum til að tryggja að hæfasti einstaklingurinn sé ráðinn í hverja stöðu.
 • Áhersla er lögð á að standa vel að móttöku nýliða, þeir fái afhenta starfsmannahandbók með helstu upplýsingum um vinnustaðinn, fræðslu um starfsemi BHM og nauðsynlega þjálfun í starfi svo þeir upplifi sig sem fyrst sem hluta af hópnum og nái góðum tökum á störfum sínum eins fljótt og hægt er.
 • Starfsfólki gefst kostur á að vinna þar til í lok þess mánaðar sem það nær 70 ára aldri og kemur BHM til móts við óskir starfsfólks varðandi starfslok vegna aldurs, t.d. með því að breyta starfshlutfalli eða starfsskyldum síðasta misseri í starfi.  
 • Lögð er áhersla á að vandað sé til viðskilnaðar við starfslok.