Hið opinbera

Útfærslan á styttingu vinnuvikunnar hjá hinu opinbera er mismunandi eftir því hvort fólk starfar í dagvinnu eða vaktavinnu. Forsenda styttingar hjá dagvinnufólki er samtal um betri vinnutíma á hverri stofnun fyrir sig. Útfærslan tekur mið af starfsemi stofnunar og getur því verið með ólíkum hætti milli stofnana.

Kynningarmyndband um styttingu hjá hinu opinbera

Karen Ósk Pétursdóttir, sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá BHM, fer í þessu myndibandi yfir helstu atriði sem huga þarf að við styttingu vinnuvikunnar.

Dagvinna

Breytingar á vinnufyrirkomulagi og fækkun vinnustunda krefst undirbúnings og skipulagningar hjá starfsfólki og stjórnendum. Forsenda styttingarinnar hjá dagvinnufólki er samtal um betri vinnutíma á hverjum vinnustað fyrir sig. Útfærslan tekur mið af starfsemi vinnustaðarins og getur því verið með ólíkum hætti milli vinnustaða.

Gott er að hafa í huga að stytting vinnuvikunnar er samstarfsverkefni og til að ná settum markmiðum er mikilvægt að tryggja góðan undirbúning og þátttöku allra á vinnustaðnum.

Betri vinnutími í dagvinnu

Vaktavinna

Vinnuvikan fyrir fólk í vaktavinnu hefur verið stytt úr 40 stundum í 36 virkar stundir fyrir fullt starf. Frekari stytting í allt að 32 stundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnustunda.

Launamyndun vaktavinnufólks breytist og mun taka meira mið af vaktabyrði en áður. Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall. Hefur það í för með sér hærri laun og ævitekjur. Breytingar á vinnufyrirkomulagi og fækkun vinnustunda krefjast undirbúnings og skipulagningar hjá starfsfólki og stjórnendum.

Meginmarkmið kerfisbreytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta vinnu og einkalíf, þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari. Breytingunum er einnig ætlað auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og vinnustöðum Reykjavíkurborgar, að draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt