Chat with us, powered by LiveChat

Atvinnuleit

Að koma sér á framfæri

Markaðssetning á eigin færni, þekkingu og reynslu virðist reynast mörgum háskólamanninum erfið. Eftirfarandi spurningar geta reynst gagnlegar í slíkri vinnu:

 • Hvað vil ég?
 • Hvað hef ég fram að færa?
 • Hvert er ég að stefna?
 • Hverjir eru veikleikar og styrkleikar mínir?

Ýmsar leiðir eru færar þegar fólk er að koma sér á framfæri á vinnumarkaði. Að svara atvinnuauglýsingum er ein af mörgum leiðum í þessu sambandi. Hafa ber í huga að einungis lítill hlutur af lausum störfum er auglýstur í fjölmiðlum. Frumkvæði og áræðni þeirra sem eru í atvinnuleit geta því skipt miklu máli. Algengt er að fólk leiti beint til fyrirtækja eða stofnana sem eru áhugaverð að mati þeirra sem eru að leita sér að starfi. Mörgum hefur reynst vel að nýta sér sitt eigið tengslanet, þ.e. láta sem flesta vita að þeir séu að leita að áhugaverðu starfi og hafa allar klær úti í atvinnuleitinni. 

Ráðningarþjónustur

Nokkrar ráðningarþjónustur eru starfræktar á Íslandi og þar er hægt að fá upplýsingar um störf í boði hjá þeim, skrá sig í gagnabanka yfir umsækjendur og óska eftir viðtali við ráðgjafa. Hér eru dæmi um ráðningarþjónustur:

Þá getur reynst ganglegt að nota upplýsingavefi í atvinnuleitinni líkt og Linked in

Ferilskrá og kynningarbréf

Fyrsta skrefið í atvinnuleitinni felst gjarnan í því að ganga frá ferilskrá og er mikilvægt tæki í markaðssetningu þeirra sem eru í atvinnuleit. Það er tiltölulega einfalt að búa til ferilskrá en ýmislegt sem ber að varast og illa gerð ferilskrá getur komið í veg fyrir að viðkomandi komist lengra í ráðningarferlinu. Ýmis tilbúin form að ferilskrá eru til á netinu og í Word forritinu, sem geta gagnast vel. Hafa ber í huga að viðkomandi er að reyna fanga athygli atvinnurekandans og því er mikilvægt að gera tilbúið form að ferilskrá að sínu og aðlaga hana að því starfi sem er verið að sækja um. Ferilskráin er stutt skýrsla um fyrri störf, menntun og hæfni.  Máli skiptir að tapa sér ekki í smáatriðum heldur sigta það út sem skiptir máli varðandi starfið sem um ræðir. 

Innihald ferilskráar: 

 • Persónuupplýsingar:  Nafn, heimilisfang, símanúmer, kennitala, netfang.
 • Menntun: Upplýsingar um háskóla og gráður, í réttri tímaröð, þ.e. nýjasta gráðan fyrst.
 • Starf:  Upplýsingar um fyrri störf og núverandi starf, þ.m.t. stutt lýsing á starfi, helstu afrekum og verkefnum.
 • Tölvukunnátta.
 • Tungumálakunnátta.
 • Félagsstörf, ef þau skipta máli vegna starfsins.
 • Umsagnaraðilar: Nöfn, starfsheiti, vinnustaður og símanúmer.

Kynningarbréf

 • Í fylgibréfi með umsókn þarf m.a. að koma fram af hverju viðkomandi finnst starfið áhugavert og hvað hann/hún hefur fram að færa.

Hér má sjá dæmi um fylgibréf og starfsferilskrá

Ráðningarsamningar

Vert er að benda á þá þjónustu og ráðgjöf sem stéttarfélögin veita varðandi ráðningarsamninga, kjör og réttindi o.fl.  Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu síns stéttarfélags ef þeir þurfa á þjónustu að halda. 

Sjá nánar hér um ráðningarsamninga.

Atvinnuleysi og aðild að stéttarfélagi

Sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur getur óskað eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags síns. Félagsmaður þarf að merkja við reit á umsóknareyðublaði þess efnis og þá sér Vinnumálastofnun um að koma greiðslunni til stéttarfélagsins. Með því að óska eftir áframhaldandi stéttarfélagsaðild viðheldur félagsmaður mikilvægum áunnum réttindum hvað varðar sjóði og aðra þjónustu frá stéttarfélagi. 

Í ljósi erfiðra aðstæðna á vinnumarkaði og aukins fjölda uppsagna, vill BHM benda á mikilvægi þess að halda tengslum við stéttarfélag ef til atvinnuleysis kemur.