Að gefnu tilefni vill BHM árétta að það er réttur starfsmanns, ekki vinnuveitanda, að ákveða við hverja hann á „í nánum tengslum“

28.8.2020

  • bhm_myndir_fyrir_heimasidu-4

Upp hafa komið tilvik þar sem vinnuveitendur og starfsmenn túlka á ólíkan hátt orðalagið „í nánum tengslum“ í 4. gr. gildandi auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Því áréttar BHM að vinnuveitandi hefur ekki rétt til að ákveða við hverja starfsmaður er „í nánum tengslum,“ þótt starfsfólk vinni náið saman daglega. Einstaklingar hafa í öllum tilvikum þann skilgreiningarrétt sjálfir.

Í 4. gr. fyrrnefndar auglýsingar um samkomutakmarkanir segir m.a. að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Sé starfsemin þess eðlis að krafist er meiri nálægðar milli einstaklinga, svo sem í heil­brigðis­þjónustu, skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem 2 metra fjar­lægð milli einstaklinga verður ekki við komið.

Vinnuveitanda ber að tryggja starfsmönnum heilsusamlegt umhverfi

Í útskýringum sóttvarnarlæknis á nálægðartakmörkunum vegna COVID-19, dagsettri 19. ágúst 2020, kemur fram að rekstraraðilum ber að tryggja einstaklingum sem ekki deila heimili a.m.k. 2 metra nálægðartakmörkun. Hinsvegar eru ekki lagðar skyldur á einstaklinga um að viðhafa 2 metra nálægðartakmarkanir.

Með tilliti til ofangreinds telur BHM það skýrt að vinnuveitanda ber að tryggja starfsmönnum sínum öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi með því að framfylgja tveggja metra reglunni ella gera viðeigandi ráðstafanir. Náin samvinna starfsfólks veitir ekki afslátt af tveggja metra reglunni.

Sjá nánar hér:
Auglýsing nr. 825/2020 (gildir frá 28. ágúst til 10. Sept.)
Útskýring sóttvarnarlæknis dagsett 19. ágúst 2020 


Fréttir