Ríki og sveitarfélög

Orlofsréttur starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum, sem er í fullu starfi frá 1. maí til 30. apríl árið eftir, er 240 klst. eða að jafnaði 30 dagar. 

Orlofsréttur

Orlofsréttur starfsmanns í fullu starfi er 240 klst. eða að jafnaði 30 dagar óháð lífaldri, sbr. grein 4.1. í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og ríkisins. Sama regla er hjá sveitarfélögunum.

240 orlofsstundir (á ári fyrir fullt starf) / 7,2 vinnustundir á dag / stuðullinn 1,11 (stuðullinn reiknaður með 40/36 klst. á viku = 1,11) = 30 dagar

Orlof starfsfólks í hlutastarfi er reiknað með sama hætti. Í stað 36/5 (vinnuvikan 36 klst. miðað við 5 virka daga vikunnar) breytist 36 miðað við starfshlutfall.

Ef breytingar verða á starfshlutfalli á orlofsárinu þarf að taka tillit til þess í launaútreikningi við töku orlofsins.

Ávinnslutímabil

Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl. Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári.

Það telst vinnutími þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi.

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum.

Orlofslaun

Orlofslaun taka mið af mánaðarlaunum starfsmanns fyrir dagvinnu og eru greidd með reglubundnum hætti meðan á orlofstöku stendur.

Orlof af öðrum launum kallast orlofsfé. Í kjarasamningum opinberra starfsmanna segir að starfsmaður skuli fá 13,04% orlofsfé á yfirvinnu og álagsgreiðslur (svo sem vaktaálag og greiðslur fyrir bakvaktir).

Orlofsféð er lagt inn á bankareikning (orlofsreikning) viðkomandi starfsmanns og greitt út í maí ár hvert.

Föst yfirvinna - orlof

Almennar reglur laga og kjarasamningar um greiðslu orlofs á yfirvinnu eru skýrar. Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við ríki og sveitarfélög er kveðið á um að starfsmaður skuli fá 13,04% orlofsfé á yfirvinnu og álagsgreiðslur, t.d. fyrir vaktavinnu og bakvaktir.

Hins vegar eru dæmi um að aðilar semji um að orlof teljist hluti af föstum yfirvinnugreiðslum. Slíkir samningar verða að efni til að byggja á því að fastar yfirvinnustundir séu greiddar alla mánuði ársins, einnig þann tíma sem starfsmaður er í orlofi. Þannig séu staðin full skil á orlofslaunum af föstu yfirvinnustundunum og því ekki greitt orlofsfé af þeim.

Í máli sem rekið var fyrir héraðsdómi Reykjavíkur (mál E-5141/2023) var tekist var á um hvort vinnuveitanda hafi borið að greiða orlof á fastar yfirvinnugreiðslur starfsmanns. Vinnuveitandinn hélt því fram að orlof væri ekki greitt á fasta yfirvinnu hjá starfsfólki Stjórnarráðsins. Starfsmenn sem væru á fastlaunasamningi fengju greidda yfirvinnu alla mánuði ársins, einnig þegar þeir væru í sumarfríi.

Í ráðningarsamningi starfsmanns var þetta fyrirkomulag ekki tiltekið sérstaklega og ekki fylgt leiðbeiningum um það efni í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins um orlof nr. 2/2006. Var vinnuveitandinn látinn bera hallann af þessu og dæmdur til að greiða orlofslaunakröfu starfsmanns til samræmis við ákvæði kjarasamnings.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt