Aðalfundur BHM samþykkti fimm ályktanir

20.5.2016

Á aðalfundi BHM 2016, sem haldinn var í gær, voru samþykktar eftirfarandi fimm ályktanir um framtíðarskipan lífeyrismála, ríkisframlög til háskóla, bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga, stöðu ungs háskólafólks á vinnumarkaði og Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). 


Framtíðarskipan lífeyrismála

Aðalfundur BHM haldinn 19.5.2016 ítrekar fyrri samþykktir um framtíðarskipan lífeyrismála. Stefna ber að því að með tímanum verði til eitt samræmt lífeyriskerfi í landinu. Í viðræðum, sem nú standa yfir, um upptöku nýs samræmds lífeyriskerfis gagnvart opinberum starfsmönnum verði tryggt:

  • Að staðið verði að fullu við núverandi lífeyrisskuldbindingar gagnvart sjóðfélögum A- og B-deildar LSR, sem og sambærilegum sjóðum sveitarfélaga, hvort sem þeir hafa hafið töku lífeyris eða ekki.
  • Að sá munur sem kann að verða á núverandi kerfi og nýju lífeyriskerfi, komi ekki niður á komandi kynslóðum og verði bættur að fullu í launum.

Fjárframlög ríkisins til háskóla

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2017–2021 er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til háskóla hér á landi.  BHM skorar á alþingismenn að afgreiða tillöguna ekki óbreytta. Nú ríður á að löggjafarsamkoman sýni dug og framsýni og snúi af braut langvarandi undirfjármögnunar háskólastigsins. Framlag á hvern háskólanema hér á landi er helmingi lægra en á Norðurlöndunum. Það er óviðunandi staða.

Aðalfundur BHM tekur undir áhyggjur rektora háskóla á Íslandi af undirfjármögnun háskólastigsins og gerir orð þeirra að sínum:

Menntun er lykill að velsæld þjóða og rannsóknir eru drifkraftur framfara. Þess vegna er núverandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.

Sókn til framfara, atvinnuuppbyggingar og góðra lífskjara byggir hér eftir sem hingað til á háu menntunarstigi og öflugu starfi háskóla- og vísindasamfélagsins.

Bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga

BHM telur brýnt að bæta vinnubrögð við kjarasamninga og öflun launaupplýsinga eins og unnið hefur verið að á vettvangi Samstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagslegar forsendur kjarasamninga (SALEK) frá árinu 2013. BHM styður tilraunir til þess að hanna nýtt íslenskt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd en minnir á að í því ferli þurfi að gæta jafnræðis og taka tillit til sjónarmiða háskólamanna um að menntun skuli metin til launa, svo að um niðurstöðuna myndist nauðsynleg samstaða á vinnumarkaði.

Aðalfundur BHM ítrekar afstöðu formannaráðs bandalagsins til rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem gert var í október 2015. Samningaviðræður um jöfnun lífeyrisréttinda á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins þarf að leiða til lykta án óeðlilegs utanaðkomandi þrýstings. Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru ekki skiptimynt í SALEK-ferlinu.

Staða ungs háskólafólks á vinnumarkaði

BHM brýnir stjórnvöld til að móta atvinnustefnu til langs tíma sem ýtir undir rannsóknir, nýsköpun og fjölgun starfa sem krefjast háskólamenntunar. Fyrirhyggjuleysi í þessum efnum getur reynst dýrkeypt. Á síðasta ári brautskráðust tæplega 5.000 manns frá háskólum hér á landi. Ef þekking og atorka þessa stóra hóps á að nýtast í atvinnu- og athafnalífi hér á landi þarf að skapa skilyrði sem gera Ísland að ákjósanlegu og eftirsóknarverðu landi til að búa og starfa í. Hér er verk að vinna í samvinnu aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Aðalfundur BHM beinir því til stjórnvalda að málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði endurskoðuð og fullt samráð haft við bandalagið í því ferli. BHM ítrekar áherslur sínar að við ákvörðun um greiðslubyrði námslána sé tekið sérstakt tillit til greiðslugetu ungra barnafjölskyldna. Mikilvægt er að hafa hvata til að námsmenn ljúki námi á tilsettum tíma og hluta námslána verði breytt í styrk. BHM bendir á að námslán eru verðtryggð og stjórnvöld hafa ekki með neinum hætti unnið að leiðréttingu þeirra, því er þörf á aðgerðum. Við breytingar á námslánakerfinu sé einnig tryggt að LÍN gegni áfram jöfnunarhlutverki sínu.


Fréttir