Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann tilkynna það þegar í upphafi vinnudags. Vinnuveitandi ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist.
Á almennum vinnumarkaði er lágmarksveikindaréttur samkvæmt lögum 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð. Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BHM við SA er viðtækari en kveðið er á um í lögum og er sem hér segir:
Miðað er við starfstíma hjá sama vinnuveitanda.
- Á 1. ári í starfi – 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð
- Eftir 1 ár – 2 mánuðir
- Eftir 5 ár – 4 mánuðir
- Eftir 10 ár – 6 mánuðir
Þó skal starfsmaður sem áunnið hefur sér réttindi á grundvelli þessa kjarasamnings til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta vinnuveitanda og skiptir um vinnustað eiga rétt til launagreiðslna um eigi skemmri tíma en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum.
Veikindaréttur miðast við greidda veikindadaga á 12 mánaða tímabili. Þegar starfsmaður verður óvinnufær er við upphaf veikinda litið til þess hversu margir dagar hafa verið greiddir á síðustu 12 launamánuðum og dragast þeir frá áunnum veikindarétti. Hafi starfsmaður verið launalaus á tímabili telst það tímabil ekki með við útreikning.
Veikindi teljast í virkum stundum/dögum eða í væntanlegum stundum/dögum skv. vinnuskipulagi. Laun greiðast þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa.
Fjarvera vegna veikinda barna
Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga á hverjum 12 mánuðum vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri. Fyrstu 6 mánuði í starfi er þessi heimild tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð. Með foreldri er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann.
Forföll af óviðráðanlegum ástæðum
Starfsmaður á rétt á leyfi frá störfum þegar um óviðráðanlegar (force majeure) og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms eða slyss sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns. Almennt á starfsmaður ekki rétt á launum frá atvinnurekanda í framangreindum tilfellum.