Chat with us, powered by LiveChat

Almenningur ber uppi þúsund milljarða skuld og verðbólgu

BHM leggur til að stjórnvöld hækki skatta á eignir og fjármagnstekjur og dragi lækkun bankaskatts til baka.

13.5.2022

Skattgreiðendur bera uppi 1.000 milljarða skuld ríkis og sveitarfélaga í kjölfar heimsfaraldurs á sama tíma og margar atvinnugreinar hér á landi sjá metafkomu. Þetta kemur fram í umsögn BHM um fjármálaáætlun 2023 – 2027.

Stjórnvöld standa nú frammi fyrir tveimur stórum verkefnum eftir heimsfaraldur kórónuveiru. Annars vegar þarf að koma opinberum fjármálum á réttan kjöl og hins vegar þarf að takast á við mikla verðbólgu sem kemur í kjölfar framleiðsluspennu, lækkunar vaxta, aukins peningamagns og stríðsins í Úkraínu.

Að mati BHM er nauðsynlegt að stjórnvöld hækki skatta á fjármagnstekjur og eignir til að vinna gegn undirliggjandi og uppsöfnuðum afkomuhalla og áhrifum verðbólgunnar á heimili landsins. Aukin skattheimta í þá veru gæti jafnframt stutt við markmið peningastefnu um að koma böndum á verðbólguna eftir mikla aukningu peningamagns í umferð á tíma heimsfaraldurs.

1.000 milljarða skuld skattgreiðenda

Undirliggjandi afkomuhalli og ráðstafanir á tímum heimsfaraldurs hafa gert það að verkum að uppsafnaður halli hins opinbera í kjölfar heimsfaraldurs á árunum 2020 og 2021 mældist um 500 milljarðar króna. Samkvæmt núverandi horfum lítur út fyrir að hallareksturinn nái alls rúmlega 1.000 milljörðum króna á árunum 2020-2027 þegar fjármál hins opinbera eru talin munu ná jafnvægi á nýjan leik. 

Screenshot-2022-05-13-at-08.34.15

Bankakerfi í blóma og 41% aukning í heild- og smásöluverslun

Á meðan skattgreiðendur studdu við hagkerfið í heimsfaraldri blómstruðu margar greinar innanlands. Samanlagður rekstrarafgangur í sjávarútvegi, byggingaiðnaði, fjármálastarfsemi, fasteignaviðskiptum og heild- og smásöluverslun jókst um tæplega 120 milljarða króna á árunum 2020 og 2021, miðað við árin 2018 og 2019. Nemur það 15% aukningu að raunvirði. Mest var aukningin í heild- og smásöluverslun, eða 41%.

Þá vekur athygli að enginn samdráttur mældist í fjármála- og vátryggingarstarfsemi í heimsfaraldrinum. Því mætti draga þá ályktun að bankarnir hafi verið í vari gagnvart áhrifum faraldurs m.a. vegna stuðnings skattgreiðenda við hagkerfið.

Stjórnvöld verða að bregðast við

BHM leggur fram nokkrar leiðir til að efla tekjuöflun hins opinbera á næstu árum.

  •  Girða verður fyrir það að aðilar í rekstri greiði sér arð fremur en laun. Horfa ætti til norrænar nálgunar m.t.t. hlutleysis í skattlagningu fjármagns og vinnuafls.
  • Þær atvinnugreinar sem voru í vexti á tíma heimsfaraldurs ættu að endurgreiða sértækar stuðningsráðstafanir í ríkissjóð.
  • Draga þarf varanlega lækkun bankaskatts til baka.
  • Ríkisstjórnin þarf að íhuga sérstakan hvalrekaskatt á þær atvinnugreinar sem högnuðust mest á tíma heimsfaraldurs.

Lesa má meira um efnið í umsögn bandalagsins HÉR


Fréttir