Aðalfundur Fræðagarðs hvetur stjórnvöld til að koma til móts við háskólamenntaða sem misst hafa vinnuna

22.3.2021

  • Logo-FRG

Á aðalfundi Fræðagarðs, sem haldinn var 25. febrúar sl., var samþykkt ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna þess mikla fjölda háskólamenntaðs starfsfólks sem misst hefur vinnuna eða býr við skert starfshlutfall í kjölfar kórónuveirufaraldursins: „Aðalfundur Fræðagarðs hvetur stjórnvöld til að koma til móts við þennan hóp, til dæmis með auknum bótarétti vegna atvinnuleysis auk fjárveitinga til nýsköpunar og þróunarverkefna.“

Einnig var samþykkt ályktun um styttingu vinnuvikunnar þar sem allir hlutaðeigandi eru hvattir til að  ganga að því verkefni með sveigjanleika og sanngirni. Enn fremur ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að framlengja heimild til að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán. Ályktunum fundarins hefur verið komið á framfæri við stjórnvöld.

Stjórnarkjör í aðdraganda fundarins

Í aðdraganda fundarins fór fram rafræn kosning varaformanns en aðeins sitjandi varaformaður bauð sig fram, Helga Björg Kolbeinsdóttir, og var hún því sjálfkjörin. Einnig voru í aðdraganda fundarins kosnir tveir aðalmenn og tveir varamenn í stjórn. Linda Björk Markúsardóttir og Eðvald Einar Stefánsson náðu kjöri sem aðalmenn til tveggja ára og Óskar Marinó Sigurðsson og Ágúst Arnar Þráinsson voru kosnir varamenn til eins árs. 

Á fundinum voru enn fremur samþykktar nokkrar breytingar á lögum félagsins, m.a. að stjórn geti ákveðið  að skipuleggja aðalfund sem staðfund, rafrænan fund eða blöndu af hvoru tveggja.

Sjá nánar í fundargerð aðalfundarins á vef Fræðagarðs.


Fréttir