Ábyrgðarmannakerfið heyrir brátt sögunni til

Mikið réttlætismál sem BHM hefur lengi barist fyrir

11.12.2019

  • lin_auglysing

Í frumvarpi til laga um Menntasjóð námsmanna, sem nú liggur fyrir Alþingi, er í bráðabirgðaákvæði mælt fyrir um afnám ábyrgðarmannakerfis LÍN. BHM fagnar þessu og hvetur löggjafann til að afgreiða málið hið fyrsta. 

Allt fram til ársins 2009 þurfti námsmaður sem hugðist taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) að fá einhvern annan (t.d. foreldri, náinn ættingja eða vin) til að ábyrgjast lánið. Árið 2009 var lögum um sjóðinn breytt og skilyrðið um ábyrgðarmann afnumið. Hins vegar var ákveðið að sjálfsskuldarábyrgð ábyrgðarmanna yrði áfram virk á útistandandi lánum.

Augljós mismunun

Í þessu felst augljós mismunun sem BHM hefur lengi barist fyrir að verði leiðrétt. Mörg dæmi eru um dapurlegar afleiðingar ábyrgðarmannakerfisins þegar námslánaskuldir hafa fallið á ættingja eða vini lántaka. Jafnvel eru dæmi um að fyrrverandi makar eða tengdaforeldrar lántaka hafi orðið að taka á sig námslánaskuldir sem þau höfðu gengist í ábyrgðir fyrir. Einnig hafa fallið dómar sem leitt hafa í ljós að ábyrgðarmenn námslána njóta ekki jafnræðis á við ábyrgðarmenn annarra lána í fjármálakerfinu.

Biðin senn á enda

Nýlega lagði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fram frumvarp á Alþingi um Menntasjóð námsmanna. Þar er lagt til að tekið verði upp blandað kerfi námslána og styrkja í stað núverandi námslánakerfis. Í frumvarpinu er m.a. svohljóðandi bráðabirgðaákvæði (ákvæði nr. II til bráðabirgða):

„Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga skal falla niður við gildistöku laga þessara, enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Sama gildir um ábyrgðir á námslánum sem eru í óskiptum dánarbúum.

Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga fellur niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Lánþegi þarf í tilvikum 1. og 2. mgr. ekki að fá annan ábyrgðarmann nema lánþegi teljist ekki tryggur samkvæmt úthlutunarreglum.“

Þetta þýðir að verði frumvarpið að lögum mun ábyrgðarmannakerfið heyra sögunni til. Í ítarlegri umsögn BHM um frumvarpið er þessu fagnað enda um mikið réttlætismál að ræða sem BHM hefur lengi barist fyrir, eins og fyrr segir. Mikilvægt er að Alþingi afgreiði málið sem fyrst svo afstýra megi frekari skakkaföllum einstaklinga og fjölskyldna vegna þessa óréttláta fyrirkomulags.


Fréttir